Spilað fyrir allan peninginn (2014) – 16/23: Luna

luna01Luna er spil sem Þjóðverjinn knái Stefan Feld hannaði árið 2010, en eins fróðir borðspilanerðir vita þá er hann einn af afkastameiri borðspilahönnuðum seinni tíma. Stefan þessi Feld hefur m.a. hannað spil eins og Trajan, Macao, Notre Dame, The Castles of Burgundy, Bora Bora og Amerigo svo fá ein séu nefnd.

Í Luna stendur hofgyðjan Luna á tímamótum, hún ætlar að leggja veldissprotann á hilluna og leitað er að arftaka hennar. Í spilinu reyna leikmenn að safna sinni reglu (Order) sem flestum áhrifastigum til að þeir fái að velja arftakann. Þetta er heljarmikið þema og er spilið mjög fallega myndskreytt og hannað til að styðja við þemað.

Í upphafi spilsins er sjö eyjum raðað í kringum aðaleyjuna þar sem hofið stendur. Leikmenn fá til umráða lærisveina sem þeir dreifa inn á nokkrar eyjarnar, sem og helgidóma (Shrine) sem þeir geta byggt síðar í spilinu. Á hverri eyju eru litlar skífur sem leikmenn geta safnað og notað til að gera ýmislegt sniðugt. Lærisveinana nota leikmenn m.a. til að safna skífunum, byggja á eyjunum, klessa sér upp við hofgyðjuna til að fá áhrifastig eða senda þá til að læra og hugleiða í hofinu á aðaleyjunni. Þetta er allt gert með því að virkja lærisveinana á eyjunum og færa þá úr því að vera virkir (Active) yfir í óvirka (Inactive). Ég held að ég fari ekkert dýpra í reglurnar eða nánari útskýringu á gangi spilsins, en því lýkur eftir sex umferðir.

luna02

Hofið á aðaleyjunni og litlu eyjarnar í kring

Eins og venja er með spilin hans Feld fá leikmenn um nóg að hugsa í Luna. Í reglunum er einmitt klausa sem segir: „When you play the game for the first time, the sheer amount of options may seem confusing“. Luna er búið að vera í safninu í þó nokkurn tíma og er enn eitt spilið sem ég hafði einsett mér að klára að spila á þessu ári. Ég hafði nú einhvern tímann í fyrndinni prófað að spila það einn, enda eru einmenningsreglur tiltækar í reglubæklingnum, en mig langaði samt alltaf til að spila það með einhverjum öðrum og fékk því Davíð félaga minn til að takast á við mig um hvor okkar væri verðugri arftaki hofgyðjunnar.

luna04

Hofgyðjan Luna mætt til að dreifa stigum á eyju nr. 7

Við áttum báðir von á því að spilið væri nokkuð flókið, en þegar á reyndi gekk mjög vel að komast af stað og ná nokkuð góðu tempói í spilinu. Eftir að maður nær hvað er hægt að gera á eyjunum fer þetta bara að snúast um hvað í ósköpunum maður ætli eiginlega að gera til að ná í sem flest stig. Maður verður að reyna að halda jafnvægi í hverri umferð, ekki senda ekki of marga lærisveina í aðalhofið því þá hefur maður færri lærisveina til að framkvæma aðgerðir á eyjunum í næstu umferð og fer hún þá kannski bara í að ná sér í fleiri sveina.

Eins er nauðsynlegt að vera með lærisveina staðsetta á eyjunum sem gefa manni skífur sem hægt er að nota til að færa sveina á milli eyja, því annars er maður bara fastur með þá þar sem þeir eru og það getur verið mjög takmarkandi. Eins getur verið mikilvægt að geta fært lærisveinana yfir á eyjuna þar sem hofgyðjan er stödd þá umferðina, en hún færist til eftir hverja umferð og gefur stig til þess leikmanns sem er með flesta lærisveina á eyjunni þar sem hún er stödd. Að sama skapi vill maður flýja eyjuna þar sem postulinn er staddur þá umferðina því hann útdeilir mínusstigum.

luna06

Postulinn er með leiðindi við lærisveinana

Við félagarnir skiptumst á að virkja lærisveina og fyrstu tvær umferðirnar gekk mér nokkuð vel. Þriðju umferðina átti Davíð hins vegar alveg skuldlaust, hann var búinn að raða lærisveinunum vel upp í fyrri umferðum og rakaði inn stigum. Þá umferðina hafði ég lítið að gera þar sem mínir lærisveinar voru hálf illa dreifðir á eyjarnar. Davíð benti mér reyndar á að ég hefði átt að stytta umferðina með því að brenna upp kertið, en það er notað til að segja til um hversu löng hver umferð verður. Þetta er ansi sniðugur mekanismi, því leikmenn geta flýtt mjög fyrir endalokum umferðar ef þeir eru sniðugir að brenna upp kertið. Ég áttaði mig ekki á þessu og Davíð fékk heilan helling af stigum.

Í umferðunum sem á eftir fylgdu gekk mér aðeins betur, en Davíð átti erfiðara uppdráttar þar sem hans lærisveinar voru ekki nógu vel staðsettir. Síðasta umferðin var ansi spennandi, við reyndum báðir að koma fleiri lærisveinum inní hofið til að ná í enn meiri stig. Það kom svo í ljós við lokatalningu að Davíð hafði betur, hans regla fékk að tilnefna næstu hofgyðju.

luna05

Lærisveinarnir komnir í hofið

Luna virkaði svona líka ljómandi vel á okkur, við vorum rétt um klukkutíma að spila og verð ég að viðurkenna að ég átti von á að spilið væri flóknara. Það er náttúrulega fjölmargt sem maður getur gert og nokkrar leiðir til að ná í stig, en Luna er samt alls ekki of flókið. Gott „gamalt“ spil sem verður örugglega prófað aftur með fleiri leikmönnum. Luna er keeper  :grin:

Spilað fyrir allan peninginn (2014) – 15/23: Krosmaster: Arena

krosmaster_arena01Kaupin á Krosmaster: Arena voru svona skyndibrjálæðiskaup án þess að ég hafi mikið pælt í því hvort spilið væri eitthvað sem ég hefði í raun áhuga á. Aðalástæðan fyrir kaupunum var reyndar sú að ég var að panta nokkur spil frá Coolstuffinc sem ég lét senda á hótelið okkar í Boston fyrir um ári síðan og daginn sem ég pantaði var spilið á góðum afslætti.

