Ticket to Ride ★★★★★

cover

* er fyrir 2-5 leikmenn, 8 ára og eldri
* tekur 45 mínútur

Hægt er að spila Ticket to Ride á netinu á Days of Wonder.

Ticket to Ride hefur verið gefið út fyrir spjaldtölvur og snjallsíma, m.a. iPad.

Íslenskar spilareglur fyrir Ticket to Ride er hægt að fá hér.

Um spilið

Ticket to Ride var valið Spiel des Jahres árið 2004.  Spilið hefur einnig hlotið fjöldan allan af öðrum verðlaunum og viðurkenningum.  Hægt er að fá nokkrar útgáfur af spilinu, m.a.Ticket to Ride: Europe, Ticket to Ride: Märklin Edition, Ticket to Ride: Nordic Countries og Ticket to Ride: The Card Game.  Eins hafa komið út viðbæturnar: Ticket to Ride: Switzerland, Ticket to Ride Map Collection: Volume 1 – Team Asia & Legendary Asia og Ticket to Ride Map Collection: Volume 2 – India & Switzerland.  Einnig eru til einhverjar minni viðbætur.

Ticket to Ride hefur notið mikilla vinsælda í borðspilaheiminum.  Það er af mörgum talið eitt besta „gateway“ spilið, sem þýðir að það hentar mjög vel til að kynna fólk fyrir heimi borðspila.  Það er hæfilega létt til að auðvelt sé að kenna það og spila en býður engu að síður upp á spennandi spilamennsku sem heldur fólki við efnið frá upphafi til enda.

12

Lestarmiði frá San Francisco til Atlanta gefur 17 stig

Markmiðið í Ticket to Ride er að safna stigum með því að klára lestarmiða og leggja niður lestarvagna.  Lestarmiðana klára leikmenn með því að leggja járnbrautarlestir á milli borga í Bandaríkjunum (í grunnspilinu).  Stigin sem fást fyrir lestarmiðana eru mishá, allt eftir hversu langt er á milli borganna.  Leikmenn mega klára eins marga lestarmiða og þeir vilja og geta, en gefin eru mínusstig fyrir lestarmiða sem leikmaður nær ekki að klára fyrir lok leiks.

Til þess að ná að leggja niður járnbrautalestir þurfa leikmenn að safna að sér lestarvagnaspilum.  Þau eru mismunandi á lit og þarf leikmaður að safna nógu mörgum lestarvagnaspilum til að klára leið á milli tveggja borga áður en hann má leggja niður vagna og slá eign sinni á leiðina.  Þannig verður til kapphlaup á milli leikmanna þar sem einungis er ákveðinn fjöldi leiða í boði, en auðvitað vilja allir komast stystu leið.

7

Hvað finnst mér?

Ég er búinn að spila Ticket to Ride grunnspilið ansi oft og verð að segja að þetta er eitt af mínum uppáhalds spilum.  Það er eins og áður sagði einfalt í kennslu og fólk getur farið að taka fullan þátt í því á mjög skömmum tíma.  Það hentar einnig breiðum aldurshópi, ég veit til þess að þetta er spilað á frístundaheimili sonarins sem er að verða 9 ára.  Það eina sem mig hefur fundist vanta er að geta spilað það með 6 leikmönnum.  Núna er búið að leysa það með útgáfu Ticket to Ride Map Collection: Volume 1 – Team Asia & Legendary Asia þar sem þrjú tveggja manna lið keppa.

Niðurstaða

Ticket to Ride fær mín hæstu meðmæli og er ávísun á skemmtilega spilastund.  Aukalega mæli ég með því að kaupa viðbótina Ticket to Ride: USA 1910 þar sem lestarvagnaspilunum er skipt út fyrir stærri og vandaðri spil og lestarmiðunum fjölgað.  Það eykur fjölbreytnina þó nokkuð.

star_goldstar_goldstar_goldstar_goldstar_half
(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)