The Downfall of Pompeii

pompeii1* er fyrir 2-4 leikmenn, 10 ára og eldri
* tekur 45 mínútur

Um spilið

The Downfall of Pompeii var gefið út árið 2004 og er hannað af Klaus-Jürgen Wrede sem m.a. hannaði Carcassonne.  Spilið gerist á síðustu dögum Pompeii, þegar Vesuvius tók upp á því að gjósa árið 79 eftir Krist.  Spilið skiptist í tvo hluta.  Fyrri hlutann nota leikmenn til að koma sínum peðum haganlega fyrir í Pompeii.  Í seinni hlutanum, sem hefst eftir að eldfjallið hefur hafið gos, eiga leikmenn svo að reyna að koma sem flestum af sínum peðum út úr borginni og í skjól áður en það er um seinan.

pompeii4

Með þessu spili má setja peð í byggingu númer 4

Í upphafi spilsins fá leikmenn fjögur spil á hendi.  Þessi spil sýna einhverja af byggingunum í Pompeii.  Leikborðið samanstendur af fjölmörgum reitum sem sýna mislitar númeraðar byggingar sem svara til spilanna.  Einnig er við enda borðsins eldfjallið Vesuvius, en þangað eru þau peð sett sem ekki lifa af.  Fyrri hluti spilsins gengur síðan þannig fyrir sig að leikmenn fá að spila út einu spili í sinni umferð og staðsetja sitt peð í samsvarandi byggingu í borginni.    Á ákveðnum tímapunkti verður síðan svokölluð ættingaregla virk, en þá fá leikmenn að bæta við fleiri peðum í byggingar ef fyrir eru peð í byggingunni sem þeir eru að bæta peðum í (hljómar flókið?).  Eftir að leikmenn eru búnir að leggja niður spil og setja peð á leikborðið draga þeir nýtt spil þannig að þeir séu alltaf með fjögur spil á hendi.  Í bunkanum geta leynst fyrirboðaspil (Omen), en sá leikmaður sem dregur svoleiðis spil má taka peð andstæðings og henda því ofan í eldfjallið.

Þegar einhver leikmaður dregur svo eldfjallaspil hefst kapphlaupið um að koma sér út úr borginni.  Þá hætta leikmenn að nota spilin og dregnar eru 6 hraunflísar úr poka sem leikmenn staðsetja á leikborðinu.  Hver flís er auðkennd með einu af sex táknum, en samsvarandi reiti er að finna á leikborðinu.  Hraunflísunum er svo raðað eftir táknunum og öll peð sem verða undir flís enda í eldfjallinu.  Eftir það skiptast leikmenn á að koma sínum peðum út úr borginni.  Í hverri umferð byrjar leikmaður á að bæta hraunflís við borðið með tilheyrandi örlögum þeirra peða sem fyrir verða.  Síðan má hann færa tvö af sínum peðum jafn marga reiti og samsvarar fjölda peða á reitinum sem þau byrja för sína.  Þannig má færa peð sem byrjar á reit með fjórum peðum um fjóra reiti.  Næsta peð frá þessum reiti fær svo að fara þrjá reiti og svo koll af kolli.  Ef leikmaður nær að koma sínu peði út fyrir eitthvert af hinum sjö útgönguhliðum borgarinnar þá er það hólpið.  Sá leikmaður sem náð hefur að bjarga sem flestum peðum er svo sigurvegari í lokin. Ef tveir leikmenn eru jafnir þá eru talin peðin sem enduðu í eldfjallinu og sigrar sá leikmaður sem á fæst peð þar.

pompeii8

Hraunið farið að loka útgönguleiðum

Hvað finnst mér?

