Spilað fyrir allan peninginn (2017)

spiladfyrirallanpeninginn2016_logo2Á þeim fimm árum sem ég hef haldið þessari síðu úti hef ég verið misduglegur við að skrifa. Stundum koma tímabil þar sem ég skrifa lítið sem ekkert og stundum er ég alltaf eitthvað að skrifa. Frá því í apríl á síðasta ári hef ég verið afskaplega óduglegur og er þetta örugglega eitt lengsta þurrkatímabilið í skrifum frá því ég byrjaði. Ástæðan fyrir þessari löngu þurrkatíð er m.a. flutningur fjölskyldunnar í maí sl. og öll vinnan sem hefur farið í að koma okkur fyrir á nýjum stað. Spilasafnið fékk sérherbergi eins og sjá má hér á myndinni. Eftir því sem tíminn hefur liðið hefur svo reynst erfiðara og erfiðara að setjast niður og skrifa.
SpilasafnÞví var ég alvarlega að íhuga að hætta þessu endanlega en er ekki alveg tilbúinn til þess. Bæði finnst mér skemmtilegt að halda síðunni úti og vonandi hafa einhverjir gaman af henni. Einnig náði ég aldrei að klára almennilega síðasta ár, þ.e. að spila öll spilin í safninu (sjá færslu hér) og skrifa um þau sem átti eftir að spila. Því ákvað ég að reyna einu sinni enn að koma mér í gang og setja saman lista yfir óspiluðu spilin í safninu.

Eitthvað bættist við safnið á síðasta ári, á meðan ég hef líka losað mig við eitthvað af spilum. Í dag eru þau samtals 288 stykki, en á sama tíma í fyrra voru þau 298 þannig að eitthvað fer þeim fækkandi. Listinn yfir óspiluðu spilin telur í heildina 39 og eru þau tekin saman hér að neðan.Inis 

Spilað fyrir allan peninginn (2016)

spiladfyrirallanpeninginn2016_logoNú í febrúar eru komin 4 ár síðan ég startaði þessari síðu og byrjaði að skrifa um borðspil. Spilasafnið og áhuginn á spilum hefur samhliða skrifunum farið jafnt og þétt vaxandi. Nú er svo komið að spilasafnið telur samtals 298 spil, en í fyrra var þessi tala 272. Ég hef því bætt við 26 spilum síðasta árið.

Árið 2015 spilaði ég 134 borðspil samtals 445 sinnum, samanborið við 237 spilanir á 106 spilum árið 2014 en það er aukning upp á 88% á milli ára. Engu að síður eru ennþá nokkur spil í safninu sem ég á eftir að prófa. Árið á undan voru það 26 spil (sjá færsluna hér), en þá tókst mér ekki að klára að spila allt á listanum áður en árið var liðið.

Því færast 12 spil frá þeim lista yfir á þetta árið og 21 ný bætast við. Heildarlistinn telur því 33 spil, en þau má sjá hér að neðan. Fimm þessara spila eru meira að segja af listanum árið 2014 og alveg kominn tími til að prófa þau. Nú er bara að láta hendur standa fram úr ermum og klára þetta!

Spilað fyrir allan peninginn (2015)

spiladfyrirallanpeninginn2015_logo1

Í byrjun hvers árs eftir að ég stofnaði þessa síðu hef ég farið yfir spilasafnið og tekið saman hversu mörg þeirra eru óspiluð. Fyrsta árið sem ég hóf þennan sið var árið 2013, en þá hafði ég haldið síðunni úti í 1 ár. Þá samanstóð listinn af 39 spilum og má sjá hann hér. Í fyrra voru spilin aðeins færri eða 23. Þann lista náði ég því miður ekki að klára, þegar árið var liðið átti ég bara eftir að spila 7 spil og alger synd að ég hafi ekki náð að klára þau.

Heildarspilasafnið telur nú 272 spil og hefur þeim því fjölgað um 50 stykki frá því á sama tíma fyrir ári. Nú fer ég af stað í þriðja skiptið með það göfuga markmið að klára að spila öll spilin sem eftir eru þannig að í þessu 272 spila safni sé ekkert spil sem ég hef ekki spilað.