Krosmaster: Arena er 2-4 manna spil sem gengur út á slagsmál milli fígúra á rúðustrikuðum leikvangi. Í grunnkassanum eru 8 fígúrur sem hafa mismunandi hæfileika á leikvanginum. Sumir geta bara slegist í návígi á meðan aðrir geta t.d. skotið örvum að hinum úr ákveðinni fjarlægð. Einhverjar fígúrurnar geta einnig galdrað inn á leikvanginn litlar verur eða dýr sem hægt er að nota til að ráðast á aðra leikmenn. Spilið gengur út á að ná vegsemdartáknum af hinum leikmönnunum sem fást m.a. með því að rota fígúrurnar þeirra. Hægt er að kaupa alls kyns viðbótarverur í spilið og auka þannig á fjölbreytileikann og flækjustigið, sem er nú reyndar nægt fyrir.

krosmaster_arena02

Slagsmálin að hefjast

Opinberlega er spilið er fyrir 14 ára og eldri en samkvæmt notendum á Boardgamegeek er hægt að spila það við 12 ára og eldri. Ég er búinn að eiga spilið í u.þ.b. ár án þess að hafa náð að spila það … og því alveg kominn tími til að spila Krosmaster: Arena, enda lenti það á listanum yfir óspiluð spil þetta árið. Við feðgarnir gerðum heiðarlega tilraun til að spila spilið um helgina sem leið og náðum að komast langleiðina í gegnum það. Spilið er hins vegar ansi flókið, reglubæklingurinn er 31 blaðsíða af þétt skrifuðu letri og svo margt sem fígúrurnar og þeirra viðhengi geta gert. Reglurnar eru reyndar mjög vel skrifaðar og settar upp í nokkrar kennslustundir sem byrja mjög einfaldar en flækjast svo hægt og rólega.

krosmaster_arena03

Tvær af fígúrunum

Eftir að hafa bægslast í gegnum nokkrar umferðir af Krosmaster: Arena gáfumst við feðgarnir upp. Sonurinn var ekki alveg að ná hvernig spilið virkaði og hvað ætti að gera og ég gerði ekki annað en að fletta fram og til baka í reglunum til að ná einhverjum áttum sjálfur. Til dæmis var ég framan af úti á þekju þegar kom að slagsmálunum sjálfum, það eru alls kyns reglur um bardagana sem tengjast mismunandi kröftum og eiginleikum fígúranna. Táknin á teningunum voru líka að flækjast fyrir mér, sex mismunandi tákn sem maður varð að finna út úr hvernig virkuðu með mismunandi eiginleikum fígúranna. Ég verð hugsanlega að viðurkenna að svona slagsmálaspil, sem ganga bara út á að berjast við aðra leikmenn, heilla mig ekkert sérstaklega. Því var öllu pakkað saman aftur og verður örugglega ekki opnað í bráð.

krosmaster_arena09

Sex mismunandi tákn á teningunum

Krosmaster: Arena er því ekki fyrir mig og mína, en ég get samt ekki annað en hrósað framleiðslunni. Spilið er gríðarlega flott hannað og fígúrurnar grípa augað um leið. Það er einnig mikið lagt í allt umhverfið, litlir pappakassar, tré og runnar móta leikvanginn. Því langaði mig virkilega til að hafa gaman af spilinu. Ég get vel ímyndað mér að Krosmaster: Arena virki vel fyrir fólk sem heillast af svona árásarspilum, flottri hönnun og mismunandi kröftum og eiginleikum fígúra og gæti sökkt sér ofan í þennan flotta heim … ég er bara ekki á þeim stað sjálfur, því miður.

krosmaster_arena05

Ekki vænlegt að lenda í þessum

krosmaster_arena04

Tvö fígúruspjöld

krosmaster_arena06

Reglubæklingurinn

krosmaster_arena07

Kössum, trjám og runnum er raðað á leikvanginn

krosmaster_arena10

Nokkrar fígúrur

krosmaster_arena08

Sumar fígúrurnar geta kallað til sín einhverjar verur og dýr

Spilað fyrir allan peninginn (2014) – 14/23: Mission: Red Planet

missionredplanet01Mission: Red Planet er eitt gamalt og að margra sögn mjög gott spil. Mér áskotnaðist spilið í skiptum við annan borðspilaáhugamann, hann fékk í staðinn Mystery Express sem var einmitt á síðasta Spilað fyrir allan peninginn listanum mínum … get nú ekki sagt að ég sakni Mystery Express. En voru þetta góð skipti, það er nú önnur saga.

Mission: Red Planet er frá árinu 2005 og var hannað af tveimur Bruno-um, þeim Bruno Cathala og Bruno Faidutti, en báðir eru þeir vel þekktir borðspilahönnuðir. Spilið er fyrir 3-5 leikmenn og á að taka um 60 mínútur í spilun. Inntakið er á þá leið að leikmenn stýra námafyrirtækjum sem senda geimflaugar með geimförum til Mars til að grafa eftir efnum þar … árið 1888! Mission: Red Planet er hannað í anda Steampunk, sem mér hefur nú reyndar alltaf fundist hálf kjánalegt hugtak.