The Downfall of Pompeii er stutt og einfalt spil.  Það er bara tvennt sem hefur vafist aðeins fyrir mér og er það annars vegar uppsetningin á spilabunkanum í byrjun spilsins en bunkinn þarf að vera rétt upp byggður.  Svo er það hvernig staðsetja má peðin.  Sumar byggingarnar eru nefnilega tvískiptar og vafðist það aðeins fyrir mér í upphafi hvernig þessar tvískiptu byggingar virka sérstaklega í tengslum við ættingjaregluna.  En með því að skoða umræður á Boardgamegeek leystist það nú allt saman og nú kann maður spilið alveg upp á tíu.  Það getur svo verið snúið að raða sínu liði sem hentugast inn í borgina.  Í fyrri hlutanum, þar sem verið er að staðsetja peðin, er um að gera að reyna að koma sem allra flestum peðum inn á leikborðið og þá getur skipt sköpum að ná að vera í byggingum sem eru nálægt útgönguleiðum.  Svo er gott að vera með sín peð innan um aðra leikmenn því þá eru minni líkur á því að þeir skelli á þig hraunflís.  Það er að ýmsu að huga.

Niðurstaða

Það er ekki víst að allir kunni að meta The Downfall of Pompeii, þar sem spilið gengur út á að vera sem leiðinlegastur við aðra leikmenn.  Fólk verður bara að setja sig í ákveðinn gír, reyna að loka útgönguleiðum annarra og senda sem flest önnur peð á vit örlaga sinna.  Því er ekki víst að spilið henti hverjum sem er.  En fyrir okkur hin, sem sjáum ekkert að því að vera nastí svona endrum og sinnum, þá er The Downfall of Pompeii stórgott spil.

Því miður er ég ekki viss um hversu auðvelt er að verða sér út um spilið í dag, en ef þú rekst á eintak þá er ekkert um annað að ræða en að grípa það.  Bara muna að spila þetta ekki með hörundsáru fólki.

[scrollGallery id=54 autoScroll=false thumbsdown=true imagearea=“imgarea“]

Love Letter

* er fyrir 2-4 leikmenn, 10 ára og eldri
* tekur 20 mínútur

Um spilið

Love Letter kom út síðla árs 2012 og er hannað af Seiji Kanai, sem er japanskur spilahönnuður.  Til eru tvær meginútgáfur af spilinu, ein gefin út af Japon Brand og inniheldur myndskreytingar í japönskum anime stíl og svo er önnur frá Alderac Entertainment Group (AEG) sem er myndskreytt í takt við Tempest spilaseríuna frá þeim.  Útgáfan sem ég á er frá AEG, kemur í litlum taupoka og inniheldur 16 persónuspil og nokkra rauða kubba sem eiga að vera einhverskonar væntumþykjutákn (tokens of affection). Í Love Letter eiga leikmenn að reyna að koma ástarbréfi til Annette prinsessu í hverri umferð og vinna sér inn væntumþykjutákn.  Sá sem fyrst nær ákveðið mörgum táknum vinnur hug hennar og hjarta og þar með spilið.  Það er gert með því að enda í hverri umferð með hæsta persónuspilið á hendi, þ.e. með þá persónu sem næst stendur prinsessunni í hirðinni, en öll spilin eru númeruð frá 1 upp í 8.  Að auki er hægt að vinna umferðina með því að útiloka aðra leikmenn.

loveletter3

Love Letter: Prinsessan sjálf

Í upphafi fá leikmenn eitt persónuspil á hendi.  Í sinni umferð dregur leikmaður eitt persónuspil úr sameiginlegum bunka og ákveður hvort spilið hann ætli að nota og hvort þeirra hann ætli að geyma.  Spilin eru notuð með því að leggja þau niður á borðið og framkvæma það sem á spilinu stendur.  Persónurnar gera margt misjafnt og þurfa leikmenn að reyna að beita útsjónasemi til að annað hvort enda með hæsta spilið á hendi eða ná að útiloka alla aðra leikmenn. Hægt er að útiloka leikmenn á nokkra vegu, t.d. með því að nota vörðinn (Guard) sem leyfir manni að giska á hvaða persónuspil annar leikmaður er með.  Ef maður hefur rétt fyrir sér þá er sá hinn sami úr umferð.

Hvað finnst mér?

