Takenoko

cover

Takenoko

* er fyrir 2-4 leikmenn, 13 ára og eldri.
* tekur 45 mínútur.

Hugmyndin á bak við Takenoko er sú að kínverski keisarinn á að hafa gefið Japanskeisara pandabjörn sem friðartákn á milli landanna.  Japanskeisari fól svo hirðmönnum sínum (leikmönnum) að sinna pöndunni með því að rækta upp bambusgarð með hjálp keisaralega garðyrkjumannsins.

Leikmenn fá úthlutað þremur markmiðsspjöldum í upphafi leiks þar sem koma fram ákveðin skilyrði sem leikmenn þurfa að uppfylla til að fá tiltekin stig (sem einnig standa á spjöldunum).

Í hverri umferð hafa leikmenn kost á að gera tvær aðgerðir af fimm mögulegum.  Hægt er að velja um að stækka bambusgarðinn, leggja vatnsveitu, láta bambustré vaxa með hjálp garðyrkjumannsins, láta pönduna éta bambus eða draga fleiri markmiðsspjöld.  Það fer svo í raun eftir markmiðsspjöldunum hvaða aðgerðir leikmenn velja.  Einnig blandast inn í þetta teningur sem kastað er áður en leikmaður gerir sem eykur valkosti.

9

Mismunandi markmiðsspjöld

Spilinu lýkur þegar einhver leikmaður hefur lagt niður ákveðinn fjölda markmiðsspjalda (fer eftir fjölda leikmanna).  Sá sem hefur náð flestum stigum vinnur.

Takenoko er mjög fallega hannað spil og er þemað vel heppnað.  Reglurnar eru ekki flóknar og er auðvelt að koma fólki af stað í spilinu.  Hægt er að spila aggresíft með því að reyna að koma í veg fyrir að aðrir leikmenn nái sínum markmiðum (t.d. með því að láta pönduna vaða um og éta bambus í gríð og erg) eða spila bara með sín markmið í huga óháð því hvað aðrir eru að gera.

Takenoko er sagt fyrir 13 ára og eldri skv. útgefanda.  Vel er mögulegt að yngri börn geti spilað spilið, en samkvæmt upplýsingum á Boardgamegeek hafa notendur þar mælt með að spilið sé fyrir 8 ára og eldri.  Það er að mínu mati frekar ungur aldur fyrir spilið, markmiðsspjöldin geta verið snúin fyrir unga krakka og eins getur verið erfiðara fyrir þau að spila þannig að það sé verið að „skemma“ fyrir (með því að láta pönduna éta bambus sem aðrir eru að reyna að rækta).  Annars er þetta örugglega persónubundið.

Ég mæli s.s. með Takenoko.  Eins og áður sagði er spilið fallega hannað, frekar einfalt en býður þó upp á að spilað sé eftir ákveðinni strategíu.  Ég hef spilað það bæði tveggja manna og fjögurra manna og finnst það virka vel fyrir hvort sem er.

Þess má einnig geta að Takenoko var valið spil ársins 2012 í Frakklandi, sjá upplýsingar hér.

Comments are closed.