En alla veganna … Í Mission: Red Planet byrja leikmenn með 10 persónur á hendi sem allar hafa einhverja sérfræðiþekkingu og hægt er að nota til einhvers ákveðins. Í hverri umferð velja leikmenn eina persónu hver fyrir sig og framkvæma það sem hún leyfir. Hver persóna er með ákveðið númer sem gefur til kynna forganginn, þ.e. persóna nr. 1 fær að gera fyrst, síðan nr. 2 og svo koll af kolli. Ef tveir eða fleiri leikmenn spila út sömu persónunni (með saman númerinu) fær sá að gera á undan sem situr réttsælis nær upphafsleikmanninum.

missionredplanet07

Persónuleikaspilin með stóru myndinni og smáa letrinu

Flestar persónurnar leyfa leikmönnum að staðsetja sína geimfara í einhverja af geimflaugunum sem eru  í boði, en þær eru jafn margar og fjöldi leikmanna. Þegar geimflaug er full, þ.e. fleiri geimfarar komast ekki fyrir í henni, er geimflauginni skotið á loft. Þegar allir leikmennirnir hafa spilað út persónuspili lenda þær flaugar sem tóku á loft í þeirri umferð á Mars. Hver flaug stefnir á ákveðið svæði á Mars og þeir geimfarar sem í flauginni voru enda þar. Mismunandi getur verið hvaða málmar eru til staðar á hverju svæði og gefa þeir mismörg stig. Í lok fimmtu, áttundu og svo síðustu umferðarinnar er farið yfir hverjir eru með meirihlutayfirráð á svæðunum og fá þeir stig fyrir það.

missionredplanet03

Mars skipt upp í 10 svæði

Mission: Red Planet inniheldur því alla vega tvo spennandi mekanisma: character selection og area control. Engu að síður var spilið ekki alveg að virka fyrir okkur í þetta skiptið. Það sem fór helst í taugarnar á mér er hversu fáránlega smátt letur er á þessum annars stóru persónuleikaspilum. Ég átti í mestum vandræðum með að lesa á spilin og skil ég ekki alveg hvernig hönnuðunum datt í hug að hafa letrið svona smátt … kannski þarf ég bara að vera duglegri að nota lestrargleraugun  :lol:

Að auki var textinn á spilunum ekki alltaf nógu nákvæmur þannig að við þurftum í nokkur skipti að ráðfæra okkur við reglurnar, en þar var betri útskýring á því hvernig persónurnar ættu að haga sér. Þetta er svo sem ekki eitthvað sem maður er óvanur í spilum, en þetta hafði frekar neikvæð áhrif á mig

missionredplanet06

Mission: Red Planet

Spilunin sjálf var líka einhvern veginn ekki að heilla mig, kannski er spilið ekki að ná að skína með þremur leikmönnum. Notendur á Boardgamegeek hafa sagt sína skoðun og samkvæmt henni er spilið best með 4-5 leikmönnum. Ég hef ekki trú á því að Mission: Red Planet muni slá í gegn í hefðbundna spilavinahópi okkar hjónanna og því allar líkur á því að þetta verði ekki spilað aftur. En þó er líklegra að ég myndi velja að spila það fram yfir Mystery Express, ef mér byðist að spila það, og því verð ég að vera ánægður með skiptin. Fór sem sagt ekki úr öskunni í eldinn  :grin:

missionredplanet04

Eldflaugarnar á skotpöllunum

missionredplanet02

MIssion: Red Planet

Spilað fyrir allan peninginn (2014) – 13/23: Renaissance Man

renaissanceman01Það er skömm frá því að segja að metnaðurinn fyrir því að klára að spila óspiluðu spilin hefur ekki verið mikill upp á síðkastið. Þar sem nokkur ný spil hafa þegar bæst í safnið síðustu vikur og mánuði (og fleiri eiga örugglega eftir að bætast í safnið áður en árið er liðið) stefni ég nú að því að klára yfirferðina fyrir áramót. Þá byrjar maður nýtt ár með hreinan skjöld, nema hvað þá verða örugglega einhver spil í safninu sem ég á eftir að prófa þannig að þetta verður sagan endalausa  :grin:

Um daginn tók ég smá skorpu í listanum og spilaði m.a. Renaissance Man, en það er spil sem ég fékk í jólagjöf síðustu jól. Ég hafði reyndar spilað það sóló, en reglurnar bjóða upp á einmenningsspilun. Við hittumst þrír spilafélagar og spiluðum Endurreisnarmanninn. Renaissance Man gengur út á að byggja þekkingarpíramída úr fjórum sérfræðingum; bakara, riddara, kaupmanni og kennara. Píramídinn er byggður upp úr spilum sem sýna þessa fjóra aðila. Spilin eru sérmerkt efst með ákveðnum táknum sem tengjast þeirra sérfræðiþekkingu. Í neðri hornum spilanna eru svo einhver af fjórum táknunum, en þau segja til um ofan á hvaða spil þau geta raðast þegar þeim er bætt í píramídann.

renaissanceman05

Táknin á spilunum verða að standast á

Hljómar kannski flókið, en er það í raun ekki. Það flóknasta er að finna réttu spilin til að hafa möguleikann á að stækka píramídann og brenna svo ekki inni með einhvern sérfræðinginn og þurfa að fjarlægja hann úr píramídanum.

Í upphafi byrja allir með fimm spil (einn af hverjum sérfræðingi og einn endurreisnarmann) sem þeir raða á fyrstu hæðina í píramídanum. Þannig hafa allir aðgang að öllum aðgerðum í upphafi. Aðgerðirnar eru eftirfarandi:

  • Með bakaranum býr maður til einhverja af hinum fjórum aðgerðum til að nota síðar.
  • Riddarann notar maður til að bjóða í einhvern aðila sem er „til sölu“.
  • Með því að nota kaupmanninn fær maður að ráða nýjan aðila inn í píramídann sinn.
  • Kennarinn kennir svo einhverja af sérfræðiþekkingunum fjórum og þannig safnar maður þekkingu til að eignast endurreisnarmann, en hann má maður setja hvar sem er í píramídann.

