Tobago

tobago01Fyrir 2-4 leikmenn, 10 ára og eldri.
Tekur 60 mínútur.


Tobago var eitt af spilunum sem Spiel des Jahres dómnefndin mælti með í aðdraganda verðlaunanna fyrir árið 2010.

Spilið hefur verið tilnefnt til fjölda verðlauna og hlotið nokkur þeirra, m.a. Golden Geek Best Family Board Game árið 2010.

Enskar reglur fyrir Tobago eru að finna hér.

Um spilið

Í Tobago eru leikmenn fjársjóðsleitarmenn á eyjunni Tobago. Í upphafi er leikborðinu raðað saman, en það samanstendur af þremur jafnstórum hlutum, en með mismunandi uppröðunum er hægt að fá 32 mismunandi samsetningar af eyjunni (hver hluti er tvíhliða). Á Tobago eru sex mismunandi landsvæði: strönd, frumskógur, árfarvegur, kjarrlendi, vötn og fjalllendi. Pálmatrjám og kofum er raðað inn á eyjuna ásamt þremur steinstyttum, allt eftir ákveðnum reglum. Leikmennirnir koma svo hver sínum jeppa fyrir einhvers staðar á eyjunni, en jeppana nota leikmenn til að eltast við fjársjóði þegar þeir hafa verið fundnir sem og verndargripum sem birtast á ákveðnum stöðum þegar fjársjóði hefur verið skipt upp á milli leikmanna.

tobago02

Leikborðið í Tobago er samsett úr þremur mismunandi hlutum

Á Tobago eru alltaf fjórir fjársjóðir faldir og eru mislitir kubbar notaðir til að tákna hugsanlega fundarstaði (grár, brúnn, svartur og hvítur). Leikmenn sjá sjálfir um að ákveða hvar fjársjóð er að finna. Það gera þeir með því að spila út vísbendingaspjöldum og útbúa þannig fjársjóðskort. Hver leikmaður er ávallt með fjögur vísbendingaspjöld á hendi. Þau gefa ákveðna vísbendingu um hvar fjársjóð gæti verið að finna, eða er ekki að finna. Í sinni umferð má leikmaður bæta einni vísbendingu við fjársjóðskort eða aka á jeppanum sínum ákveðið langt. Nauðsynlegt er að taka sem virkastan þátt í að finna alla fjársjóði, því aðeins þeir leikmenn sem hafa lagt niður vísbendingarspjald við fjársjóðskort fá hlutdeild í fjársjóðnum þegar hann að lokum finnst.

tobago04

Vísbendingaspjöld. Efsta röðin segir: ekki í fjalllendi, í fjalllendi og við hliðina á fjalllendi.

Útilokunaraðferðinni er þannig beitt með lagningu vísbendingaspjalda þangað til aðeins einn staður er mögulega eftir fyrir fjársjóð. Þá geta leikmenn ekið jeppunum sínum til að reyna að ná til þeirra fyrstir. Sá sem nær fyrstur að fjársjóði fær svo að möguleikann á að fá meira af því sem finnst, en eins og áður sagði fá allir þeir sem lögðu niður vísbendingu hluta í fjársjóðnum. Hvert vísbendingarspjald er nefnilega merkt með skífu í lit þess leikmanns sem lagði spjaldið niður.

tobago05

Fjársjóðsspjöld ásamt hauskúpunni sem enginn vill

Allir leikmenn sem áttu vísbendingaspjald fá að draga fjársjóðsspjald og skoða. Fjársjóðsspjöldin sýna frá tveimur upp í sex gullpeninga. Tvö spjöld sýna einnig hauskúpur, en komi þau upp við útdeilingu fjársjóðsins tapa allir þeir leikmenn sem eiga eftir að fá hluta af honum sínu verðmætasta fjársjóðsspjaldi, nema þeir eigi verndargrip. Leikmaðurinn sem fann fjársjóðinn fær síðan öll spjöldin og stokkar án þess að líta á þau. Síðan snýr hann við einu í einu og spyr leikmenn í röð eftir því hvernig skífurnar á vísbendingaspjöldunum liggja hvort þeir vilji viðkomandi fjársjóðsspjald eður ei. Þannig getur leikmaður sem veit að sex gullpeningar liggja í bunkanum ákveðið að afþakka minna verðmætt spjald til að bíða og sjá hvort hann komist yfir það. Ákveðin áhætta er samt fólgin í því að bíða, þar sem hauskúpuspjald gæti leynst innan um.

tobago10

Verndargripirnir birtast á þeim reit við ströndina sem steinstytturnar horfa í áttina að

Eftir að fjársjóður hefur fundist birtast verndargripir við sjóinn á reitnum sem steinstytturnar horfa í átt að. Hálsmenin geta leikmenn náð í og notað til að m.a. verjast hauskúpuspjöldum, fengið sér auka aðgerðir og útilokað mögulega fjársjóðsstaði. Steinstyttunum er síðan snúið réttsælis þannig að þær senda verndargripi á annan stað þegar næsti fjársjóður finnst. Svona gengur spilið þangað til öll fjársjóðsspilin hafa verið kláruð, en þá telja leikmenn saman hversu marga gullpeninga þeir hafa náð að tryggja sér og sá sem hefur þá flesta sigrar.

Hvað finnst mér?

Fyrst af öllu verð ég að nefna hönnunina á spilinu og það sem með því fylgir. Spilið er gullfallegt á að líta og gerir það mikið fyrir upplifunina. Mér finnst skemmtilegt hvernig leikmennirnir sjálfir ákveða hvar fjársjóð verður að finna með því að leggja niður vísbendingar. Sumum sem ég hef spilað við hefur samt fundist svolítið flókið að raða vísbendingarspjöldunum og búa til fjársjóðskortin, en maður fer þó fljótlega að sjá hvar maður getur lagt þau niður. Það má nefnilega ekki setja niður vísbendingarspjald sem annað hvort er í mótsögn við það sem áður hefur verið  lagt niður eða fækkar ekki mögulegum fjársjóðsfundarstöðum

tobago03

Tobago uppsett og tilbúið

Einnig hafa einhverjir haft á orði að spilið sé svolítið hægt, þ.e. framþróunin er svolítið róleg vegna þess að maður sér ekki strax hvort maður sé að gera eitthvað rétt eða ekki. Maður tekur bara þátt í að byggja upp fjársjóðsleitarkort. Það má vel vera að þetta sé réttmæt gagnrýni, en ég hef mjög gaman af því að púsla saman vísbendingunum og reyna að stýra því að fjársjóðir séu innan seilingar fyrir jeppann minn.

Niðurstaða

Mjög fallegt, flott og skemmtilegt fjársjóðsleitarspil.  Einhverra hluta vegna hefur ekki farið neitt sérstaklega mikið fyrir Tobago, sem er synd þar sem spilið er virkilega gott.

Invalid Displayed Gallery

Comments are closed.