Colt Express ★★★★

colt_expressFyrir 2-6 leikmenn, 10 ára og eldri.
Tekur 30 mínútur.


Enskar reglur fyrir Colt Express eru að finna hér.


Kynningareintak af spilinu var fengið hjá versluninni Spilavinum.

Um spilið

Sagan á bak við Colt Express er sú að 11. júlí árið 1899 lagði Union Pacific Express lestin af stað frá Folsom í Kaliforníu með 47 farþega innanborðs og mikið af peningum sem átti að nota á útborgunardegi kolanámuverkamanna hjá Nice Valley Coal Company. Leikmennirnir eru hópur lestarræningja sem ráðast til inngöngu í lestina og reyna að ræna peningum, bæði af farþegunum sem og útborgun verkamannanna. Um borð í lestinni er einnig lögreglustjórinn Samuel Ford og gæti hann reynst ræningjunum óþægur ljár í þúfu.

coltexpress02

Lestin uppsett fyrir sex leikmenn

Í upphafi er pappalestarlíkani, sem samsett er úr allt að sex stökum lestarvögnum, stillt upp á mitt borðið og upphafsleikmaður valinn af handahófi. Lestarvagnarnir eru hafðir jafn margir leikmönnum og peningaveskjum og gimsteinum dreift á gólfið í lestarvögnunum eftir ákveðinni forskrift sem prentuð er á gólfi hvers vagns. Hver gimsteinn er $500 virði á meðan veskin innihalda frá $250 til $500. Fremst í lestina, í vélarvagninn, er lögreglustjórinn Samuel Ford staðsettur ásamt skjalatösku sem inniheldur $1000. Hver leikmaður velur sér einn lestarræningja af þeim sex sem í boði eru. Ræningjarnir hafa allir sérstaka eiginleika sem leyfa þeim að framkvæma eitthvað sem hinir hafa ekki kost á að gera.

Hver leikmaður tekur sitt leikmannaborð, aðgerðaspil, byssuspil og setur sitt peð í annan hvorn af öftustu tveimur vögnunum eftir því hvar í röðinni hann er (1., 3. og 5. leikmaður byrja í aftasta vagninum á meðan 2., 4. og 6. byrja í þeim næstaftasta). Fjögur umferðaspjöld eru dregin af handahófi og einu lokaumferðarspjaldi bætt aftast við. Sá sem á leik snýr efsta umferðaspjaldinu við, en það sýnir hvernig leikmenn eiga að spila út aðgerðaspilum í þeirri umferðinni.

coltexpress04

Leikborðið hans Doc, en í upphafi umferðar má hann hafa sjö spil á hendi

Hver umferð skiptist niður í tvo fasa: Ráðabruggið (Schemin’) og Ránið (Stealin’).

Ráðabruggið virkar þannig að leikmenn stokka aðgerðaspilin sín og draga sex á hendi (nema Doc, en hans eiginleiki er að fá sjö spil á hendi í byrjun hverrar umferðar). Aðgerðirnar sem þessi spil sýna eru aðgerðirnar sem leikmaðurinn hefur úr að velja í umferðinni. Hver leikmaður spilar út einu aðgerðaspili í einu (eða tveimur ef umferðaspilið segir) þangað til allir leikmenn eru búnir að spila út öllum þeim spilum sem þeir mega. Þannig „forrita“ leikmenn aðgerðir fram í tímann. Mögulegar aðgerðir eru að:

  • færa sinn ræningja á milli lestarvagna eða hlaupa eftir þakinu á lestinni,
  • klifra upp á þak lestarvagns eða færa sig ofan af þaki niður í lestarvagn,
  • kýla annan lestarræningja,
  • skjóta annan lestarræningja,
  • stela verðmætum, eða
  • færa lögreglustjórann á milli tveggja lestarvagna.

 

Ránið fer svo þannig fram að sá sem á leik tekur aðgerðaspilabunkann saman, snýr honum við þannig að fyrsta spilið sem var lagt niður er það fyrsta sem er sýnt, og byrjar að sýna spilin eitt í einu. Hver leikmaður framkvæmir þá aðgerð sem er á spilinu hans og færir ræningjann sinn í samræmi við aðgerðirnar. Oft á tíðum fara hins vegar plönin út um þúfur þar sem einhver annar er búinn að framkvæma sína aðgerð sem hefur hugsanlega áhrif á þína. Þannig geta leikmenn bæði verið mjög heppnir og svo einnig mjög óheppnir.

coltexpress06

Aðgerðaspilin hans Doc

Ef leikmaður er skotinn af öðrum leikmanni fær hann byssuspil frá þeim ræningja sem hann þarf að stokka með sínum aðgerðaspilum fyrir næstu umferð. Þannig fara byssuspilin að þvælast fyrir aðgerðaspilunum. Ef lögreglustjórinn er færður inn í vagn þar sem ræningjar eru fyrir, þurfa þeir að flýja upp á þak og fá í stokkinn sinn óþarfa spil frá lögreglustjóranum. Ef leikmaður er kýldur missir hann eina pyngju á gólfið í þeim lestarvagni sem hann er staðettur í.