 

Píramídinn skiptist í fimm hæðir og ef leikmaður er kominn með einhvern á fjórðu hæðina þýðir það að hann getur mögulega framkvæmt fjórar aðgerðir í hverri umferð. Hins vegar virkar þetta þannig að þegar búið er að hylja efra merki á spili þá missir maður möguleikann á að nota það áfram. Þannig er líklegt að fyrsta og önnur hæðin gefi manni ekki möguleika á aðgerðum þegar maður er kominn með sérfræðinga á þriðju og fjórðu hæðina. Þá getur verið nauðsynlegt að vera með bakara á lausu einhvers staðar því hann getur bakað allar hinar aðgerðirnar, en við baksturinn fær leikmaður skífu með viðeigandi tákni sem hann getur svo notað í næstu umferðum.

renaissanceman03

Píramídinn stækkar og stækkar

Þegar maður spilar Renaissance Man sóló þá er markmiðið að klára píramídann sinn áður en öll spilin í stokkinum klárast. Ég náði því strax í fyrstu einmenningstilrauninni þannig að annað hvort er ég rosalega góður í þessu spili eða einmenningsreglurnar eru ekki nógu krefjandi. Hallast nú að því að það síðarnefnda sé réttara.

Við félagarnir spiluðum þriggja manna spil og gekk það bara prýðilega. Spilið er frekar einfalt í útskýringu og táknin og aðgerðirnar skýrar. Það var aðallega bakarinn og hvenær nota mætti hans afurðir sem flæktist aðeins fyrir okkur í fyrstu, en það kom ekki að sök. Renaissance Man gengur hratt fyrir sig, enda virkar spilið þannig að allir framkvæma aðgerðir á sama tíma.

renaissanceman04

Mér gekk nú betur en mótspilurunum að byggja píramídann og stóð uppi sem sigurvegari eftir þessa viðureign. Það hefur nú örugglega haft eitthvað að segja að ég var búinn að spreyta mig á einmenningsspiluninni áður.  Spilið er nokkuð sniðugt en svolítið snúið að reyna að láta öll spilin passa saman, þetta verður svolítið eins og púsluspil.

Við vorum nú ekki lengi að spila, held að við höfum náð að klára á um 45 mínútum þannig að með þjálfun ætti maður að geta skúbbað út einni spilun á hálftíma. Allt í allt er Renaissance Man hið ágætasta spil, hef samt ekki trú á því að það ætti eftir að þola endurteknar spilanir, gæti farið að virka keimlíkt í hvert skipti. Engu að síður fínt spil.

renaissanceman07

Spilað fyrir allan peninginn (2014) – 12/23: Attika

attika01Ég hef alls ekki verið duglegur við að vinna mig í gegnum listann yfir óspiluð spil í safninu upp á síðkastið og nokkur ný hafa bæst í stórfjölskylduna síðan ég setti mér það háleita markmið að klára að spila öll spilin í safninu, eins og það stóð um áramótin. En hvað um það, uppfært markmið er núna bara að klára að spila þessi spil áður en árið er úti og nýtt uppgjör hefst.

Fjölskyldan skellti sér í ferðalag upp úr miðjum júní vestur á firði til að eyða um tveimur vikum í sumarhúsi sem tengdafjölskyldan á í eyðidal í Dýrafirði. Að sjálfsögðu var tekinn nokkur fjöldi af spilum með eins og venjan er. Eitt af spilunum sem ég tók með og við náðum að spila var Attika, en það er gamalt spil frá 2003 sem ég keypti notað af góðkunningja mínum sem var að flytja af landi brott á síðasta ári. Annars held ég að Attika sé ekki lengur fáanlegt og veit ekki til þess að til standi að endurútgefa það.

attika03

Borgríki Aþenu

Attika snýst um yfirráð í Grikklandi til forna. Leikmenn velja sér eitt af fjórum borgríkjum (Athens, Sparta, Corinth eða Thebes) og er markmiðið að þenja út borgríkið og verða fyrsti leikmaðurinn til að annað hvort tengja saman tvo helgidóma (shrines) eða koma öllum sínum byggingum inn á leikborðið. Í upphafi er leikborðið sett upp, en það stækkar eftir því sem líður á spilið. Leikmenn fá svo spjald sem sýnir þeirra borgríki og þær byggingar sem hægt er að byggja. Byggingarnar eru í formi kringlóttra skífa, sem leikmenn draga af handahófi og raða inn á sitt borgríki (spjald) eða byggja á leikborðinu. Til að byggja þurfa leikmenn að borga mismunandi mörg landslagsspjöld, en þau sem um ræðir eru tré, vatn, fjallendi og hæðir. Hver bygging kostar eitthvað ákveðið, en leikmenn fá afslátt ef þeir byggja á eða við reiti sem sýna landslagstákn eða ef þeir byggja byggingarnar í réttri röð.

attika04

Græna borgríkið búið að tengja tvo helgidóma og þar með vinna

Eins og áður sagði er það leikmaðurinn sem nær fyrstur að byggja allar sínar byggingar eða nær að tengja einhverja tvo helgidóma sem vinnur, en í upphafi er helgidómi stillt upp við þá enda leikborðsins sem snúa að hverjum leikmanni.

attika05Við hjónin prófuðum Attika eitt kvöldið í bústaðnum og urðum strax svona ljómandi ánægð með spilið. Reglurnar eru mjög einfaldar og spilunin tekur frekar stuttan tíma. Það þýðir ekkert að gera einhverjar langtímaáætlanir í spilinu því það breytist mjög hratt eftir því hvernig mótspilarinn spilar. Þannig getur áætlun um að tengja tvo helgidóma farið út um þúfur ef hinn leikmaðurinn lokar af leiðina að honum. Við tókumst allverulega á þegar við spiluðum Attika fyrst, spennan var mikil en að lokum náði frúin að hafa sigur í það skiptið með því að klára að byggja allar sínar byggingar rétt á undan mér. Til marks um hversu gott okkur fannst Attika var það spilað aftur nokkrum kvöldum síðar.

Þá setti ég mér það markmið að tengja saman helgidómana tvo, en til þess að það gangi upp verður  maður fljótlega að slíta borgríkið sitt upp og byrja að byggja á tveimur stöðum. Áætlunin var nokkuð góð, en framkvæmdin tók miklum breytingum þar sem frúin varðist snilldarlega og var um tíma mjög nálægt því að „skemma“ fyrir mér. Það hafðist hins vegar ekki og að lokum tókst mér ætlunarverkið, rétt áður en henni tókst að klára sína áætlun. Staðan því orðin 1-1 eftir tvær rimmur í Attika og því gott að láta þar staðar numið.

