The Downfall of Pompeii

pompeii1* er fyrir 2-4 leikmenn, 10 ára og eldri
* tekur 45 mínútur

Um spilið

The Downfall of Pompeii var gefið út árið 2004 og er hannað af Klaus-Jürgen Wrede sem m.a. hannaði Carcassonne.  Spilið gerist á síðustu dögum Pompeii, þegar Vesuvius tók upp á því að gjósa árið 79 eftir Krist.  Spilið skiptist í tvo hluta.  Fyrri hlutann nota leikmenn til að koma sínum peðum haganlega fyrir í Pompeii.  Í seinni hlutanum, sem hefst eftir að eldfjallið hefur hafið gos, eiga leikmenn svo að reyna að koma sem flestum af sínum peðum út úr borginni og í skjól áður en það er um seinan.

pompeii4

Með þessu spili má setja peð í byggingu númer 4

Í upphafi spilsins fá leikmenn fjögur spil á hendi.  Þessi spil sýna einhverja af byggingunum í Pompeii.  Leikborðið samanstendur af fjölmörgum reitum sem sýna mislitar númeraðar byggingar sem svara til spilanna.  Einnig er við enda borðsins eldfjallið Vesuvius, en þangað eru þau peð sett sem ekki lifa af.  Fyrri hluti spilsins gengur síðan þannig fyrir sig að leikmenn fá að spila út einu spili í sinni umferð og staðsetja sitt peð í samsvarandi byggingu í borginni.    Á ákveðnum tímapunkti verður síðan svokölluð ættingaregla virk, en þá fá leikmenn að bæta við fleiri peðum í byggingar ef fyrir eru peð í byggingunni sem þeir eru að bæta peðum í (hljómar flókið?).  Eftir að leikmenn eru búnir að leggja niður spil og setja peð á leikborðið draga þeir nýtt spil þannig að þeir séu alltaf með fjögur spil á hendi.  Í bunkanum geta leynst fyrirboðaspil (Omen), en sá leikmaður sem dregur svoleiðis spil má taka peð andstæðings og henda því ofan í eldfjallið.

Þegar einhver leikmaður dregur svo eldfjallaspil hefst kapphlaupið um að koma sér út úr borginni.  Þá hætta leikmenn að nota spilin og dregnar eru 6 hraunflísar úr poka sem leikmenn staðsetja á leikborðinu.  Hver flís er auðkennd með einu af sex táknum, en samsvarandi reiti er að finna á leikborðinu.  Hraunflísunum er svo raðað eftir táknunum og öll peð sem verða undir flís enda í eldfjallinu.  Eftir það skiptast leikmenn á að koma sínum peðum út úr borginni.  Í hverri umferð byrjar leikmaður á að bæta hraunflís við borðið með tilheyrandi örlögum þeirra peða sem fyrir verða.  Síðan má hann færa tvö af sínum peðum jafn marga reiti og samsvarar fjölda peða á reitinum sem þau byrja för sína.  Þannig má færa peð sem byrjar á reit með fjórum peðum um fjóra reiti.  Næsta peð frá þessum reiti fær svo að fara þrjá reiti og svo koll af kolli.  Ef leikmaður nær að koma sínu peði út fyrir eitthvert af hinum sjö útgönguhliðum borgarinnar þá er það hólpið.  Sá leikmaður sem náð hefur að bjarga sem flestum peðum er svo sigurvegari í lokin. Ef tveir leikmenn eru jafnir þá eru talin peðin sem enduðu í eldfjallinu og sigrar sá leikmaður sem á fæst peð þar.

pompeii8

Hraunið farið að loka útgönguleiðum

Hvað finnst mér?

The Downfall of Pompeii er stutt og einfalt spil.  Það er bara tvennt sem hefur vafist aðeins fyrir mér og er það annars vegar uppsetningin á spilabunkanum í byrjun spilsins en bunkinn þarf að vera rétt upp byggður.  Svo er það hvernig staðsetja má peðin.  Sumar byggingarnar eru nefnilega tvískiptar og vafðist það aðeins fyrir mér í upphafi hvernig þessar tvískiptu byggingar virka sérstaklega í tengslum við ættingjaregluna.  En með því að skoða umræður á Boardgamegeek leystist það nú allt saman og nú kann maður spilið alveg upp á tíu.  Það getur svo verið snúið að raða sínu liði sem hentugast inn í borgina.  Í fyrri hlutanum, þar sem verið er að staðsetja peðin, er um að gera að reyna að koma sem allra flestum peðum inn á leikborðið og þá getur skipt sköpum að ná að vera í byggingum sem eru nálægt útgönguleiðum.  Svo er gott að vera með sín peð innan um aðra leikmenn því þá eru minni líkur á því að þeir skelli á þig hraunflís.  Það er að ýmsu að huga.

Niðurstaða

Það er ekki víst að allir kunni að meta The Downfall of Pompeii, þar sem spilið gengur út á að vera sem leiðinlegastur við aðra leikmenn.  Fólk verður bara að setja sig í ákveðinn gír, reyna að loka útgönguleiðum annarra og senda sem flest önnur peð á vit örlaga sinna.  Því er ekki víst að spilið henti hverjum sem er.  En fyrir okkur hin, sem sjáum ekkert að því að vera nastí svona endrum og sinnum, þá er The Downfall of Pompeii stórgott spil.

Því miður er ég ekki viss um hversu auðvelt er að verða sér út um spilið í dag, en ef þú rekst á eintak þá er ekkert um annað að ræða en að grípa það.  Bara muna að spila þetta ekki með hörundsáru fólki.

[scrollGallery id=54 autoScroll=false thumbsdown=true imagearea=“imgarea“]

Comments are closed.