Love Letter er mjög einfalt spil.  Fólk getur farið að spila það nánast án útskýringa enda stendur á spilunum hvað hver persóna gerir.  Það eina sem tekur smá tíma að læra inn á er hvaða persónur eru við hirðina og hversu margar eru af hverri þeirra.  Það sem hjálpar til í því er samantektarspjald sem allir leikmenn fá í byrjun.  En þó spilið sé mjög einfalt getur verið snúið að ná að vinna.  Heppni getur spilað stóra rullu þar sem maður getur lent í því að draga mjög gott persónuspil trekk í trekk.  Svo er ekki endilega gott að lenda í því að fá snemma á hendi mjög hátt spil.  Þá vandast nefnilega málið því að halda því leyndu fyrir öðrum og sitja á því spili þar til yfir lýkur er hægara sagt en gert.

loveletter4

Love Letter: Presturinn, Baróninn og Greifynjan

Spilið hentar vel tveimur til fjórum en við höfum reyndar spilað það átta saman í fjórum tveggja manna liðum án vandræða.  Það hefur samt aðeins átt það til að dragast á langinn í fjögurra manna spili þar sem einhver einn þarf að safna fjórum væntumþykjutáknum til að vinna og ef fólk er lengi að ákveða sig í sinni umferð þá getur það virkað langdregið á köflum, sérstaklega fyrir þá sem detta út snemma í umferðinni.  En hver umferð á ekki að þurfa að taka langan tíma, enda eru bara 11 persónuspil að draga í fjögurra manna spili.

Niðurstaða

Love Letter er mjög gott spil og get ég mælt með því fyrir alla sem hafa gaman af blöffspilum.  Love Letter er í augnablikinu eitt af mínum uppáhalds stuttu uppfyllingarspilum, mjög meðfærilegt og hægt að spila nánast hvar sem er við hvern sem er.

star_goldstar_goldstar_goldstar_goldstar_half
(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)

Spilað fyrir allan peninginn – 31/39:Key Largo

keylargo1Um helgina náði ég að fá eldri soninn til að spila við mig með því að sannfæra hann um að Key Largo hentaði honum örugglega betur en Hringadróttinsspilið. Það reyndist rétt og áttum við notalega spilastund, kafandi eftir fjársjóðum við Key Largo.  Spilið gengur út á að senda kafara til að kafa niður að skipsflökum, sem liggja á mismunandi dýpi, og sækja þangað fjárssjóði sem maður selur síðan á markaði eða geymir þar til í lok spilsins.  Í upphafi fá leikmenn einn kafara sem getur kafað niður að skipsflökum á grunnu dýpi.  Flökin liggja hins vegar misdjúpt og þurfa kafararnir aukabúnað (slöngur) til að geta farið dýpra.  Einnig er gáfulegt að kaupa handa þeim spjót sem þeir nota ef þeir komast í návígi við neðarsjávarskrýmsli og einnig lóð, en með þeim mega kafararnir kafa aftur að sama flakinu í sömu umferð.  Spilað er í 10 umferðir, en í hverri umferð fá leikmenn að velja eitthvað tvennt sem þeir vilja gera; ein aðgerð fyrir hádegi og önnur eftir hádegi.

keylargo2

Key Largo: Kafað eftir fjársjóðum

Aðgerðirnar sem hægt er að velja um eru mismunandi; hægt er að skreppa á kránna til að ráða fleiri kafara, fara í verslunina til að kaupa súrefnisslöngur, lóð og spjót, selja gull og gersemar á markaðnum, kafa eftir fjársjóðum eða fara með ferðamenn í höfrungaskoðun.  Key Largo er mjög einfalt spil og í byrjun fannst mér það kannski einum of einfalt.  En svo fór ég nú aðeins að meta það betur eftir því sem á leið og hafði bara gaman af.  Sonurinn skemmti sér einnig vel og var miklu hrifnari af þessu en Hringadróttinsspilinu.

keylargo3

Key Largo: Spilin sem maður notar til að velja aðgerðir

Fjöldi spilara skiptir svolítið miklu máli í Key Largo þar sem kostnaður t.d. við að ráða kafara og kaupa búnað eykst eftir því sem fleiri leikmenn velja þær aðgerðir í sömu umferð og þú.  Einnig fellur verð á gulli og gersemum á markaði eftir því sem fleiri eru að reyna að selja.  Annars gengur spilið mikið út á reyna á heppnina í því að draga spil úr skipsflakabunka og vera með spjót til reiðu skyldi maður rekast á neðansjávarskrýmsli.  Í það heila er Key Largo ágætis fjölskylduspil, en ekki mikið meira en það.