Lokaniðurstaðan því sú að Attika er ljómandi skemmtilegt spil, stutt og spennandi. Alltaf gaman að detta niður á svona gömul vel heppnuð spil.

attika06

Mismunandi landslagsspjöld

 

Spilað fyrir allan peninginn (2014) – 11/23: Prosperity

prosperity01Prosperity er (að ég held) nýjasta spilið frá Reiner Knizia, en hann er einn af afkastameiri borðspilahönnuðum síðari tíma. Reiner hannaði hér á árum áður mikið af góðum borðspilum þar á meðal. Tigris & Euphrates, Ra, Modern Art, Lost Cities, Taj Mahal og Samurai svo fá ein séu nefnd. Síðustu ár hefur hann meira verið að gefa út af minni og léttari spilum, sem stundum hafa bara verið endurunnar eigin hugmyndir, eins og Gold Nuggets. Að auki hafa mikið af hans spilum verið aðlöguð og gefin út fyrir spjaldtölvur og snjallsíma.

Prosperity hannaði Reiner í samvinnu við Sebastian Bleasdale, en hann hannaði m.a. Keyflower árið 2012 með Richard Breese og fengu þeir kumpánar mikið lof fyrir það spil. Ég ákvað að skella mér á eitt stykki af Prosperity þar sem fyrstu sögur hermdu að þarna væri á ferðinni prýðisgott spil. Spilið er nr. 11 á listanum yfir þau spil í safninu sem ég á eftir að spila og því skelltum við hjónin okkur í spil eitt föstudagskvöldið þegar drengirnir okkar voru sofnaðir.

prosperity03

Upphafsstaðan í landinu mínu

Í Prosperity stýrir hver leikmaður sínu landi og þarf að reyna að halda sem mestu jafnvægi á milli innkomu, iðnaðar, mengunar og orkunotkunar. Spilið snýst að miklu leyti um flísar sem sýna ýmis konar byggingar, umferðar- og iðnaðarmannvirki. Flísunum er raðað upp í bunka sem sýna áratuginar frá 1970 til 2030. Þegar leikmaður á að gera snýr hann við einni flís úr elsta bunkanum og sýnir tákn sem er á flísinni. Við það fer í gang fasi, þar sem leikmenn fara yfir hvernig staðan er á því tákni í sínu landi og geta fengið eitthvað gott og eitthvað slæmt allt eftir því hvernig þeim hefur tekist til við að halda jafnvægi í landinu sínu.

Ég hafði ekki alveg lesið smáa letrið í reglunum og því fór alveg framhjá mér að það væru táknin með hvítum ramma sem skiptu máli í þessum fara þannig að spilunin okkar hjónanna var ekki alveg samkvæmt bókinni, það verður bara lagfært í næstu spilun.

prosperity08

Nokkrar flísar og táknin á þeim

Eftir þennan yfirferðarfasa er flísin sem dregin var lögð á ákveðinn stað á söluborðinu þar sem leikmenn geta valið að kaupa flísina og aðrar þær flísar sem þar eru til sölu. Verðið á þeim fer svo eftir því hver staðan er á „rannsóknarkubbi“ viðkomandi leikmanns, þannig eru flísarnar sem eru ofar, og oft á tíðum verðmætari, dýrari nema maður hafi verið duglegur í rannsóknunum. Leikmenn hafa svo val um nokkrar aðgerðir, m.a. að kaupa flísar og bæta við landið sitt og þannig getur orkubúskapurinn, innkoman og mengunin breyst með hverjum kaupum. Leikmenn halda utan um orkubúskapinn (jákvæðan og neikvæðan) sem og mengunina á borðinu sínu með kubbum sem færast upp og niður skala eftir því sem flísar bætast við.

prosperity05

Kubbarnir halda utan um orkubúskap og umhverfisáhrif, en svörtu skífurnar segja til um mengun

Þegar spilinu er lokið, en því lýkur þegar allar 36 flísarnar hafa verið sýndar, er farið yfir stöðuna í landi leikmanna og þeir fá stig fyrir hversu vel þeim hefur tekist að halda jafnvægi. En um það snýst spilið að mjög miklu leiti, hvernig tekst manni að byggja upp land þar sem maður fær stöðuga innkomu, getur rannsakað nýja tækni og framleitt orku án þess að það hafi neikvæð áhrif og auki mengun.

prosperity02

Söluborðið

Við hjónin vorum mjög ánægð með þessa fyrstu tilraun í stjórnun lands, reyndar var spilið kannski aðeins of auðvelt vegna ruglingsins með reglurnar og það verður örugglega ekki eins auðvelt að halda jafnvæginu í næstu spilun. Prosperity tekur alls ekki langan tíma í spilun og ég held að í okkar næstu viðureign verðum við aðeins sjóaðri í þessu og þá ættum við að vera enn sneggri. Ég er nú bara nokkuð ánægður með þessi kaup, spilið virkar alla vega vel sem tveggja manna spil, nóg um að hugsa og skemmtilegt hvernig maður þarf að berjast við að halda jafnvægi í náttúrunni á sama tíma og manni langar í bygginguna sem gefur mikla innkomu en hefur mjög neikvæð áhrif á umhverfið … nokkuð raunsætt spil. Frúin laut í lægra haldi fyrir mér í þetta skiptið, hún reyndar hélt því fram að það hefði verið vegna mistaka minni í reglulestri, en látum það nú liggja á milli hluta  :lol:

prosperity04

Prosperity í fullum gangi

prosperity06

Söluborðið og rannsóknarkubbarnir

prosperity07

Landið mitt undir lokin

Spilað fyrir allan peninginn (2014) – 10/23: Snow Tails

snowtails01Tíunda spilið af listanum þetta árið til að vera spilað var Snow Tails. Í vetrarfríinu fórum við með fjölskyldu konunnar til Þingeyrar þar sem amman býr og vorum þar frá fimmtudegi til sunnudags. Þar var bara snjókoma og skafrenningur flesta dagana og því tilvalið að spila Snow Tails sem snýst um hundasleðakapp á keppnisbraut. Spilið keypti ég af góðum spilafélaga mínum, sem hafði keypt það á útsölu í Spilavinum á síðasta ári. Snow Tails var gefið út árið 2008 og hlaut einhver verðlaun og verðlaunatilnefningar. Í Snow Tails stýrir hver leikmaður sínum hundasleða og reynir að komast fyrstur í mark án þess að keyra of oft á og skemma sleðann. Hundasleðinn er sýndur á spjaldi fyrir framan hvern leikmann og með viðeigandi hundasleðapeði á brautinni. Brautin er samsett úr nokkrum mismunandi spjöldum og er hægt að breyta brautinni milli spilana. Í kassanum er þó nokkur fjöldi af miserfiðum spjöldum og getur maður alveg ráðið því hvort brautin verði létt eða erfið og allt þar á milli.

snowtails04

Einfaldasta brautin uppsett

Hundasleðaspjaldið sýnir hundana sem draga sleðann hægra megin og vinstra megin ásamt því að sýna bremsugildið sem er á sleðanum. Hraðinn á sleðanum er reiknaður út þannig að gildið á hundunum er lagt saman og svo er bremsugildið dregið frá þeim hraða. Þannig er fundið út hversu marga reiti sleðinn færist fram í umferðinni. Ef einhver munur er á hundunum, þ.e. ef t.d. hægri hundarnir draga sleðann lengra þá beygir sleðinn um jafn marga reiti til hægri. Leikmenn byrja með fimm hundaspil á hendi sem þeir draga úr sínum bunka. Í hverri umferð þarf svo að spila út einu, tveimur eða þremur spilum til að breyta gildinu annað hvort á hundunum hægra og vinstra megin eða til að breyta bremsugildinu.

snowtails03

Rauði hundasleðinn beygir til hægri þar sem hundarnir þeim megin hlaupa hraðar

Spilin fimm sem notuð eru til að stýra sleðanum áfram og til hliðar eru dregin af handahófi og ef sleðinn fer út af brautinni eða of hratt yfir ákveðna staði, þar sem eru hraðatakmörk, þarf leikmaður að draga beygluspil á hendi, en þau valda því að færri hundaspil fást á hendi. Þannig getur hendin fyllst af beygluspilum ef maður keyrir mikið utan í eða fer of hratt. Sá sem nær að fara lengst yfir endalínuna vinnur spilið.

snowtails07

Sleðarnir koma að þrengingu

Snow Tails er nokkuð snúið spil, þ.e. að stýra sleðanum og ná að verða fyrstur getur verið svolítil kúnst. Ein aðalreglan er líka sú að til að mega spila út fleiri en einu spili verða þau að vera öll af sama gildinu og því gerist það langoftast að maður spilar bara út einu spili og breytir þannig bara einni stýringu á sleðanum. Heppni spilar nokkra rullu í spilinu þar sem maður getur verið mjög óheppinn og dregið lág spil, eða spil sem henta alls ekki þá umferðina. Lágu spilin er samt hægt að nota til að draga úr bremsunni, en þá er hætta á því að farið verði of hratt yfir hraðatakmörkun. Það þarf því að huga að mörgu, en í heildina er Snow Tails samt frekar einfalt og tekur ekki of langan tíma, sérstaklega þegar fólk er búið að átta sig á hvernig stýringarnar á sleðunum virka.

Beygjurnar í Snow Tails geta verið svolítið snúnar, það er stundum ekki alveg á hreinu hvaða reitir eru framar í beygjunum, en eftir smá yfirlegu á Boardgamegeek fann ég ágætis útskýringu á því … eitthvað sem hefði náttúrulega átt að vera útskýrt almennilega í reglunum.

snowtails05

Heimatilbúin sleðabraut

Við spiluðum Snow Tails fjórum sinnum yfir helgina og voru allir frekar ánægðir með spilið og til í að spila aftur. Það eru nú alltaf ákveðin meðmæli. Ég á nú ekki mörg spil sem ganga út á kapp og Snow Tails sómir sér því vel í safninu. Reyndar var gefið út á síðasta ári nýtt spil frá sömu hönnuðum, en það heitir Mush! Mush!: Show Tails 2 sem byggir á sömu hugmynd en þar geta allt að átta leikmenn keppt. Alveg spurning hvort maður uppfæri í þá útgáfu. Alla vega er Snow Tails ljómandi skemmtilegt spil, með það margbreytilegum brautum að maður ætti að geta spilað það ansi oft án þess að fá á því leið. Prýðileg kaup fyrir 2.500 krónur.

snowtails02

Rauði sleðinn og það sem honum fylgir

snowtails06

Hindranir (grenitré) á brautinni

snowtails08

… og blái sleðinn vinnur!

Spilað fyrir allan peninginn (2014) – 9/23: Bohnanza Fun & Easy

bohnanza_funandeasy01Gamla góða Bohnanza er eitt af mínum uppáhalds léttu spilum sér í lagi þar sem það virkar vel fyrir mjög breiðan hóp og er fyrir allt að sjö leikmenn. Fyrir alllöngu síðan, man nú ekki alveg hvenær eða hvar, keypti ég litla útgáfu af Bohnanza sem ber aukanafnið Fun & Easy. Fun & Easy, eða skemmtilegt og létt, eru orð sem má allt eins nota til að lýsa gamla Bohnanza sjálfu, þannig að það var spurning hvaða auka skemmtun var fólgin í þessu Bohnanza. Til er fjöldinn allur af Bohnanza spin-off spilum og viðbótum, en Fun & Easy er eingöngu til á þýsku. Baunirnar eru því allar nefndar þýskum nöfnum, sem kom svo sem ekki að sök og var kannski bara skemmtilegra þegar við spiluðum það, þar sem allir reyndu að bera fram nöfnin með þýskum hreim. Reglurnar voru hins vegar líka bara á þýsku, sem var ekki alveg eins skemmtilegt, en eftir smá grúsk á Boardgamegeek fann ég enska þýðingu. Reglurnar fyrir Bohnanza Fun & Easy eru reyndar nánast alveg eins og fyrir Bohnanza, með smá undantekningum. Allir fá fimm spil á hendi eins og í upprunalegu útgáfunni, en í borðið eru lögð þrjú spil sem mynda baunamarkaðinn sem sá sem á leik getur notað sem skiptimynt, en þarf ekkert að taka baunir þaðan frekar en hann vill. Hver leikmaður er svo með þrjá akra til að gróðursetja í, en ekki tvo eins og í Bohnanza. Spilið gengur svo þangað til búið er að fara í gegnum baunabunkann tvisvar sinnum, en þá eru stigin talin og leikmennirnir geta uppskorið þær baunir sem eru í ökrunum þeirra.

