Turna skuluð þér byggja mér til heiðurs!

torres01Eitt gamalt og gott spil sem er búið að vera einna lengst í safninu mínu, allt frá því borðspilamanían byrjaði fyrir alvöru 2006-2007, er spilið Torres (Turnar).

Torres kom út árið 1999 og hlaut Spiel des Jahres verðlaunin árið á eftir. Í Torres eru leikmenn synir konungs sem vill láta byggja nýja kastala þar sem eldri kastali eyðilagðist í nýyfirstöðnu stríði. Synirnir hafa hver yfir að ráða sex riddurum sem hjálpa til við byggingarnar. Einu skilyrðin sem konungurinn setti voru þau að synirnir yrðu að byggja án átaka, en mættu keppa um hver þeirra réði yfir hæsta turni hvers kastala. Sonurinn sem stendur sig best verður svo arftaki konungsins.

torres02

Aðalatriðið í Torres eru plastturnar sem tákna kastalana og riddararnir sem ferðast um leikborðið og upp í turna til að tryggja leikmönnum stig. Kastalarnir eru byggðir upp eftir ákveðnum föstum reglum, þannig að hver kastali má ekki vera hærri en sem nemur heildar grunnflatarmáli kastalans. Þannig má kastali sem spannar fjóra grunnfleti ekki verða hærri en fjórar hæðir. Til að geta hækkað hann þarf þá fyrst að auka grunnflötinn.

Í upphafi eru átta kastalagrunnar á borðinu sem hver samanstendur af einum turni. Leikmenn geta valið að byggja við þá og stækka eins og þeim lystir. Reglan er hins vegar sú að tveir eða fleiri kastalar mega ekki sameinast, mesta leyfilega snerting er horn í horn.

torres04

Hver leikmaður hefur yfir að ráða sex riddurum sem eru notaðir til að tryggja stig fyrir kastala, en leikmaður fær stig fyrir efsta riddarann í hverjum kastala og því ofar sem hann stendur, því fleiri stig fást fyrir hann. Leikmenn geta svo komið sínum riddurum í kastala og turna sem aðrir leikmenn hafa byggt og þannig grætt á þeirra vinnu. Inn í þetta blandast svo aðgerðaspil sem leikmenn geta dregið á hendi og spilað út, en þau leyfa alls kyns beygingar og brot á annars frekar stífum reglum um það hvernig riddarar mega færast um leikborðið og kastalana.

torres05

Ég spilaði Torres við tvo spilafélaga mína einhvern tímann síðasta haust og er þetta eitt af þeim spilum sem ég mun líklegast aldrei losa mig við. Spilið er mjög skemmtilegt og getur reynt á útsjónasemina við að nýta sér kastalasmíð hinna leikmannanna alveg á réttri stundu til að græða vel á þeirra byggingum. Svo er eitthvað mjög svo heillandi að sjá kastalana stækka og turnana teygja sig upp til himins.

Það eina sem mætti kannski benda á að henti ekki öllum eru útreikningarnir sem maður þarf sífellt að vera að fara yfir, þ.e. sjá hversu mörg stig fæ ég fyrir að gera þetta í staðinn fyrir þetta o.s.frv. Það má vel vera að það sé fráhrindandi fyrir einhverja. Annars mæli ég með Torres, ef hægt er að komast einhvers staðar yfir eintak þar sem um 10 ár eru síðan spilið var síðast gefið út.

torres07

Comments are closed.