Hér að neðan er listinn fyrir þetta árið, en hann samanstendur af 26 spilum. Eins og síðustu tvö árin ætla ég að skrifa um hverja spilaupplifun fyrir sig … og nú ætla ég að standa við það að spila þau öll á þessu ári  :-)

Spilað fyrir allan peninginn (2014)

stpetersburg_money

Í febrúar 2013 var ár liðið frá því ég hleypti þessari síðu af stokkunum og af því tilefni fór ég yfir allt spilasafnið og athugaði hvort ég ætti eftir einhver óspiluð spil (sjá færsluna hér). Þetta fannst mér mjög sniðugt og einstaklega skemmtilegt og hef því ákveðið að gera þetta að árlegum viðburði, svo lengi sem ég eigi eitthvað eftir óspilað í safninu.

Frá því ég kláraði yfirferðina sem hófst í febrúar 2013 hefur nú eitthvað fjölgað í safninu sem telur núna 222 spil, en þau voru 177 á sama tíma fyrir ári. Eftir mikla yfirlegu á Boardgamegeek, uppsetningu og útreikninga í Excel er niðurstaðan sú að af þessum 222 spilum hafa 23 þeirra aldrei verið spiluð (eða bara verið spiluð sóló). Hér að neðan eru þessi spil og nú er markmiðið að klára að spila þau öll fyrir lok febrúar, en þá verður síðan 2ja ára.  Og eins og í fyrra ætla ég að skrifa um upplifunina af hverju og einu spili …

UPPFÆRT: Ekki tókst mér að klára að spila öll spilin á árinu. Þau sem eru merkt með rauðum krossi stóðu eftir í lok árs 2014 og færast því yfir á listann fyrir 2015 :-SA la Carte


Attika


Bohnanza Fun & Easy


China


Concordia


Der Herr der Ringe: Die Zwei Türme


Double Agent


Euphrates & Tigris Card Game


Hera and Zeus


Krosmaster: Arena


Luna


Medici vs. Strozzi


Mission: Red Planet


PAX


Prosperity


Risk: Star Wars – The Clone Wars Edition


Robber Knights


Room 25


Russian Railroads


San Marco


Skyline


Snow Tails


Renaissance Man

Spilað fyrir allan peninginn – 39/39:Panic Station

panicstation1Jæja, það hafðist.  Loksins náði ég að spila Panic Station og með því ljúka listanum langa.  Nú hef ég lokið við að spila þessi 39 spil sem voru eftir óspiluð í spilasafninu.  Þessum merkilega áfanga náði ég á spilakvöldi í Spilavinum síðasta fimmtudagskvöld í nýju húsnæði.  Þarna rúmast spilakvöldin miklu betur, mikið var af fólki en nægt rými fyrir alla.

Panic Station var fyrst gefið út eftir Essen 2011 og er búið að liggja óspilað síðan ég keypti það einhverntímann fyrir jólin það árið.  Panic Station er, eins og hönnuðurinn lýsir því: „paranoia-driven partly cooperative game“.  Einföld og vel skiljanleg skilgreining.  Spilið byrjar sem samvinnuspil, allir leikmennirnir hafa hver og einn yfir að ráða einni manneskju og einu vélmenni sem eiga að fara inn í yfirgefna tilraunastöð, finna þar sníkjudýrabú og brenna það.  Leikmennirnir stýra sem sagt manni og vélmenni og senda þá hist og her um stöðina til að uppgötva herbergi og leita í þeim til þess að finna m.a. bensínbrúsana sem þarf til að brenna búið.  Leikmenn geta einnig fundið alls kyns nothæfa hluti, eins og hnífa, brynjur, sjúkrakassa o.s.frv.  Við að leita í herbergjum birtast einhver kvikindi sem geta flakkað á milli herbergjanna og valdið leiðangursmönnum og vélmennum skaða.  Að auki, og þetta er nú eiginlega aðalatriðið í spilinu, er alveg pottþétt að einn leikmaður sýkist við það að leita.  Það gerist ef hann dregur svokallað hýsilspjald þegar hann leitar í herbergi (eða fær það jafnvel á hendi þegar tveimur spilum á mann er útdeilt í byrjun spilsins).  Um leið og hann sýkist verður það hans markmið að sýkja sem flesta aðra leikmenn og sjá til þess að þeim takist alls ekki að brenna sníkjudýrabúið.