Svona gengur spilið í fimm umferðir, en þá telja ræningjarnir góssið og sá sem hefur stolið mestu vinnur spilið. Sá sem hefur skotið flestum skotum úr sinni byssu fær einnig $1000 bónus fyrir að vera mesti byssubófinn. Samanlagður ránsfengur segir svo til um sigurvegarann.

coltexpress05

Byssuspilin hans Doc


Hvað finnst mér?

Colt Express er hraðspilandi lestarringulreið. Sama hversu vel maður reynir að skipuleggja sínar aðgerðir eru líkur á því að aðgerðir einhverra annarra leikmanna setji mann algerlega út af sporinu. Spilið er mjög einfalt og gengur tiltölulega hratt fyrir sig. Það er einna erfiðast að reyna að skipuleggja hvað maður ætlar að gera og muna hvaða aðgerðaspil maður lagði niður síðast. Það getur nefnilega verið mjög svekkjandi að misreikna sig og eyðileggja heila umferð fyrir sjálfum sér.

Lestarlíkanið er mjög flott og gefur spilinu einstakan blæ. Það var heilmikið púsl að setja lestarvagnana saman í upphafi, en vagnarnir eiga hver sinn stað í kassanum og því þarf ekki að taka hana í sundur aftur. Pappastandar sem sýna kaktusa og steina fylgdu einnig með, en ég hef nú aldrei nennt að raða þeim sérstaklega upp fyrir spilun, sé ekki alveg tilganginn með því enda hafa þeir ekkert hlutverk í spilinu.

coltexpress11

Lestarræningjarnir hefja leik í tveimur öftustu vögnunum

Sex manna virkar spilið vel, lestarvögnunum fjölgar með hverjum leikmanninum og því eru allir sex tengdir þegar svo margir eru að spila. Þrátt fyrir allan þennan fjölda leikmanna hef ég ekki orðið var við að spilið dragist eitthvað á langinn, þessi fjöldi eykur hins vegar á ringulreiðina og ennþá erfiðara að plana almennilega sínar aðgerðir.

Sérstakar reglur eru til að hægt sé að spila Colt Express tveggja manna, en þá stýrir hver leikmaður tveimur ræningjum og samanlagður ránsfengur tveggja manna gengisins segir til um sigurvegarann. Einnig er hægt að spila spilið með aðeins flóknari reglum sem gefa leikmönnum meiri stjórn á þeim aðgerðaspilum sem þeir hafa á hendi.

coltexpress16

Umferðarspilin sýna hvernig spila eigi út aðgerðarspilum og hvað gerist hugsanlega í lok umferðar


HVAÐ ER GOTT:

⇑ Colt Express virkar vel fyrir allt að sex leikmenn.
⇑ Lestarlíkanið er mjög flott og ýtir undir tilfinninguna að maður sé raunverulega að ræna lestarvagna.
⇑ Spilunin gengur venjulega hratt fyrir sig og tekur sjaldnast meira en 30 mínútur.

HVAÐ ER EKKI SVO GOTT:

⇓ Ekki hentugt fyrir þá sem þola illa ringulreið í spilum og vilja hafa fulla stjórn á því sem gerist í sinni umferð.


Niðurstaða

Colt Express er mjög flott og skemmtilega hannað spil. Spilunin gengur hratt fyrir sig og ringulreiðin á köflum alger. Engu að síður er eitthvað mjög svo heillandi við að ræna farþegana, kýla og skjóta á aðra ræningja og reyna að sleppa undan lögreglustjóranum … og sjá svo bara til í lokin hvort manni hafi tekist að ræna nógu miklu af peningum til að vinna.

Stórskemmtilegt spil fyrir alla þá sem vilja skemmta sér um stutta stund í ekki of alvörugefnu spili.

star_goldstar_goldstar_goldstar_graystar_gray

(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)

La Boca

laboca01Fyrir 3-6 leikmenn, 8 ára og eldri.
Tekur 40 mínútur.


La Boca var eitt af spilunum sem Spiel des Jahres dómnefndin mælti með í aðdraganda verðlaunanna fyrir árið 2013.

Enskar reglur fyrir La Boca eru að finna hér.

