Tveggja manna spil

tveggjamannalogoHér að neðan er að finna lista yfir nokkur tveggja manna spil, en eins og gerist og gengur eru sum betri en önnur. Spilin á þessum lista eru eingöngu útgefin fyrir tvo leikmenn, en að sjálfsögðu er til mikill fjöldi annarra spila sem eru gefin út fyrir tvo eða fleiri leikmenn og virka mjög vel sem tveggja manna spil.

targi01Targi

Targi er spil sem var gefið út árið 2012 og var m.a. tilnefnt til Kennerspiel des Jahres það árið. Spilið er fyrir 10 ára og eldri og tekur um 60 mínútur í spilun.

Í Targi eru leikmenn leiðtogar sitt hvors ættbálksins í eyðimörkinni og útvega sér vörur eins og salt, döðlur og pipar og selja fyrir gull. Einnig vinna þeir að því að stækka fjölskylduna sína útvega sér stig.

Leikborðið í Targi samanstendur af 16 spjöldum sem raðast í ramma utan um 9 reiti þar sem mismunandi vöru og ættbálkaspjöldum er raðað inn. Leikmenn skiptast á að staðsetja sína menn (Targi) á spjöldin sem mynda rammann eftir ákveðnum reglum og virkja reiti innan rammans allt eftir því hvar mennirnir eru staðsettir.

Targi er með betri tveggja manna spilum sem ég hef spilað.

jaipur_coverJaipur

Jaipur er vöru- og viðskiptaspil sem snýst um að safna og selja ýmsan varning á markaði í Jaipur á Indlandi. Markmiðið er að ná að safna að sér vörum og selja á sem hæstu verði.

Spilið gengur í þrjár umferðir og vinnur sá sem hefur betur í tveimur þeirra. Jaipur er sagt fyrir 12 ára og eldri samkvæmt útgefanda, en ég hef spilað það við 8 ára gaur án vandræða.

Jaipur er ljómandi gott spil, en umfjöllun um spilið má finna hér.

 

morels01Morels

Morels er lítt þekkt tveggja manna spil fyrir 10 ára og eldri sem gengur út á að safna sveppum og steikja þá svo. Spilið samanstendur af 84 spilum sem sýna m.a. mismunandi sveppi, pönnur, smjörklípur og edik.

Báðir leikmenn hefja leikinn með eina pönnu fyrir framan sig og þrjú spil á hendi. Síðan er skógarstígurinn lagður, en hann samanstendur af átta spilum úr bunkanum. Í sinni umferð hefur leikmaðurinn val um að taka annað hvort spilanna sem eru næst á stígnum, fara lengra inn í skóginn með því að nota til þess göngustafi eða leggja niður sveppi af hendi og steikja.  Morles tekur um 30 mínútur í spilun.

pagoda01Pagoda

Í Pagoda keppa tveir leikmenn í því að byggja japanskar turnbyggingar (Pagodas) á sex byggingarlóðum.

Leikmenn nota spil sem þeir hafa á hendi og í borði til að byggja úr mislitum byggingarsúlum. Þegar fjórar undirstöðusúlur hafa verið byggðar má leggja gólf í sama lit og súlurnar sem liggja undir. Næsta hæð er svo byggð með súlum í þeim lit sem er tiltekin á gólfflísinni.

Leikmenn safna stigum eftir því sem þeir byggja og sá leikmaður vinnur sem hefur flest stigin þegar þrjár byggingar hafa verið fullgerðar.

Pagoda er flott hannað spil, lítur fallega út og spilunin er skemmtileg.

agricola_acbas_coverAgricola: All Creatures Big and Small

Í Agricola: All Creatures Big and Small eru leikmenn í hlutverki bændahjúa í Evrópu á miðöldum þar sem markmiðið er að byggja upp sitt bú. Agricola þýðir einmitt bóndi á latínu.

Þetta spil er styttri tveggja manna útgáfa af grunnspilinu Agricola, en það spil kom fyrst út árið 2007 og hefur hlotið mikinn fjölda viðurkenninga og verðlauna.