keylargo4

Key Largo: Skipsflök á mismunandi dýpi

keylargo5

Key Largo: Kafarar með búnað og pappírspeningar

keylargo6

Key Largo: Fjársjóðsspil

 

keylargo7

Key Largo: Úrvalið af köfurum

keylargo8

Key Largo: Neðansjávarskrímsli

keylargo9

Key Largo: Blár í höfrungaskoðun en grænn á markaðnum

keylargo10

Key Largo: Allir komnir í höfn

Spilað fyrir allan peninginn – 30/39:Gang of Four

gangoffour1Á föstudagskvöldið mættu góð vinahjón til okkar í spilerí.  Auk þess að spila The Downfall of Pompeii og Intrigo náði ég að lauma með einu spili af listanum sem virðist ætla að verða lengi að klárast.  Við spiluðum Gang of Four, en það er 3-4 manna spil sem gefið var fyrst út árið 1990.  Útgáfan sem ég á er reyndar frá 2005 og var gefið út af Days of Wonder sem m.a. hafa gefið út Ticket to Ride.  Gang of Four er kortaspil sem inniheldur 64 spil þar sem markmiðið er að enda með sem fæst spil á hendi í lok hverrar umferðar.  Í upphafi umferðar skipta leikmenn þessum 64 spilum á milli sín.  Spilin eru númeruð frá 1 upp í 10 í þremur litum; grænum, gulum og rauðum. Einnig eru í bunkanum tveir fönixar, annar grænn og hinn gulur og svo einn stakur dreki.

Spilið gengur þannig fyrir sig að fyrsti leikmaðurinn (sá sem hefur marglitaða ásinn á hendi) spilar úr spili eða spilum.  Hægt er að setja út stök spil, pör, þrennur eða einhverja af fimm spila samsetningum t.d. röð (straight) eða fullt hús. Næsti leikmaður þarf svo að spila út spilum sem eru hærri en þau sem lögð voru niður á undan.  Svona gengur þetta koll af kolli þangað til fyrsti leikmaðurinn losnar við sitt síðasta spil, en þá lýkur umferðinni samstundis.  Aðrir leikmenn fá svo mínusstig fyrir spilin sem þeir eru með á hendi, 1 stig á spil ef þeir eru með 1-7 spil eftir, 2 stig á spil ef þeir eru með 8-10 spil o.s.frv.  Mest er hægt að fá 80 mínusstig ef leikmaður nær ekki að losa sig við eitt einasta spil.

gangoffour2

Gang of Four: Spilasafnið

Ef leikmaður getur ekki toppað það sem á undan var lagt niður hefur hann möguleikann á að spila út „Gang of four“ sem eru fjögur spil öll með sama númerinu.  Þau trompa sem sagt allt saman, en aðrir sem á eftir fylgja mega reyna að leggja niður hærra „Gang of four“.  Fönixana er svo hægt að nota staka, sem stakt par eða sem par í fullu húsi en drekinn er hæsta staka spilið.

gangoffour4

Gang of Four: Fönixarnir

Í reglunum er gert ráð fyrir að spilað sé upp í 100 stig, þ.e. að þegar einhver leikmaður nær 100 stigum lýkur spilinu og sá sem hefur fæst stig vinnur.  Þannig byrjuðum við en áttuðum okkur snemma á því að spilið er aaaaaaaalt of langt ef spilað er upp í 100, alla vega með óreyndu fólki í fyrsta sinn.  Við á endanun miðuðum við 75 stig en ég myndi ætla að í næstu spilun myndum við spila upp í 50, þannig dregst spilið ekki um of á langinn, en þá er eins gott að enginn endi með öll spil á hendi eftir fyrstu umferð því þá er spilið búið áður en það byrjar.  Við vorum bara vel sátt við Gang of Four, um leið og maður er farinn að átta sig á hvaða samsetningar eru leyfilegar þá fer spilið að ganga hraðar fyrir sig og maður fer að geta spilað meira strategískt.