Um spilið

laboca03La Boca er samvinnu- en samt um leið samkeppnisspil, en  hugmyndin að baki spilinu er sprottin út frá samnefndu hverfi Buenos Aires í Argentínu þar sem húsin í hverfinu eru máluð í mörgum mismunandi litum (sjá allt um það hér).

Leikmenn velja sér eina stóra skífu í lit að eigin vali og fá allir aðrir leikmenn litla skífu í lit hinna leikmannanna. Hver leikmaður tekur litlu skífurnar, snýr þeim á hvolf og ruglar þeim saman. Í sinni umferð dregur leikmaður eina litla skífu úr bunkanum fyrir framan sig og parar sig við þann leikmann sem á þann lit.  Leikmennirnir sitja svo andspænis hvor öðrum og staðsetja spilið á milli sín.  Spjald, sem sýnir hvernig La Boca á að líta út er svo sett upp á endann á spilaborðið.  Þessi spjöld eru tvíhliða, með mismunandi kubbauppröðun og litum á sitt hvorri hliðinni.  Það á hins vegar að vera hægt að raða kubbunum upp þannig að báðir fái út rétta útkomu miðað við það sem stendur sínum megin á spjaldinu.  En til þess verða leikmenn að vinna saman og reyna að lýsa fyrir hvor öðrum hvað þeir séu að reyna að byggja og hvaða liti þeir vilji, og vilji ekki, sjá.  Einnig er grundvallaratriði að notaðir séu allir kubbarnir, jafnvel þó þeir sjáist ekki á spjaldinu, en þá verður maður bara að reyna að fela þá. Grind á spilaborðinu sýnir svo innan hvaða ramma leikmenn verða að byggja, ekki má byggja út fyrir grindina.

laboca05

Svona líta byggingarnar út öðru megin …

laboca06

… og svona eru þær hinu megin

Áður en leikmennirnir byrja að byggja er klukkan sett í gang og fást stig eftir því hversu hratt þeim gengur að byggja.  Þegar þeir telja sig vera komna með rétta samsetningu stöðva þeir klukkuna og farið er yfir uppbygginguna.  Ef þeim hefur tekist verkið fá þeir stig miðað við hversu fljótt þeim tókst þetta, allt frá 10 stigum niður í 1.  10 stig fást ef leikmenn voru 15 sekúndur eða skemur að byggja, en 1 stig ef þeir voru allt frá 1:41 upp í 2 mínútur. Eftir 2 mínútur fást engin stig og þá allt eins hægt að hæta.  Ef villa er í byggingunni fá leikmennirnir engin stig.  Næsti leikmaður réttsælis snýr þá lítilli skífu við hjá sér og parar sig við annan leikmann.  Nýtt spjald er dregið og klukkan sett í gang.  Þannig gengur spilið þangað til allir hafa fengið að byggja tvisvar sinnum saman.  Þá eru stigin talin og sigurvegari fundinn.

laboca07

La Boca

Spilið skiptist í tvo erfiðleikaflokka, í þeim auðveldari eru notuð ljósu spilin en í flóknari eru notuð spilin með dekkri bakgrunn og bætist þá rauður L-laga kubbur í flóruna sem verður að byggja úr. Það getur hins vegar verið snúið að reyna að koma honum fyrir.

Hvað finnst mér?

La Boca er skemmtilega ferskur vinkill, einhverskonar samvinnu-púsl-þraut undir tímapressu. Spilið er litríkt, fjörugt, tekur stuttan tíma og hentar breiðum hópi. Mér hefur fundist La Boca einna best með fjórum leikmönnum. Ef sex eru að spila getur einn lent í því að spilað sé í fimm umferðir án þess að hann fái að gera. Einnig er vesen með svona stóran hóp að þurfa að vera að færa sig til í sætum. Fjórir finnst mér því vera langhentugasti fjöldinn. Einna skemmtilegast hefur mér einnig fundist að spila La Boca í lok spilakvölds eftir nokkra bjóra. Þá hefur nú aldeilis slegið í brýnu á milli annars samlyndra hjóna sem eru að reyna að koma til skila hvað sé verið að reyna að byggja þeirra megin borðsins  :tounge:

Það tekur örstutta stund að kenna spilið og um leið og fólk er komið í gírinn og búið að ná hvernig La Boca á að byggjast er hægt að byrja.

Niðurstaða

Mjög skemmtilegt og fjörugt fjölskyldu-/partýspil, en aðeins minna skemmtilegt með 5-6 leikmönnum.

star_goldstar_goldstar_goldstar_graystar_gray

(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)

River Dragons

riverdragons01Fyrir 2-6 leikmenn, 8 ára og eldri.
Tekur 30 mínútur.