Agricola: All Creatures Big and Small er skemmtileg minni útgáfa af Agricola.

Nánari upplýsingar um spilið eru að finna hér.

lostcities01Lost Cities

Lost Cities er kortaspil úr tveggja manna spilaseríu Kosmos. Þetta er eitt af þekktari tveggja manna spilunum sem ég hef heyrt af og er það hannað af Reiner Knizia, sem hefur hannað gríðarlegan fjölda borðspila í gegnum tíðina.

Spilið inniheldur spilastokk með spilum í fimm litum og innan hvers litar eru spil frá 2 upp í 10. Á milli leikmannanna er borð sem leikmenn skiptast á að spila út spilum á. Galdurinn er svo að vera ekki of snemma í að spila út spili, þ.e. að fara ekki strax í að spila háu spilunum því þá brennur maður inni.

Lost Cities er áhugavert spil og er það eitt af vinsælli „para-spilunum“ á markaðnum.

mrjackpocket01Mr. Jack Pocket

Mr. Jack Pocket er vasaútgáfan af borðspilinu Mr. Jack. Spilið gengur út á að finna út hver Kobbi kviðrista var. Leikborðið er samsett úr 9 flísum sem sýna göturnar í Whitechapel og 9 mögulega sökudólga. í Kringum hverfið eru staðsettar skífur sem sýna Sherlock Holmes, Dr. Watson og hundinn þeirra.

Í hverri umferð reynir leikmaðurinn sem stýrir einkaspæjarateyminu að komast nær því hver Kobbi raunverulega sé, á meðan Kobbi reynir að sjálfsögðu að láta ekki sjá sig. Einn af þessum níu er nefnilega Kobbi og er það einkaspæjararanna að komast að sannleikanum áður en tíminn rennur út, en spilað er í ákveðið margar umferðir.

Mr. Jack Pocket er fyrirferðalítið og sniðugt spil.

roma01Roma

Roma er tveggja manna spil fyrir 8 ára og eldri sem tekur um 45 mínútur í spilun. Leikmenn nota aðgerðaspil og teninga til að reyna að ná fleiri stigum en andstæðingurinn.

Á milli leikmannanna er raðað upp sex skífum sem sýna teninga með tölugildið frá 1 upp í 6. Leikmenn fá síðan ákveðið mörg spil á hendi til að byrja með sem eru lögð niður í borð eftir ákveðnum reglum. Spilin veita leikmanni einhverja ákveðna eiginleika, en hægt er að „ráðast á“ spil andstæðingsins og þröngva hann til að losa sig við, ef svo ber undir.

Framhaldsútgáfa af spilinu heitir Arena: Roma II sem mun vera hægt að sameina þessari útgáfu.

starwars01Star Wars: X-Wing Miniatures Game

Star Wars: X-Wing Miniatures Game inniheldur lítil módelgeimskip sem leikmenn stýra í geimorrustu. Í grunnpakkanum eru þrjár flaugar; ein X-Wing og tvær TIE Fighters flaugar. Annar leikmaðurinn stýrir X-Wing vélinni á meðan hinn stýrir tveimur TIE Fighters. Vélunum er stillt upp andspænis hvor annarri og nota leikmenn skífur til að ákveða hvernig viðkomandi vél eigi að fljúga þá umferðina. Síðan kemur í ljós hvort þær séu innan færis, en þær skjóta á hvor aðra sé svo.