Bohnanza Fun & Easy var ágætis skemmtun, en ég myndi nú frekar spila upprunalega Bohnanza frekar en þetta. Mér finnst hún vera betri þrátt fyrir að þessi breyting með opna baunamarkaðinn sé alveg sniðug. Bohnanza Fun & Easy er svona meira fyrir yngri kynslóðina og það er bara gott og blessað. Þá er maður alla vega búinn að prófa þetta.

bohnanzafun01

Baunirnar í Bohnanza Fun & Easy

Spilað fyrir allan peninginn (2014) – 8/23: Room 25

room25Room 25 er spil sem á að líkja eftir raunveruleikasjónvarpsþætti þar sem leikmenn eru fangar og eiga að reyna að sleppa út úr byggingu sem samanstendur af 25 mishættulegum herbergjum. Herbergin geta verið sakleysisleg, en inn á milli leynast stórhættuleg herbergi og svo herbergi 25, en þaðan er hægt að sleppa út. Room 25 er hægt að spila á nokkra vegu. Hægt er að spila einmenningsspil, samvinnuspil og svo að hluta til í samvinnu þar sem einhver eða einhverjir meðal leikmanna eru verðir sem vilja koma í veg fyrir að fangarnir sleppi út. Í upphafi er byggingunni raðar upp, en henni er raðað saman úr 25 herbergjaflísum. Í miðjunni er upphafsherbergið og í kringum það raðast hin herbergin á grúfu þannig að leikmenn vita ekki í upphafi hvaða herbergi er hvar. Einhversstaðar á ytri köntum byggingarinnar leynist svo herbergi 25 sem allir vilja komast í. Í sinni umferð fá leikmenn að velja allt að tvær aðgerðir af fjórum sem eru í boði. Þær eru: að kíkja inn í aðliggjandi herbergi, labba inn í aðliggjandi herbergi, færa til eina röð af herbergjum eða ýta einhverjum inn í herbergi, en einmitt sú aðgerð er einkar hentug fyrir verðina þar sem þeir geta þá ýtt leikmönnum inn í banvænt herbergi.

room2503

Allir byrja í upphafsherberginu

Markmið þeirra sem eru að reyna að sleppa er sem áður sagði að finna herbergi 25, komast öll þangað og ýta herberginu út úr byggingunni áður en 10 umferðir eru liðnar. Þeir sem eru verðir, ef einhverjir eru, vilja koma alla vega tveimur leikmönnum fyrir kattarnef, en við það endar spilið og verðirnir vinna. Samvinnuspilið gengur svo út á að allir komist út áður en tíunda umferðin er liðin.

room2502

Fjórir af föngunum

Ég tók Room 25 með mér á spilakvöld í Spilavinum nú í vikunni sem leið. Við náðum að vera sex sem spiluðum, en ég held að spilið sé best með 5-6 leikmönnum þegar einhverjir eru verðir. Skífunum sem dreift er blint í upphafi segja til um hverjir eru verðir og hverjir fangar. Í fyrsta spilinu okkar var ég vörður, sem reyndist áhugavert. Maður veit þannig ekkert hvaða annar leikmaður er vörður og hverjir fangar og gæti allt eins verið að koma hinum verðinum fyrir kattarnef. Í byrjun fór ég inn í herbergi sem maður drepst í ef einhver annar kemur inn í þar á eftir manni. Ég slapp út úr því en ákvað að elta annan leikmann og reyna að hrinda honum inn í herbergið og fylgja honum svo þangað til að stúta honum. Annað tækifæri til dráps gafst þegar við stóðum allt í einu við hliðina á dauðaherberginu, sem drepur hvern  þann sem inn í það stígur. Ég hrinti honum þá bara í staðinn inn í það. Annar leikmaður drapst svo af sjálfsdáðum þegar hann festist í herbergi og drapst áður en hann slapp þaðan út. Við verðirnir unnum því þetta spil nokkuð örugglega og án teljandi vandræða.

room2505

Brjálaði vísindamaðurinn og aðgerðirnar fjórar

Við ákváðum að taka aðra umferð af Room 25 og í þetta skiptið var ég ekki vörður. Fljótlega fóru grunsemdir að beinast að alla vega einum leikmanni sem gerði tilraun til að hrinda öðrum inn í herbergi. Það tókst ekki en engu að síður drápust tveir þátttakendur í banvænum herbergjum áður en langt um leið og þar með lauk spilinu með sigri varðanna, í annað skiptið.

room2507

Einn búinn að finna útganginn

Room 25 virkaði alveg prýðilega á mig. Verðirnir virðast samt hafa ákveðið forskot ef þeir eru með í leiknum þar sem leikmenn geta sjálfir komið sér fyrir kattarnef og auðveldað þannig vinnuna fyrir vörðunum. Annað sem maður lærði á þessum tveimur spilunum var að vera varkár, ekki æða bara inn í ókannað herbergi því það getur verið banvænt. Fyrstu kynni af Room 25 voru því ánægjuleg, Spilið er margbreytilegt þar sem herbergin raðast mismunandi upp í hvert skipti, hægt er að bæta við erfiðari herbergjum og svo er hægt að spila samvinnuspil, samkeppnisspil, í teymum og einnig einmenningsspil. Það sem eykur einnig notagildið fyrir mig er að spilið er fyrir allt að 6 leikmenn. Room 25 er alla vega áhugavert og þar sem ég á ekki neitt annað svipað spil, nema kannski Panic Station en það var ekki að gera sig, þá á ég örugglega eftir að grípa í þetta aftur.