Spilið kom upphaflega út árið 2000 og þá undir nafninu Dragon Delta. River Dragons er gefið út af Matagot og er fáanlegt með enskum reglum (sjá hér).

Um spilið

River Dragons gengur í stuttu máli út á að koma sínu peði þvert yfir á, frá einum kofanum til þess næsta.  Að sjálfsögðu er þessi einfalda spilahugmynd skreytt og flúruð til að gera hana skemmtilegri, en svona er spilinu lýst af framleiðandanum:

„In the Mekong delta, every year, the bravest young people face each other in a famous contest. Building bridges with planks and stones, they have to cross the river to reach the village on the opposite bank.“

Leikborðið í River Dragons sýnir sem sagt „Mekong delta“ í Víetnam og eiga leikmenn að setja niður steina og planka til að búa til leið yfir ána. Ekki nóg með það heldur þarf maður að komast framhjá öðrum leikmönnum án þess að detta í vatnið.

riverdragons02

Leikborðið með fyrirfram staðsettum eyjum

Í upphafi spilsins byrja leikmenn með sitt peð á sinni litlu eyju. Markmiðið er að byggja brúarleið yfir á eyjuna sem er hinu megin við ána og komast þangað áður en einhverjum öðrum tekst að komast í sinn kofa. Leikborðið er tvíhliða, á annarri hliðinni er áin með nokkrum litlum stein-eyjum en á hinni hliðinni er áin eyjulaus. Leikmenn fá svo til nokkur spil á hendi sem sýna mismunandi aðgerðir og einnig sex mismunandi langa planka sem þeir þurfa að nota til að útbúa sér leið yfir ána.

riverdragons05

Aðgerðaspilin og plankarnir fyrir rauðan

Í hverri umferð velja leikmenn í leyni fimm aðgerðir sem þeir vilja framkvæma og raða niður viðeigandi spilum í rétta röð. Allir snúa svo við samtímis fyrsta spilinu og framkvæma þá aðgerð réttsælis frá yngsta leikmanninum, sem hefur leikinn. Hægt er að velja m.a. um að leggja niður einn eða svo steina, einn eða tvo planka, labba inn á einn planka eða hlaupa yfir tvo planka, hoppa yfir annan leikmann eða fjarlægja stein eða planka. Einu sinni í hverri umferð getur leikmaður svo valið að leggja niður drekaspil í einhverjum lit sem þýðir að leikmaður sem á peð í þeim lit fær ekki að gera það sem hann ætlaði sér, þar sem drekaspil blokkerar aðgerðaspil.  Þannig er hægt að hindra aðra leikmenn um leið og maður reynir að koma sjálfum sér áfram, þangað til maður er hindraður sjálfur. Ef eitthvað fer svo úrskeiðis og aðgerðin sem var valin veldur því að peðið myndi detta í ána þarf að færa það á upphafseyjuna og byrja aftur.

riverdragons06

Aðgerðaspil

Þegar þessar fimm aðgerðir hafa verið kláraðar (eða ekki kláraðar ef maður fær á sig dreka) taka leikmenn aðgerðaspilin aftur á hendi og leggja niður fimm ný.  Svona gengur spilið þangað til einhverjum tekst að komast yfir á sinn ákvörðunarstað en þá endar spilið samstundis. Sá sem kemst á leiðarenda vinnur.

Hvað finnst mér?

Ég sá River Dragons fyrst í Essen 2012 og vakti spilið strax athygli mína, enda mjög fallega myndskreytt og framleiðslan fyrsta flokks. Matagot, sem gefa spilið út, eru líka þekktir fyrir gæða framleiðslu eins og sést t.d. á Cyclades og Kemet. Fyrst þegar ég spilaði spilið (með sex leikmönnum á spilakvöldi Spilavinum) fannst mér það svona la-la. Fólk var ekki mikið að stöðva aðra leikmenn og einum tókst á undraskjótum tíma að komast yfir og þá var spilið bara búið. Eftir að hafa spilað það nokkrum sinnum síðan þá, í góðra vina hópi, hefur það þó náð að heilla mig.

riverdragons09

Peðin sem keppa

Við höfum átt mjög skemmtilegar stundir við að reyna að komast yfir ána … og skemma fyrir öðrum í leiðinni. Að komast yfir er alls ekki eins auðvelt og halda mætti. Að auki er River Dragons fyrir allt að sex leikmenn, sem er kostur. Oft vantar manni létt spil sem hentar fyrir þrenn pör, allavega er  það ansi oft þannig hjá okkur að við erum akkúrat sex að spila.