panicstation4

Panic Station: Fjólublái töffarinn Ramirez og vélmennið hans

Sýkingunum er komin á milli leikmanna þegar þeir skiptast á spilum.  Ef einhverjir tveir leikmenn hittast í herbergi þá verða þeir að skiptast á spilum, nema ef leikmaðurinn sem er að koma inn í herbergið kjósi frekar að ráðast á hinn leikmanninn, en þá er ekki skipst á spilum.  Hýsillinn sýkir aðra með því að láta þá fá sýkingarpil.  Þetta er gert án þess að aðrir leikmenn viti hvaða spilum er verið að skipta á.  Hægt og rólega fjölgar þeim smituðu og þar kemur inn á „paranoia“ hlutann í spilinu.  Maður fer að verða mjör varkár þegar einhver kemur inn í herbergi til manns og vill skipta á spili.  Eina leiðin til að forðast að verða sýktur er að láta hinn leikmanninn fá bensínbrúsa í skiptunum, en þá ertu að gefa frá þér það sem þarf til að brenna búið.  Svo veit maður ekkert hvort viðkomandi er sýktur fyrr en maður er búinn að fá frá honum spil og gefa eitt frá sér.

panicstation5

Panic Station: Spilun í fullum gangi

Við vorum sex saman sem spiluðum, öll að prófa Panic Station í fyrsta skiptið.  Upprunalegu reglurnar með spilinu voru mjög illa skrifaðar og mikið var kvartað undan því á Boardgamegeek, enda vöknuðu margar spurningar hjá mér við fyrsta lestur.  Hins vegar er búið að gefa út endurbættar reglur og var ég búinn að prenta þær út og lesa.  Vegna mjög svo óljósra reglna hafði spilið fengið harða gagnrýni til að byrja með. Hönnuðurinn var duglegur við að verja spilið og lenti víst í mörgum rifrildunum á spjallþráðum Boardgamegeek.  Spilið virkaði hins vegar alveg ágætlega á okkur.  Það var strax einn sem smitaðist í byrjun spilsins, án þess að nokkur annar vissi af því.  Svo fékk ég í fyrstu umferðinni sýkingarpil frá honum þar sem ég hitti hann í einu herbergjanna og þá byrjaði ég að reyna að smita aðra.  Fleiru bættust í hóp sýktra, að lokum náðum við svo að smita þann síðasta og þar með lauk spilinu.  Þetta var ágætis upplifun, maður var kannski of saklaus í fyrstu þegar ég hitti hýsilinn í bakherbergi.  Mig grunaði ekki að hann væri sýktur, en ef ég hefði sent honum bensínbrúsa á móti þá hefði ég sloppið.  Mér sýnist nú samt að það sé miklu auðveldara að ná að sýkja alla með sér og enda þannig spilið heldur en það er fyrir þessa ósýktu að brenna sníkjudýrabúið.

Nú hef ég náð þeim merka áfanga að hafa spilað öll spilin 177 sem í safninu eru alla vega einu sinni!  Fyrsta spilið var Pyramid sem við feðgarnir spiluðum 18. janúar.  Þannig að á tæpum þremur mánuðum kláraði ég 39 spil sem ég hafði aldrei spilað áður.  Innan um hafa leynst nokkur virkilega góð spil sem verða án efa mikið spiluð á þessu heimili.  Þar ber helst að nefna Modern Art sem er í augnablikinu eitt af okkar uppáhalds spilum.  En af nógu er að taka og fullt af spennandi spilum komin út síðan ég fór í innkaupabindindið og enn fleiri væntanleg.  Því er bara næst á dagskrá að velja eitthvað gott spil til að kaupa sér :grin:

panicstation_spilavinir

panicstation2

Panic Station: Þrír bensínbrúsar + sníkjudýrabúið + einn mega töffari = eldfim blanda

panicstation3

Panic Station: Byssa, skot og auka aðgerð. Allt hlutir sem geta fundist við leit í herbergjum

Spilað fyrir allan peninginn – 38/39:SWAT!