room2504

Room 25

room2506

Hópurinn tvístraður

room2508

Umferðateljarinn

room2509

Fjórir fangar og tveir verðir

Spilað fyrir allan peninginn (2014) – 7/23: Russian Railroads

russianrailroads01Lestaruppbygging í Rússlandi … hljómar kannski ekki spennandi spilaþema en í raun er hér á ferðinni þrusugott spil. Russian Railroads er sjöunda spilið af listanum sem fékk spilun, en til mín mættu tveir góðir spilafélagar í vikunni sem leið til að kljást í rússnesku lestarkerfi. Reyndar er ekkert sérstaklega rússneskt við spilið, þemað hefði allt eins getað verið þýskar lestir eða sænskar, hefði svo sem ekki breytt neinu. En rússneskar eru þær og það virkar svo sem ekkert illa. Russian Railroads kom út á Essen í fyrra (2013) og lenti í fyrsta sæti Fairplay listans á sýningunni, en sá listi gefur til kynna hvaða spil eru að falla í kramið hjá spilaspekúlöntum. Spilið er nokkuð hefðbundið worker placement spil þar sem leikmenn skiptast á að leggja út vinnumenn á aðgerðareiti og framkvæma þá aðgerð sem viðkomandi reitur leyfir. Hver leikmaður hefur leikinn með sitt eigið lestarleikborð, en á því vinnur hann að uppbyggingu síns lestarkerfis. Á aðalborðinu eru aðgerðareitinir sem vinnumennirnir eru sendir á til að byggja upp lestarkerfið. Lestarkerfið samanstendur af þremur leiðum og geta leikmenn valið hvaða leið þeir vilja eyða mestri orku í, eða dreift vinnunni á þessar þrjár leiðir. Svo er einnig hægt að byggja upp iðnað samhliða lestaruppbyggingunni þannig að leikmenn hafa úr mörgu að velja þegar kemur að því að velja hvaða leið þeir vilja fara í að safna stigum, en stigasöfnun er mikil í spilinu þar sem gefin eru stig eftir hverja umferð, en þær eru frá 6-7 talsins (fer eftir fjölda leikmanna).

russianrailroads02

Undir lokin á þriggja manna spili

Ég ætla nú ekki að leggja í þá vegferð að reyna að útskýra reglurnar í Russian Railroads í þessari færslu, enda er reglubæklingurinn heilar 24 blaðsíður, en þarna eru á ferðinni einhverjar þær best skrifuðu reglur sem ég hef lesið. Eftir lestur þeirra voru í raun engar spurningar sem leita þurfi svara við. Þetta mættu aðrir borðspilaútgefendur taka sér til fyrirmyndar, enda er það ekkert óalgengt að maður byrji á því að lesa reglur og þurfi svo að fara á Boardgamegeek til að skoða umræður þar sem einhver hefur óskað eftir aðstoð með reglur. Þeir sem vilja skoða reglurnar geta nálgast þær hér.

russianrailroads05

Aðal aðgerðaborðið

Eins og áður sagði vorum við þrír sem spiluðum og gekk spilunin svona líka ljómandi vel. Russian Railroads er í sjálfu sér ekki flókið, allar merkingar á leiðkborðunum mjög greinargóðar og mig minnir að við höfum ekkert þurft að fletta upp í reglubæklingnum, nema til að staðfesta hvað tákn á bónusspilum þýddu. Einn okkar hafði spilað spilið tvisvar áður og ég var búinn að þaullesa reglurnar þannig að spilið gekk eins og vel smurð eimreið.

russianrailroads10

Leiðirnar þrjár sem hægt er að klára: St. Petersburg, Kiev og Vladivostok

Þrátt fyrir að spilið sé í grunninn ekki flókið, alla vega ekki eftir að maður er búinn að lesa reglurnar, eru valkostirnir það margir að erfitt getur verið að velja það sem er hentugast. Maður getur valið um svo margar aðgerðir að á stundum er erfitt að ákveða langtímaáætlun og reyna að standa við hana, enda margir reitir til að velja úr. Því getur spilið orðið svolítil æfing í reikningi, þar sem maður reynir að reikna út hvaða aðgerð skili manni flestum stigunum. Eins og áður sagði eru stig gefin í lok hverrar umferðar og því er stigasöfnunin heilmikil. Ég fór hægast af stað í henni og var þó nokkuð á eftir hinum tveimur um miðbik spilsins. Ég hafði samt sett mér ákveðna áætlun, en hún var m.a. að ná í bónusinn fyrir að ráða flesta verkfræðingana, en sá bónus er 40 stig. Það hafðist og í bland við aðra stigasöfnun tókst mér að landa öðru sætinu, rétt um 7 stigum á eftir þeim sem varð í fyrsta sæti.

Við vorum kannski rétt rúman klukkutíma að spila, sem verður að teljast gott þegar tveir leikmenn höfðu aldrei spilað spilið áður. Eftir þessa fyrstu spilun þyrstir mig í að spila Russian Railroads aftur til að prófa mismunandi langtímaáætlanir. Fyrstu kynni af spilinu eru alla vega mjög góð, ég hef gaman af worker placement spilum og spilum þar sem hægt er að velja margar leiðir til að safna stigum. Russian Railroads er því verðlaunauppskrift hvað mig varðar og þetta fyrsta smakk gefur fyrirheit um ljómandi ljúffengt spil.

russianrailroads09

Rússnesku verkfræðingarnir sem hægt er að ráða

russianrailroads08

Aðgerðareitir

russianrailroads03

Lestarborðið hjá bláum

russianrailroads07

Aðgerðaborðið

russianrailroads06

Lestarvagnarnir 9