Niðurstaða

Það er óhætt að mæla með River Dragons, þetta er fallegt og skemmtilegt spil og hentar vel breiðum hópi. Myndi samt ekki spila River Dragons við hörundsárt fólk með keppnisáráttu á háu stigi … það gæti endað illa :grin:

[scrollGallery id=66 autoScroll=false thumbsdown=true imagearea=“imgarea“]

Las Vegas

lasvegas1Fyrir 2-5 leikmenn, 8 ára og eldri.
Tekur 30 mínútur.


Gefið út af Ravensburger og Alea og er fáanlegt með enskum reglum.


Las Vegas var tilnefnt til Spiel des Jahres verðlaunanna árið 2012, en laut í lægra haldi fyrir Kingdom Builder.

Um spilið

Las Vegas gengur út á að vinna sem mestan pening í spilavítum, hvar annars staðar en í Las Vegas. Í upphafi spils eru lögð niður sex spilavíti númeruð frá einum upp í sex. Við hvert þessara spilavíta er lagður niður peningavinningur sem dreginn er úr bunka með mismunandi vinningum frá 10.000 dollurum upp í 90.000. Ef verðmæti vinnings sem dreginn er er undir 50.000 þá er dreginn annar vinningur til viðbótar. Þannig geta sum spilavítin verið með fyrsta, annan og jafnvel þriðja og fjórða vinning. Önnur eru þá kannski með einn vinning upp á 90.000. Þannig breytist verðmæti vinninga í spilavítunum í hverri umferð, en spilaðar eru fjórar umferðir.

lasvegas5

Las Vegas: Spilavítin tilbúin að taka á móti spilurum

Hver leikmaður fær átta teninga. Í sinni umferð kastar leikmaður sínum teningum og verður að úthluta einu teningasettinu á viðkomandi spilavíti.  Teningar sem upp hafa komið með tölunni 1 fara á spilavíti nr. 1 o.s.frv. Leikmaður verður alltaf að velja að setja teninga á eitt spilavíti, hversu illa sem honum líkar við það. Svona gengur þetta hring eftir hring, maður kastar teningunum og bætir einhverjum við á spilavíti. Þegar leikmennirnir hafa komið öllum sínum teningum fyrir er farið yfir hver hefur hlotið vinning í hvaða spilavíti. Aðalreglan er sú að sá sem er með flesta teninga á spilavíti hlýtur hæsta vinninginn og svo koll af kolli. Ef einhverjir leikmenn eru hins vegar með jafn marga teninga á spilavíti þá fær hvorugur þeirra vinning. Þannig geta leikmenn skemmt fyrir öðrum, bæði viljandi og óviljandi, þar sem reglan er sú að leikmaður verður alltaf að setja tening (eða teninga) á spilavíti hvort sem honum líkar betur eða verr. Eins verða allir teningar með sömu tölu að fara á spilavíti, ekki er leyfilegt að halda einhverjum eftir. Nýir vinningar eru svo settir á spilavítin eftir að búið er að skipta á milli leikmanna. Svona gengur þetta í fjórar umferðir og eftir þær eru vinningar taldir saman. Sá sem hefur unnið mest í spilavítunum vinnur leikinn. Í reglunum er viðbótarregla fyrir 2-4 leikmenn, ef menn vilja.  Þá fá allir auka teninga í lit sem ekki er verið að nota og mega staðsetja hann eins og aðra teninga.  Vinningarnir sem nást á þennan lit eru svo bara settir neðst í vinningabunkann þannig að enginn fær þá.

lasvegas7

Las Vegas: Vinningarnir

Hvað finnst mér?

Las Vegas er mjög einfalt. Þú bara kastar teningum og reynir að staðsetja þá þannig að þú fáir sem mestan pening. Spilið gengur því mikið út á heppni og hentar kannski ekki öllum. Það er erfitt að reyna að spila Las Vegas með einhverri strategíu, maður verður bara að láta kylfu ráða (teninga)kasti.  Það sem reddar spilinu að mínu mati er reglan sem segir að jafnmargir teningar núllist út.  Hún getur nefnilega verið jafn skemmtileg og hún er leiðinleg, ef maður lendir í henni sjálfur.  En það er nú það sem gerir spilið aðeins meira spennandi.

Niðurstaða

Fínt, létt fjölskylduspil sem hentar mjög breiðum aldurshópi. Ekki vænta einhverrar djúprar strategíu … þetta gengur út á stutta, létt og umfram allt skemmtilega samkeppni.