gangoffour5

Gang of Four: Drekinn

gangoffour3

Gang of Four: Þristar mismunandi öflugir, sá rauði sterkastur

gangoffour6

Gang of Four: Yfirlitsspjaldið sem sýnir leyfilegar útspilanir

Spilað fyrir allan peninginn – 24/39:Yggdrasil

yggdrasil1Yggdrasil er eitt þessara spila sem er búið að liggja í safninu í marga marga mánuði.  Mig minnir að ég hafi keypt það í Lúxemborg í nóvember 2010.  Því var ekki seinna vænna en að nýta tækifærið á meðan ég var heima í vikunni með yngri soninn í veikindum og spilið ennþá á listanum yfir óspiluð spil.  Yggdrasil er samvinnuspil fyrir 1-6 leikmenn og því prófaði ég að spila það einn.  Spilið gengur út á baráttu norrænu goðanna við óvini sína eins og Fenrisúlf, Loka, Hel og Surt sem ætla sér að eyðileggja Yggdrasil, tré lífsins.  Leikmenn velja sér goð til að nota í baráttunni og fá með honum einhvern eiginleika sem hægt er að nota.  Þór er t.d. alltaf með +1 í styrk í baráttu á meðan Freyja má nota fjórar aðgerðir í stað þriggja eins og venja er hjá hinum.  Í byrjun hverrar umferðar er dregið spjald úr óvinastokkinum sem sýnir hver af óvinum goðanna færist áfram í gegnum Ásgarð, Valhöll og nær heimili Óðins.  Ef ákveðið margir óvinir ná ákveðið langt á leiðinni að heimili hans er maður búinn að tapa spilinu.  Ef maður nær hins vegar að fara í gegnum óvinastokkinn áður en það gerist er maður búinn að vinna.  Til að berjast við óvinina verður maður að sækja sér aðstoð, m.a. ná í vopn og safna liði víkinga eða álfa.  Svo skiptir náttúrulega miklu máli hvernig manni gengur í teningakasti, en það getur skipt sköpum í átökunum.  Svona gengur þetta fram og til baka þangað til maður annað hvort vinnur eða tapar.

yggdrasil2

Yggdrasil: Leikborðið uppsett

Yggdrasil virkar þannig, eins og flest öll samvinnuspil, að annað hvort vinna leikmennirnir eða tapa.  Þetta virkar allt mjög svipað, óvinurinn færist áfram og eitthvað vont gerist og svo er það leikmanna að bregðast við.  Það er ekkert mál að spila svona spil einn, ég hef líka prófað það með Ghost Stories og Pandemic með ágætum árangri.  Ég beið þó í lægra haldi fyrir öllum óvinunum í Yggdrasil í þetta skiptið og tók það mig ekki nema u.þ.b. helminginn af fyrirliggjandi umferðum.  Spurning um að reyna einhverja aðra strategíu næst.  Hægt er að stilla af erfiðleikastuðulinn, en ég reyndi nú bara við það auðveldasta svona í fyrsta skiptið.

yggdrasil4

Yggdrasil: Óvinirnir sex

Yggdrasil er fínt spil, það sem heldur því m.a. uppi er mjög flott hönnun leikborðsins og hversu hrikalega vel myndskreytt öll spjöld eru.  Norræna goðaþemað spilar einnig stóra rullu í því hversu gaman er að spila Yggdrasil.  Ég sé nú alveg fyrir mér að spila þetta við einhverja fleiri, eða þá bara einn aftur.  Annars geri ég nú ráð fyrir að ég sé kominn með nóg af samvinnuspilum í safninu; norræn goðafræði (Yggdrasil), sökkvandi fjársjóðseyja (Forbidden Island), heimsfaraldur (Pandemic). draugaþorp (Ghost Stories) og hrynjandi musteri (Escape).

yggdrasil5

Yggdrasil: Þetta lið mætir með Loka og þarf maður einnig að kljást við það

yggdrasil7

Yggdrasil: Þór mættur á svæðið

yggdrasil3

Yggdrasil: Óvinirnir færast nær heimili Óðins (lengst til hægri)