Svona er haldið áfram þangað til annar leikmaðurinn sigrar hinn. Einnig eru í grunnpakkanum þrír leiðangrar þar sem leikmenn þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði til að sigra. Hægt er að kaupa fjöldann allan af viðbótarflaugum þannig að fleiri geti tekið þátt í spilinu, eða ef maður vill bara stjórna stærri flugflota.

pinata01Piñata

Piñata gengur út á að safna sælgæti sem slegin eru úr piñjötum. Í  upphafi spilsins er fjórum piñata plöttum raðað upp. Þeir eru númeraðir frá 1 upp í 4 og segir talan til um hversu mikið af sælgæti er í viðkomandi piñjötu. Sælgætið er í formi lítilla trésælgætisbréfa sem eru mislit og dregin af handahófi úr poka til að dreifa á plattana. Til að slá í piñjötuna nota leikmenn mismunandi lituð spil sem sýna krakka með kylfur og ákveðið númer. Hver platti er svo gerður upp eftir að búið er að leggja niður ákveðið mörg spil sitt hvoru megin við hann. Sá sem vinnur viðureignina, þ.e. “slær” af meiri kænsku í piñjötuna fær sælgætið sem í henni var. Sælgætinu er svo skipt út fyrir medalíur þegar leikmaður hefur safnað ákveðið mörgum sælgætisbréfum.

Piñata er skemmtilegt lítið spil.

coinage01Coin Age

Coin Age er smáspil í orðsins fyllstu merkingu. Upphafleg hugmynd spilsins, sem var fjármögnuð í gegnum Kickstarter, var að nota lítið spjald á stærð við kreditkort og nokkra smápeninga. Markmiðið með spilinu er að reyna að ná meirihlutayfirráðum yfir landsvæðum á litlu korti með peningunum. Leikmenn skiptast á að hrista peninga í hendi og skella þeim svo niður á borðið. Það fer svo eftir því hvor hliðin kemur upp hvaða aðgerðir leikmaður hefur úr að velja.

Coin Age er mjög einfalt og einstaklega fyrirferðalítið og hentar því mjög vel sem tveggja manna ferðalagaspil. Spilið er hægt að kaupa í Boardgamegeek búðinni.

longhorn01Longhorn

Í Longhorn eru leikmenn í hlutverki alræmdra útlaga í Villta Vestrinu, þeirra Eagle Perkins og Jessie Artist Byrd. Markmið þeirra er einfalt, að stela nautgripum og gulli og reyna að græða meira en hinn leikmaðurinn.

Leikborðið er samansett úr níu plöttum sem er raðað saman í kassa og tákna níu mismunandi staðsetningar. Nautgripum í mismunandi litum er raðar á staðina sem og bónusskífum. Leikmenn skiptast á að stela nautgripum og færa útlagana á milli reita þangað til spilið endar, en það getur m.a. gerst ef lögreglustjórinn nær í hnakkadrambið á öðrum hvorum útlaganum.

okiya01Okiya

Okiya, eða Niya eins og það er einnig þekkt sem, gengur út á að koma sínum skífum haganlega fyrir í garði keisarans og ná þannig athygli hans.

Leikborðið er samsett úr 16 flísum sem er raðað upp í fjórar raðir og fjóra dálka. Hver flís sýnir tvö af átta táknum sem einkenna flísarnar.  Leikmenn skiptast á að fjarlægja flísar og leggja niður sínar skífur. Eina reglan er sú að flísin sem er tekin upp verður að sýna annað af táknunum sem var á síðustu flís sem var tekin upp. Sá sem nær heilli línu af fjórum skífum í röð, fjórum skífum í kassa eða leikur þannig að andstæðingurinn getur ekki fjarlægt flís, vinnur leikinn.

Okiya er skemmtileg útgáfa af myllu, einfalt og fljótlegt.

3 thoughts on “Tveggja manna spil

 1. Sæll

  Ég veit að Carcassonne er ekki alveg þinn tebolli, en mér finnst það sárvanta á þennan lista. :)

  Annars góður listi bara.

 2. Sæll Stefán.

  Ég er sammála því, Carcassonne er mjög gott spil bæði tveggja manna (og einnig fyrir 3-4). Listinn var samt bara hugsaður fyrir spil sem eru eingöngu útgefin fyrir hvorki fleiri né færri en tvo leikmenn, annars hefði hann verið umtalsvert lengri :)

 3. já, hefði átt að athuga listann aðeins betur.

  Mér fannst endilega að þú værir contra carcassonne, en það er víst vitleysa.

Skildu eftir svar