Indigo

indigo01Fyrir skemmstu spilaði fjölskyldan saman eitt af nýju spilunum sem ég keypti í Lúxemborg.  Það var spil sem heitir Indigo og er hannað af Reiner Knizia, sem er voða mikið celeb í borðspilaheiminum og hannaði m.a. Modern Art sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur.  Indigo er lýst á mjög háfleygan hátt í reglunum:

„Indigo is a deep shade of blue obtained from the Indian indigo plant since ancient times. It’s deep hue is a symbol of eternity and immortality. The colour has a soothing effect and provides a clear head, which is exactly what players need during the game as they search for the most precious gems.“

Í grunninn snýst spilið um þetta: Mislitir steinar, sem ferðast eftir brautum sem þú og aðrir leikmenn sjá um að smíða, gefa stig.  Náðu sem flestum! Indigo er svona kassískt abstract spil eins og það er kallað, en þau eru yfirleitt byggð á mjög einfaldri hugmynd og snúast oft um að leysa einhvers konar þraut eða púsl.  Okkur fannst Indigo hins vegar alls ekki leiðinlegt spil, eiginlega þvert á móti.  Það er að mínu mati tvennt sem gerir spilið skemmtilegt … eða jafnvel þrennt, meira um það síðar.

indigo02

Indigo: Flísarnar lagðar niður þannig að brautir byggjast upp

Í upphafi er sex gulum, fimm grænum og einum bláum stein raðað upp á spilaborðið eftir ákveðinni forskrift. Leikmönnum er svo úthlutað ákveðnum gáttum þangað sem þeir reyna að beina steinunum til að ná þeim og fá þannig stig fyrir þá.  Í hverri umferð dregur leikmaður sexhyrnda flís sem sýnir einhverslags samsetningu af brautum.  Hann leggur flísina niður á spilaborðið þar sem honum sýnist og býr þannig til nýja braut eða bætir við braut sem er fyrir.  Ef steinn er tengdur brautinni þá færist hann eftir henni og getur á endanum lent í gáttinni sem leikmaðurinn á.  Þá fær sá leikmaður steininn til varðveislu þangað til spilinu er lokið.  Steinarnir gefa svo mismörg stig, allt eftir lit.  Blár er til dæmis verðmætasti steinninn enda bara einn slíkur, en hann gefur 3 stig.

indigo06

Indigo: Blái steinninn við það að ná í ljósbláu gáttina

Það er eins og áður sagði þrennt að mínu mati sem gerir Indigo að skemmtilegri spilaupplifun.  Í fyrsta lagi er það hönnunin.  Spilaborðið er flott og fallegt á að líta, sérstaklega þegar líða tekur á spilunina og brautirnar farnar að mynda heilmikið mynstur.  Í öðru lagi er það sá hluti sem snýr að samkeppni á milli leikmannanna. Það er enginn sem getur slegið eignarhaldi sínu á stein fyrr en hann er kominn út um gáttina. Þannig geta steinar ferðast vítt og breitt um borðið áður en þeir rata út um einhverja gátt.  Því er mjög gaman að reyna að ná að beina steini, sem einhver annar er alveg við það að ná, inn á aðra braut.

indigo05

Indigo: Allir steinar komnir í hús og spilinu lokið

Í þriðja lagi finnst mér mjög sniðugt hvernig gáttirnar eru hugsaðar.  Það eru sex gáttir á spilaborðinu og í tveggja manna spili á hvor leikmaður þrjár gáttir.  Í þriggja og fjögurra manna spilinu eru sumar gáttirnar sameiginlegar, þ.e. einhverjir tveir leikmenn eiga saman gátt.  Í fjögurra manna spilinu eru meira að segja allar gáttirnar sameiginlegar, þú átt aldrei einn einhverja gátt heldur deilir henni alltaf með einum öðrum leikmanni.  Þannig fá báðir leikmennirnir, sem eiga gáttina sem steinninn fer út um, eitt stykki af stein í þeim lit sem náð var í.  Því þarf maður að reyna að fylgjast með hvaða steina hinir eru búnir að ná sér í, en þeir eru faldir á bak við skilrúm.  Því ekki vill maður hjálpa þeim sem er búinn að ná í flesta steinana.

indigo04

Indigo: Skilrúmið sem felur gersemarnar

Indigo er hið ágætasta fjölskylduspil, einfalt og stutt.  VIð höfum spilað þetta tveggja og þriggja manna og án þess að hafa prófað það fjögurra manna myndi ég telja að það væri jafnvel skemmtilegast þannig, alla vega með fleirum en bara tveimur.  Ástæðan fyrir því eru þessar sameiginlegu gáttir.  Eins og áður sagði eru allar gáttirnar sameiginlegar í fjögurra manna spilinu og þá þarf maður að vera duglegur að fylgjast með hvaða steinum aðrir eru búnir að verða sér út um.  Og svo er bara að vera útsjónasamur í uppbyggingu brautanna þannig að maður fái sem flesta steina.

indigo03

Indigo: Blár fer næst af stað

Spilað fyrir allan peninginn – 38/39:SWAT!