swat1Næstsíðasta spilið af listanum var enn eitt Reiner Knizia spilið (hin voru: Ra, Hringadróttinsspilið, Modern Art og Taj Mahal).  Það heitir SWAT! og er lítið og nett spil, en innihaldið er þó nokkur fjöldi af spilum sem sýna mismunandi skorkvikindi og pöddur.  Innan um eru einnig spil með bónusum, en SWAT! gengur einmitt út á að safna sem flestum stigum.  Pöddurnar eru með mismunandi stigafjölda, sum hver mikils virði á meðan önnur eru minna virði og gefa jafnvel mínusstig.  Í hverri umferð snýr einn leikmaður einu spili í einu við úr stóra bunkanum.  Leikmenn eiga svo að slá hendinni á þar til gerða mottu, sem fylgir með, til að gefa til kynna að þeir vilji fá bunkann sem hefur safnast upp.  Sá leikmaður sem fékk bunkann tekur svo að sér að snúa við spilum úr stóra bunkanum, þannig að hinir leikmennirnir taka að keppast um spilin.  Svona gengur spilið þangað til allir hafa náð í þrjá bunka, eða spilin í stóra bunkanum eru orðin uppurin.  Hver leikmaður má bara ná sér í þrjá bunka þannig að maður verður að reyna að tímasetja handarsláttinn vel.  Stigin eru talin saman og svo er haldið áfram.  Spilaðar eru þrjár heilar umferðir og sá sem hefur fengið flest stig er sigurvegari.

swat2

SWAT!: Innihald spilsins

SWAT! er eins einfalt og spil verða, en hins vegar verður maður að fylgjast vel með bæði hvaða spil eru komin í bunkann og eins hvaða spil maður náði í áður.  Sum spil gefa nefnilega bara stig (bæði plús og mínus) ef þau eru pöruð með öðru eins spili.  Við tókum þetta undir lok bústaðarferðarinnar og skemmtum okkur prýðilega í baráttunni um bunkana.  Ég held að þetta sé annars mjög sniðugt spil fyrir krakka og frúnni leist vel á að fá SWAT! með sér í skólann, fyrir bekkinn sem hún er að kenna, enda hægt að láta allt að sjö spila saman.

Nú fer þessu spilamaraþoni senn að ljúka, bara eitt spil eftir en það er Panic Station.  Það hefur fengið ansi misjafna umsögn, sumir hreinlega hata það á meðan aðrir eru mun hrifnari … verður spennandi að sjá hvernig það gengur.

swat3

SWAT!: Mismunandi spil

Spilað fyrir allan peninginn – 37/39:Taj Mahal

tajmahal1Á meðan drengirnir svömluðu í heita pottinum í sumarbústaðnum sátum við inni í notalegheitum og spiluðum m.a. Taj Mahal.  Taj Mahal er búið að vera í safninu einhver ár, man ekki nákvæmlega hvenær eða hvar ég keypti það, en að öllum líkindum var það í Edinborg 2007.  Taj Mahal er enn eitt spilið af listanum mínum sem hannað er af Reiner Knizia.  Eitt af uppáhaldsspilunum okkar þessa dagana er einmitt hannað af honum og var á listanum, en það er Modern Art sem gengur út á listaverkauppboð.  Taj Mahal er einmitt að hluta til uppboðsspil.  Markmiðið er að tryggja sér áhrif í tólf héruðum Indlands eftir fall Mógúlanna á 17. öld.  Til þess nota leikmenn spil í mismunandi litum sem sýna mismunandi tákn t.d. fíla, Mógúla, munka og prinsessur.

tajmahal2

Taj Mahal: Spilin sem notuð eru við uppboðin

Héruðin, eða öllu heldur áhrifin í þeim, eru boðin upp eitt í einu.  Leikmennirnir leggja niður áhrifaspilin og keppast þannig um að ná meirihlutaáhrifum yfir hverri stétt í héraði.  Til þess að ná áhrifum verður leikmaður að vera með fleiri sýnileg tákn í einhverjum flokki eða flokkum umfram aðra leikmenn þegar hann dregur sig út úr uppboði.  Leikmaður getur í sinni umferð ákveðið að draga sig úr uppboðinu og ná þeim meirihluta sem hann hefur þá stundina.  Vel er hugsanlegt að eyða nokkrum spilum í uppboðið en fá ekki neitt, því öll áhrifaspil sem hafa verið lögð niður eru töpuð.  Þeir sem ná meirihluta í ákveðnum flokkum fá svo að setja niður hallir í því héraði sem keppst var um í það skiptið, en héruðin eru eins og áður sagði tólf talsins.  Leikmenn safna einnig vörum og reyna að tengja héruð saman með sínum höllum og fá stig fyrir.

