Ticket to Ride Map Collection: Volume 1 – Team Asia & Legendary Asia

ttr_legendaryasia01Fyrir 2-6 leikmenn, 8 ára og eldri.
Tekur 45 mínútur.


Til þess að geta spilað þetta spil þarftu að eiga grunnspilið Ticket to Ride eða Ticket to Ride: Europe.

Um spilið

Ticket to Ride Map Collection: Volume 1 – Team Asia & Legendary Asia er partur af viðbótarséríunni Ticket to Ride Map Collection sem eru allt viðbótarkort við borðspilið Ticket to Ride.  Innihaldið í Team Asia & Legendary Asia er tvíhliða spilaborð, auka lestir og sex tréstokkar sem þarf að nota í liðakeppninni Team Asia og lestarmiðar sem sýna hvaða borgir í Asíu á að tengja saman.  Í kassanum eru því í raun tvær viðbætur, annars vegar Legendary Asia sem ætlað er 2-5 spilurum og hins vegar Team Asia sem ætlað er 4-6 leikmönnum sem keppa í tveggja manna liðum.

ttr_legendaryasia02

Legendary Asia kortið

Í grunninn er spilið alveg eins og Ticket to Ride, en ef þú þekkir það ekki þá endilega skoðaðu umfjöllun um það hér.  Reyndar eru nokkrar breytingar gerðar og viðbótaraðferðum við að tryggja sér leiðir bætt við. Í grunnspilinu verður maður bara að skila inn ákveðið mörgum lestarvagnaspilum til að tryggja sér leið, en í þessari viðbót er búið að bæta við ferjum, fjallvegum og jarðgöngum.  Ferjur og fjallvegir eru á Legendary Asia kortinu, en göngin eru á Team Asia kortinu. Þessar leiðir virka þannig:

  • Ferjur: Ef hluti af leiðinni inniheldur ferjusiglingu, en það er merkt með tákni marglita lestarvagnamiðans, þá verður leikmaður að skila inn jafnmörgum marglita lestarvagnaspilum og táknin á leiðinni segja til um. Þetta gerir það að verkum að maður verður að krækja sér í marglit spil ef maður ætlar að tryggja sér leið þar sem treyst er á ferjusamgöngur.
  • Fjallvegir: Hugmyndin á bak við fjallvegi er sú að meira slit er á lestarvögnum ef leggja þarf leiðir um fjallvegi.  Fjallvegirnir eru merktir sérstaklega á kortinu með krossi og verður leikmaður að henda jafn mörgum lestarvögnum og krossarnir eru. Þannig gengur hraðar á vagnaforðann og sá sem leggur mikið af leiðum í fjalllendi gæti hraðað endalokum spilsins, þar sem síðasta umferðin hefst þegar einhver leikmaður á aðeins eftir 0-2 lestarvagna. Vagnarnir sem þarf að henda eru þó ekki alveg verðlausir, því tvö stig fást aukalega fyrir hvern vagn sem fer í fjalllendið.
  • Jarðgöng: Jarðgöngin eru bara á Team Asia kortinu og sérmerkt með þykkum línum utan um leiðina og tölu frá 4 upp í 6. Ef leikmaður vill tryggja sér leið um göng verður hann að byrja á því að leggja niður jafn mörg lestarvagnaspil og til þarf samkvæmt grunnreglunum. Síðan þarf hann að snúa við jafn mörgum spilum úr lestarvagnaspilabunkanum og talan við göngin segir til um. Ef hann snýr við vagnaspili (eða spilum) í sama lit og hann er að nota til að leggja göngin verður hann að bæta við jafn mörgum spilum af hendi. Þannig geta leikmenn tekið sénsinn á því að þurfa ekki að borga neitt aukalega. Það er náttúrulega ekki gefið og hugsanlega draga menn það mörg spil að þeir verða að hætta við að grafa göngin … mikil óvissa ríkir sem sagt um endanlegan kostnað við gangnagerð, sem er kannski í takt við raunveruleikann.
Í Legendary Asia fær leikmaðurinn sem nær að tengja flestar borgir í órofinni lestarvagnaleið svo 10 stiga Asian Explorer bónus.
ttr_legendaryasia04