swat1Næstsíðasta spilið af listanum var enn eitt Reiner Knizia spilið (hin voru: Ra, Hringadróttinsspilið, Modern Art og Taj Mahal).  Það heitir SWAT! og er lítið og nett spil, en innihaldið er þó nokkur fjöldi af spilum sem sýna mismunandi skorkvikindi og pöddur.  Innan um eru einnig spil með bónusum, en SWAT! gengur einmitt út á að safna sem flestum stigum.  Pöddurnar eru með mismunandi stigafjölda, sum hver mikils virði á meðan önnur eru minna virði og gefa jafnvel mínusstig.  Í hverri umferð snýr einn leikmaður einu spili í einu við úr stóra bunkanum.  Leikmenn eiga svo að slá hendinni á þar til gerða mottu, sem fylgir með, til að gefa til kynna að þeir vilji fá bunkann sem hefur safnast upp.  Sá leikmaður sem fékk bunkann tekur svo að sér að snúa við spilum úr stóra bunkanum, þannig að hinir leikmennirnir taka að keppast um spilin.  Svona gengur spilið þangað til allir hafa náð í þrjá bunka, eða spilin í stóra bunkanum eru orðin uppurin.  Hver leikmaður má bara ná sér í þrjá bunka þannig að maður verður að reyna að tímasetja handarsláttinn vel.  Stigin eru talin saman og svo er haldið áfram.  Spilaðar eru þrjár heilar umferðir og sá sem hefur fengið flest stig er sigurvegari.

swat2

SWAT!: Innihald spilsins

SWAT! er eins einfalt og spil verða, en hins vegar verður maður að fylgjast vel með bæði hvaða spil eru komin í bunkann og eins hvaða spil maður náði í áður.  Sum spil gefa nefnilega bara stig (bæði plús og mínus) ef þau eru pöruð með öðru eins spili.  Við tókum þetta undir lok bústaðarferðarinnar og skemmtum okkur prýðilega í baráttunni um bunkana.  Ég held að þetta sé annars mjög sniðugt spil fyrir krakka og frúnni leist vel á að fá SWAT! með sér í skólann, fyrir bekkinn sem hún er að kenna, enda hægt að láta allt að sjö spila saman.

Nú fer þessu spilamaraþoni senn að ljúka, bara eitt spil eftir en það er Panic Station.  Það hefur fengið ansi misjafna umsögn, sumir hreinlega hata það á meðan aðrir eru mun hrifnari … verður spennandi að sjá hvernig það gengur.

swat3

SWAT!: Mismunandi spil

Dixit Odyssey, Dixit og Dixit 2

cover

* er fyrir 3-12 leikmenn, 8 ára og eldri
* tekur 30 mínútur

(Dixit grunnspilið er fyrir 3-6 leikmenn)

Um spilið

Dixit Odyssey getur staðið eitt og sér en einnig er hægt að sameina spilið við Dixit og Dixit 2.  Fyrir þá sem ekki þekkja til Dixit, þá gengur spilið út á að allir leikmenn eru með mismunandi myndskreytt spjöld á hendi.  Sá sem á að gera er kallaður “sögumaður”, hann velur eitt spjald af hendi og segir orð, setningu, titil á bíómynd eða hvað það sem honum dettur í hug sem lýsir spjaldinu … en þó ekki of vel.  Aðrir leikmenn velja þá spjald af hendi sem þeim finnst geta átt við orðið eða hvað það sem sögumaðurinn sagði.  Spjöldin eru svo stokkuð og sýnd í röð.  Leikmenn eiga svo að reyna að finna spjald sögumannsins.  Sögumaðurinn fær ekkert stig ef enginn eða allir geta upp á spjaldinu hans, því má orðið ekki vera of augljóst eða of erfitt.  Dixit fékk Spiel des Jahres verðlaunin árið 2010.

Dixit samantekt:
* Spjöldin eru mjög fallega myndskreytt, þannig að allt útlit spilsins er vel heppnað og hefur ævintýrabrag yfir sér.  Hjálpar til við að koma ímyndunaraflinu af stað.
* Dixit grunnspilið inniheldur 84 myndaspjöld og styður 3-6 leikmenn.  Eftir nokkur skipti þá er maður farinn að þekkja spjöldin það vel að þegar sögumaður segir: „The Truman Show“ veit maður nákvæmlega hvaða spjald er verið að lýsa.
* Dixit 2 bætir við 84 nýjum myndaspjöldum, s.s. eykur á fjölbreytnina.
* Dixit Odyssey bætir öðrum 84 spjöldum við þannig að ef öllu er blandað saman eru spjöldin orðin 252.  Dixit Odyssey fjölgar leikmönnum einnig upp í 12, þannig að spilið getur hentað vel í stórum boðum.  Í Dixit Odyssey eru einnig reglur fyrir liðakeppni.