tajmahal4a

Taj Mahal: Fer að líða að lokum, blár ennþá aftastur á stigatöflunni

Ég var í smá vandræðum með að útskýra Taj Mahal  í byrjun.   Reglurnar var ég þó búinn að lesa nokkrum sinnum og vissi nokk vel út á hvað spilið gekk.  En það er eitthvað hálf flókið við að reyna að útskýra fyrirfram hvað á að gera í hverri umferð, sérstaklega þegar kemur að uppboðsspilunum.  Við ákváðum því að byrja bara að spila og láta á þetta reyna.  Og viti menn, það gekk bara svona ljómandi vel.  Uppboðið og spilunin almennt er frekar einföld þegar maður er búinn að sjá hvernig það virkar í eina til tvær umferðir.  Fyrri hluta spilsins dró ég lestina og leit út fyrir að verða í síðasta sæti, mér gekk illa að ná áhrifum þannig að ég fengi að leggja niður hallir á meðan aðrir voru komnir með þó nokkurn fjölda af þeim inn á borðið.  Ég ákvað að einbeita mér að vörunum og hægt og rólega kleif ég stigatöfluna og stakk af undir lokin.

tajmahal3a

Taj Mahal: Taj Mahal

Taj Mahal kom skemmtilega á óvart, enn eitt Knizia spilið sem gerir það gott.  Við vorum öll sammála um ágæti spilsins og frúin lýsti því yfir að þetta finndist henni skemmtilegt spil og við skyldum spila það aftur við tækifæri.  Enn leynast góðir bitar í listanum sem nú er að verða búinn.  Ágætt að fá gott spil eftir daufa stund með Mystery Express.

tajmahal5a

Taj Mahal: Vöruflísarnar sem fylgja nokkrum héruðum

Spilað fyrir allan peninginn – 35/39:Get Nuts

getnuts1Einhvern veginn ætlar það að taka mig óratíma að klára síðustu spilin á listanum.  Í bústaðarferð fyrir páska spiluðum við mest Blokus og The Resistance, ásamt einni misheppnaðri tilraun til að spila Mystey Express, sem er á listanum en var sjálfhætt eftir eina umferð þar sem enginn var að ná almennilega hvernig spilið virkaði … meira um það síðar þegar mér tekst að klára það.  Á páskadag fórum við í mat til tengdó og eftir matinn ákvað ég að láta reyna á eitt sem er búið að vera í safninu í tvö og hálft ár.  Það er spilið Get Nuts sem ég keypti í Lúxemborg í nóvember 2010 án þess að hafa nokkra hugmynd um hvernig það væri.  Mér fannst bara kassinn skemmtilega hannaður, málmdolla með flottum teikningum.  Reyndar er ég búinn að fá alveg nóg af þessum málmdollu-spilakössum, þeir passa svo illa innan um aðra kassa, en það er önnur saga.

Get Nuts gengur út á að stýra íkornum eftir trjáslóða til að ná í jarðhnetur úr safnhaug sem settur er á mitt borðið.  Leikmenn raða niður trjám eftir slóðanum upp að hnetunum sem þeir þurfa svo að senda íkornann sinn eftir til að ná í hneturnar.  Til að íkorninn geti farið eftir slóðanum þarf að hafa tré á hverjum af fjórum hlutum slóðans sem íkorninn svo hoppar á milli.  Í hverri umferð hafa leikmenn fjóra aðgerðapunkta til að nota og er hægt að leggja niður tré, láta íkornann hoppa milli trjánna, næla í efsta spilið í hnetustaflanum og/eða spila út leiðindaspilum á aðra leikmenn.  Leiðindaspilin eru spiluð út á slóða annarra leikmanna sem hugsanlega skemma fyrir þeim, eða tefja á leiðinni að hnetunum.  Þetta geta verið íkornar með keðjusagir eða jafnvel eldvörpur sem geta eyðilagt tré á slóða leikmanns. Og svo er það blessuð jarðýtan … en meira um hana síðar.  Þetta er svona í grófum dráttum hvernig spilið gengur fyrir sig, sá sem hefur náð flestum hnetustigum þegar hnetustaflinn í miðjunni klárast vinnur spilið.