Jarðgöng | Fjallvegir | Ferjur

ttr_legendaryasia03

Team Asia kortið

Í liðakeppninni Team Asia breytist spilunin dálítið, en í henni verður hvert lið að nota tvo tréstanda þar sem leikmennirnir staðsetja sameiginlega lestarvagnaspil og lestarmiða. Tveir og tveir leikmenn eru paraðir saman og í  upphafi fá þeir hvor fimm lestarmiða, sem sýna leiðirnar sem þeir eiga að klára, og verða að halda alla vega þremur þeirra. Þegar þeir eru búnir að ákveða í sitt hvoru lagi hvaða miðum þeir ætla að halda, setja þeir einn af þeim miðum í sameiginlega standinn.  Þannig verða í upphafi tvær leiðir sem leikmennirnir vita sameiginlega af en hinar hafa leikmennirnir á hendi og mega alls ekki segja liðsfélaganum hvaða borgir þeir eru að reyna að tengja saman. Leikmenn í liði sitja hlið við hlið og gera báðir leikmenn liðs, þannig að hvert lið fær að framkvæma tvær aðgerðir í röð. Hver leikmaður fær til umráða 27 lestir sem þeir mega ekki deila.

ttr_legendaryasia13

Tréstokkarnir sameiginlegu

Þegar leikmaður dregur tvö lestarvagnaspil verður hann að halda einu á hendi en setja hitt í sameiginlega tréstokkinn. Leikmenn í sama liði geta svo notað bæði lestarvagnaspil af hendi og úr sameigninni þegar þeir eigna sér leiðir. Þá geta sprottið upp deilur innan sama liðsins þegar annar liðsmaðurinn notar spil úr sameigninni sem hinn hafði hugsað sér að nota. Ef leikmenn velja að draga lestarmiða til að byrja að tengja fleiri borgir þurfa þeir að setja einn þeirra í sameignina en halda afganginum á hendi. Leikmaður getur einnig ákveðið að eyða sinni umferð í að sýna hinum liðsmanninum allt að tvo lestarmiða sem hann hefur á hendi. Þeir eru þá settir í sameiginlega stokkinn og verða þar út spilið.

Í lok Team Asia fær lið sem nær að tengja flestar borgir í órofinni lestarvagnaleið svo 10 stiga Asian Explorer bónus, eins og í Legendary Asia. Að auki fær liðið sem klárar flesta lestarmiða 10 stiga bónus.

ttr_legendaryasia09

Vagnarnir sem skemmast á fjallvegunum enda hér

Hvað finnst mér?

Ticket to Ride er eitt allra lífseigasta spilið í mínu safni (ásamt Bohnanza).  Ég eignaðist upphaflega spilið um jólin 2006, þegar það kom út á Íslandi í fyrsta skiptið.  Það sem vakti athygli mína var rauða Spiel des Jahres peðið og mörkuðu þessi kaup upphafið af spilamaníunni sem hefur einkennt mig allar götur síðan. Ticket to Ride hefur reyndar legið í dvala í safninu í dágóðan tíma, en eftir að hafa eignast þetta viðbótarkort hefur verið blásið all hressilega í glæðurnar og gamli Ticket to Ride fiðringurinn hefur tekið sig upp aftur.

Legendary Asia kortið er mjög skemmtilegt og flott. Fjallvegirnir gera það að verkum að hraðar gengur á lestarvagnana og maður lendir í vanda með hvort maður eigi að fara stuttu leiðina og fórna vögnum á fjallvegunum eða hvort maður eigi að leggja lengri leið. Ferjurnar gera það að verkum að maður verður að nota marglitt lestarvagnaspil, en þau eru ekki á hverju strái.

Team Asia kortið og reglurnar fyrir liðaspilunina eru mjög vel heppnaðar. Það að leikmenn í sama liðinu megi ekki segja hvor öðrum hvaða borgir er verið að tengja saman skapar enn meiri spennu, sérstaklega undir lokin þar sem vögnum fer fækkandi og maður þarf svo nauðsynlega að fá aðstoð frá hinum liðsmanninum til að klára.

Niðurstaða

Mjög góð viðbót við annars frábært spil. Ef þig langar að blása nýju lífi í Ticket to Ride þá er þetta svo sannarlega rétta leiðin til þess. Svo er Team Asia eini möguleikinn á að spila Ticket to Ride sex manna sem er stór plús. Vel heppnuð viðbót í alla staði.

star_goldstar_goldstar_goldstar_goldstar_half
(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)

Comments are closed.