Hvað finnst mér?

Það getur oft tekið fólk smá tíma að byrja og detta í rétta gírinn en yfirleitt gerist það nokkuð fljótt.  Dixit spilin eru mjög fallega myndskreytt og oftast er maður ekki í vandræðum með að finna eitthvað lýsandi (en samt ekki of lýsandi) að segja um eitthvað spjaldanna.  Einnig vill það yfirleitt þannig til að einhver er með spjald sem gæti allt eins átt  við lýsingu eða orð sögumannsins.  Þannig getur orðið snúið að finna spjald sögumannsins.

Niðurstaða

Í það heila er ég mjög sáttur við Dixit fjölskylduna í mínu safni.  Spilið hentar vel í létta spilastund og með Odyssey er hægt að koma fyrir 12 manns (sem er sjaldgæft fyrir borðspil).  Hins vegar er lítið fyrir alvörugefna spilara að hafa í Dixit, mætti allt eins flokka það sem nokkurs konar partýspil.

[scrollGallery id=13 autoScroll=false thumbsdown=true imagearea=“imgarea“]

Aðrar upplýsingar:

Nánari upplýsingar um Dixit eru að finna á Boardgamegeek.
Nánari upplýsingar um Dixit Odyssey eru að finna á Boardgamegeek.
Nánari upplýsingar um Dixit 2 eru að finna á Boardgamegeek.
Hægt er að fá Dixit fyrir iPad.

Takenoko

Image

cover

Takenoko

* er fyrir 2-4 leikmenn, 13 ára og eldri.
* tekur 45 mínútur.

Hugmyndin á bak við Takenoko er sú að kínverski keisarinn á að hafa gefið Japanskeisara pandabjörn sem friðartákn á milli landanna.  Japanskeisari fól svo hirðmönnum sínum (leikmönnum) að sinna pöndunni með því að rækta upp bambusgarð með hjálp keisaralega garðyrkjumannsins.

Leikmenn fá úthlutað þremur markmiðsspjöldum í upphafi leiks þar sem koma fram ákveðin skilyrði sem leikmenn þurfa að uppfylla til að fá tiltekin stig (sem einnig standa á spjöldunum).

Í hverri umferð hafa leikmenn kost á að gera tvær aðgerðir af fimm mögulegum.  Hægt er að velja um að stækka bambusgarðinn, leggja vatnsveitu, láta bambustré vaxa með hjálp garðyrkjumannsins, láta pönduna éta bambus eða draga fleiri markmiðsspjöld.  Það fer svo í raun eftir markmiðsspjöldunum hvaða aðgerðir leikmenn velja.  Einnig blandast inn í þetta teningur sem kastað er áður en leikmaður gerir sem eykur valkosti.

9

Mismunandi markmiðsspjöld

Spilinu lýkur þegar einhver leikmaður hefur lagt niður ákveðinn fjölda markmiðsspjalda (fer eftir fjölda leikmanna).  Sá sem hefur náð flestum stigum vinnur.

Takenoko er mjög fallega hannað spil og er þemað vel heppnað.  Reglurnar eru ekki flóknar og er auðvelt að koma fólki af stað í spilinu.  Hægt er að spila aggresíft með því að reyna að koma í veg fyrir að aðrir leikmenn nái sínum markmiðum (t.d. með því að láta pönduna vaða um og éta bambus í gríð og erg) eða spila bara með sín markmið í huga óháð því hvað aðrir eru að gera.

Takenoko er sagt fyrir 13 ára og eldri skv. útgefanda.  Vel er mögulegt að yngri börn geti spilað spilið, en samkvæmt upplýsingum á Boardgamegeek hafa notendur þar mælt með að spilið sé fyrir 8 ára og eldri.  Það er að mínu mati frekar ungur aldur fyrir spilið, markmiðsspjöldin geta verið snúin fyrir unga krakka og eins getur verið erfiðara fyrir þau að spila þannig að það sé verið að „skemma“ fyrir (með því að láta pönduna éta bambus sem aðrir eru að reyna að rækta).  Annars er þetta örugglega persónubundið.

Ég mæli s.s. með Takenoko.  Eins og áður sagði er spilið fallega hannað, frekar einfalt en býður þó upp á að spilað sé eftir ákveðinni strategíu.  Ég hef spilað það bæði tveggja manna og fjögurra manna og finnst það virka vel fyrir hvort sem er.

Þess má einnig geta að Takenoko var valið spil ársins 2012 í Frakklandi, sjá upplýsingar hér.