getnuts4

Get Nuts: Leiðindaspilin, íkorni með keðjusög og jarðýtan

Get Nuts gekk bara prýðilega, nema þegar kom að áðurnefndri jarðýtu.  Þegar svilkona mín spilaði jarðýtunni á slóðann hjá frúnni minni kom upp lítilsháttar ágreiningur sem erfitt var að leysa úr, sér í lagi þar sem reglurnar sem snúa að því hvernig jarðýtan virkar eru aðeins gloppóttar.  Úr varð góðlátlegur núningur milli mín og frúarinnar þar sem við túlkuðum jarðýtureglurnar á sinn hvorn háttinn.  Þetta var svo sem ekki alvarlegt en orsakaði það að frúin frúnni fannst spilið ekkert sérstaklega skemmtilegt.  Mér fannst það hins vegar allt í lagi, en Get Nuts er nú spil sem ég myndi frekar spila við yngri leikmenn  heldur en eldri.  Held að spilið henti vel krökkum frá 8 ára aldri, eins og stendur á kassanum … kannski bara rétt að fara eftir því :grin:

Annars fór ég síðar um kvöldið inn á Boardgamegeek og sendi inn fyrirspurn á síðunni þar sem ég óskaði eftir útskýringum á jarðýtuspilinu.  Og viti menn, skömmu síðar svaraði hönnuðurinn og staðfesti mína túlkun … nú er bara að benda frúnni minni á það  :tounge:

getnuts2

Get Nuts: Spilið í fullum gangi

getnuts3

Get Nuts

Spilað fyrir allan peninginn – 32/39:The Princes of Florence

princesofflorence01Við hjónin höfum einhverra hluta vegna ekki verið nógu dugleg upp á síðkastið að setjast niður og spila. Kannski vill hún draga það í lengstu lög að klára listann því það þýðir að þá styttist í að ég kaupi mér nýtt spil :lol:

Á laugardagskvöldið náðum við þó að spila eitt spil af listanum, en það var The Princes of Florence. Spilið kom upphaflega út árið 2000, en ég keypti það á útsölu í Nexus síðasta sumar.  Ég hafði lengi haft augastað á spilinu, enda hefur það fengið góða umfjöllun á Boardgamegeek og er í þessum skrifuðu orðum í 37-unda sæti yfir bestu borðspilin þar.  Spilið er hannað m.a. af Wolfgang Kramer, en hann er einn af þekktari spilahönnuðum Þýskalands, er kominn á áttræðisaldur en er enn að hanna spil.  Hann var fyrsti spilahönnuðurinn til að staðsetja stigatöflu meðfram kanti spilaborðsins og hefur sú hönnun verið óspart notuð síðan þá, en þessi stigatöflu-uppsetning hefur verið nefnd Kramer Leiste á þýsku eða Kramer Track á ensku til heiðurs honum.

princesofflorence02

The Princes of Florence

En aftur að spilinu … Í The Princes of Florence ætla leikmenn sér að verða virtasta fjölskyldan í Florence með því að laða til sín lista- og fræðimenn til að vinna að sínum fræðum í sínum borgarhluta.  Spilið á að gerast á tímum endurreisnarinnar í Evrópu (14. – 16. öld) en það tímabil hefur í gegnum tíðina verið óskaplega vinsælt hjá hönnuðum. Í The Princes of Florence þurfa leikmenn að byggja ákveðnar byggingar, innleiða athafnafrelsi eins og ferðalög, trú og frjálsar skoðanir, allt til þess að uppfylla þarfir lista- og fræðimannanna.  Einnig geta leikmenn þurft að byggja garða, skóglendi og tjarnir í sínum borgarhluta til að veita fræðimönnunum sem mestan innblástur.  Leikmenn geta keypt þær byggingar sem þá vantar, en til að fá garða, skóglendi, tjarnir og annað nauðsynlegt þurfa þeir að kljást um þá hluti við aðra leikmenn á uppboði í hverri umferð.  Einnig verða leikmenn að geta staðsett þá hluti sem þeir kaupa inni á leikmannaborðinu sínu sem er skipt niður í reiti.

princesofflorence03

The Princes of Florence: Leikmannaborðið með byggingum, tjörn og fleiru

Spilað er í sjö umferðir og í hverri umferð hafa leikmenn tækifæri á því að láta fræðimennina vinna 1-2 verk og fá þannig stig og peninga.  Peningar eru lykilatriði í spilinu, því menn verða að vera klárir í m.a. uppboðið enda kosta nánast allar aðgerðir eitthvað.  Það var nú einmitt það sem við komumst að í þessari spilun okkar hjónanna, nema hvað við áttum nóg af peningum.  Það skýrist eiginlega af því að við spiluðum spilið bara tveggja manna og því voru uppboðin ekkert sérstaklega spennandi, maður borgaði bara lágmarksupphæðina og hinn aðilinn keypti svo bara það sem hann vildi á lágmarksverði.

princesofflorence04

The Princes of Florence: Profession spilin, þau sem allt snýst um

Okkur fannst The Princes of Florence vera alveg ágætt. Það sem dró úr því tennurnar að okkar mati var fjöldi leikmanna, eða öllu heldur skortur á þeim.  Spilið er skráð fyrir 3-5 leikmenn en í reglunum er boðið upp á smávægileg frávik frá aðalreglum til að hægt sé að spila það með tveimur.  Ég held barasta að það sé ekkert sérstaklega gáfulegt að spila það þannig.  Í uppboðshlutanum skiptumst við bara á að kaupa það sem okkur vantaði án þess að bjóða á móti hvort öðru.  Svo dunduðum við bara við að gera okkar besta, sem gekk nú reyndar aðeins betur hjá mér, en ég hafði í lokin sigur með 7 stiga mun.  The Princes of Florence er að öllum líkindum vel heppnað og gott spil, en við upplifðum það ekki með því að spila það tveggja manna.

princesofflorence05

The Princes of Florence: Byggingarnar sem í boði eru

princesofflorence06

The Princes of Florence: Lokastaðan, blár hafði betur

Spilað fyrir allan peninginn – 31/39:Key Largo

keylargo1Um helgina náði ég að fá eldri soninn til að spila við mig með því að sannfæra hann um að Key Largo hentaði honum örugglega betur en Hringadróttinsspilið. Það reyndist rétt og áttum við notalega spilastund, kafandi eftir fjársjóðum við Key Largo.  Spilið gengur út á að senda kafara til að kafa niður að skipsflökum, sem liggja á mismunandi dýpi, og sækja þangað fjárssjóði sem maður selur síðan á markaði eða geymir þar til í lok spilsins.  Í upphafi fá leikmenn einn kafara sem getur kafað niður að skipsflökum á grunnu dýpi.  Flökin liggja hins vegar misdjúpt og þurfa kafararnir aukabúnað (slöngur) til að geta farið dýpra.  Einnig er gáfulegt að kaupa handa þeim spjót sem þeir nota ef þeir komast í návígi við neðarsjávarskrýmsli og einnig lóð, en með þeim mega kafararnir kafa aftur að sama flakinu í sömu umferð.  Spilað er í 10 umferðir, en í hverri umferð fá leikmenn að velja eitthvað tvennt sem þeir vilja gera; ein aðgerð fyrir hádegi og önnur eftir hádegi.

keylargo2

Key Largo: Kafað eftir fjársjóðum

Aðgerðirnar sem hægt er að velja um eru mismunandi; hægt er að skreppa á kránna til að ráða fleiri kafara, fara í verslunina til að kaupa súrefnisslöngur, lóð og spjót, selja gull og gersemar á markaðnum, kafa eftir fjársjóðum eða fara með ferðamenn í höfrungaskoðun.  Key Largo er mjög einfalt spil og í byrjun fannst mér það kannski einum of einfalt.  En svo fór ég nú aðeins að meta það betur eftir því sem á leið og hafði bara gaman af.  Sonurinn skemmti sér einnig vel og var miklu hrifnari af þessu en Hringadróttinsspilinu.

keylargo3

Key Largo: Spilin sem maður notar til að velja aðgerðir

Fjöldi spilara skiptir svolítið miklu máli í Key Largo þar sem kostnaður t.d. við að ráða kafara og kaupa búnað eykst eftir því sem fleiri leikmenn velja þær aðgerðir í sömu umferð og þú.  Einnig fellur verð á gulli og gersemum á markaði eftir því sem fleiri eru að reyna að selja.  Annars gengur spilið mikið út á reyna á heppnina í því að draga spil úr skipsflakabunka og vera með spjót til reiðu skyldi maður rekast á neðansjávarskrýmsli.  Í það heila er Key Largo ágætis fjölskylduspil, en ekki mikið meira en það.

keylargo4

Key Largo: Skipsflök á mismunandi dýpi

keylargo5

Key Largo: Kafarar með búnað og pappírspeningar

keylargo6

Key Largo: Fjársjóðsspil

 

keylargo7

Key Largo: Úrvalið af köfurum

keylargo8

Key Largo: Neðansjávarskrímsli

keylargo9

Key Largo: Blár í höfrungaskoðun en grænn á markaðnum

keylargo10

Key Largo: Allir komnir í höfn