Um síðuna

Um borðspil.is

Um mig

catan_coverÉg hef um alllangt skeið haft mikinn áhuga á borðspilum.  Fyrsta „alvöru“ borðspilið sem ég eignaðist var Catan sem var spilað alveg í hengla.  Þar á eftir kom Carcassonne og langaði mig alltaf að spila fleiri borðspil af þessum toga, en á þessum tíma voru einu spilin sem í boði voru hér klassísku spurningaspilin eða spil byggð á Matador/Monopoly. Áhuginn kviknaði svo fyrst fyrir alvöru þegar fjölskyldan bjó úti í Edinborg á árunum 2006-2007.  Í heimsókn um jólin 2006 keypti ég Ticket to Ride sem var til sölu í Bónus og fór eftir það að skoða betur Spiel des Jahres verðlaunin sem Catan, Carcassonne og Ticket to Ride höfðu hlotið.  Við leit á netinu fann ég Boardgamegeek.com þar sem hægt er að fá allar upplýsingar um borðspil sem hugurinn girnist.

Í kjölfarið á því fór ég fyrir alvöru að safna að mér borðspilum, byrjaði að kaupa mörg þerra sem hafa fengið Spiel des Jahres verðlaunin. Þar á meðal eru spil eins og Tikal, Torres, Elfenland, Thurn and Taxis og Alhambra. Síðan þá hefur áhuginn bara aukist og ekkert útlit fyrir að hann minnki eitthvað á næstunni.  Ég hef verið mjög duglegur við að kynna spil fyrir vinafólki okkar hjónanna og ættingjum og nú förum við nánast ekki í heimsókn án þess að taka með okkur spil.

Spilasafnið telur nú um 222 spil (janúar 2014) og fer vaxandi …

Eldri sonurinn ofan á hluta af safninu :-)

Tilgangurinn með borðspil.is

Tilgangurinn með þessari síðu er að breiða enn frekar út borðspilaboðskapinn og er markmiðið að skrifa umsagnir og kynningar um þau spil sem mér finnast skemmtileg í von um að fólk finni hér eitthvað sem það hefði hugsanlega áhuga á. Fyrr á árum takmarkaðist borðspilaúrvalið á Íslandi við spil eins og Trivial Pursuit, Matador og Pictionary. Í dag er hægt að fá hér á landi mikið af góðum erlendum borðspilum og því um að gera að skoða hvað er í boði. Á hverju ári kemur út fjöldinn allur af spennandi borðspilum og því hægt að eyða dágóðum tíma í að velja sér rétt spil.

Hvað er svona sérstakt við borðspil?

Fyrir mér snýst borðspilaupplifunin að miklu leyti um að eyða tíma í góðum félagsskap. Ég er alls ekki þessi keppnistýpa sem spilar bara til að vinna. Spilunin sjálf skiptir mig meira máli. Þetta er eins og með góða máltíð, markmiðið er ekki að verða saddur heldur að njóta bragðsins og samsetningarinnar á matnum. Það sama gildir um að spila gott borðspil. Að sjá hvernig mismunandi mekanismar virka saman og heildarspilunin smellur saman. Svo getur maður lent í því að kaupa og spila lélegt og illa hannað borðspil og þá er það eins og að borða vondan mat.

spilasafn02

Nútíma borðspil

Borðspil hafa í fylgt manninum um langt skeið, alla vega alveg frá 3.500 fyrir Krist að því er Wikipedia segir. Elsta spilið sem fundist hefur er spil sem heitir Senet og var spilað í Egyptalandi til forna.  Upphaf borðspila eins og við þekkjum þau í dag má rekja til Þýskalands. Þjóðverjar hafa verið einna duglegastir við að hana borðspil og árið 1978 voru borðspilaverðlaunin Spiel des Jahres stofnuð og áttu þau stóran þátt í því að dreifa orðspori þýskra borðspila víða. Þýsk borðspil eru oft nefnd Eurogames og eiga það sameiginlegt að innihalda frekar einfaldar reglur, taka ekki mjög langan tíma í spilun og byggja á óbeinum eða beinum samskiptum milli leikmanna. Einnig er áherslan á strategíu, lítil áhrif heppni og átaka, snúast oft um efnahag og leyfa öllum leikmönnum að taka þátt allt til enda. Til samanburðar eru amerísku spilin, oft nefnd Ameritrash, meira byggð á heppni, átökum milli leikmanna og dramatík.

Fyrsta þýska borðspilið sem vakti almenna athygli í Bandaríkjunum og utan Evrópu var Catan, en það kom út árið 1995 og hlaut Spiel des Jahres verðlaunin það sama ár. Hönnuður Catan, Kaus Teuber, var mikill áhugamaður um víkinga og hugmyndin að spilinu kviknaði þegar hann las um landafundinn þegar víkingarnir fundu Ísland. Honum fannst áhugavert að skoða hvernig landnemum reiddi af á nýjum stað og þar kviknaði hugmyndin að spilinu.

Í dag hefur borðspilahönnun og útgáfa dreifst um víða veröld og mjög góð spil eru farin að berast frá hinum ýmsu löndum, m.a. Tékklandi, Póllandi, Ástralíu, Finnlandi og Japan svo einhver séu nefnd. Án efa styttist í að við sjáum spil hannað af Íslendingum á alþjóðlegum markaði.

Hvar get ég lesið meira um borðspil?

Fjölmargar síður á netinu eru tileinkaðar borðspilum. Helst er þar að nefna Boardgamegeek, en þar eru að finna upplýsingar um nánast öll spil sem út hafa komið. Einnig eru að finna þar umfjallanir bæði í skrifuðu formi og á myndbandi fyrir hin ýmsu spil, sem og leiðbeiningar um hvernig eigi að spila þau. Heimasíða sem heitir Boardgamelinks er samansafn af krækjum á áhugaverðar síður tengdar borðspilum.

Svo eru aðallega tvö tímarit sem gefin eru út á prenti á ensku sem mér þykja áhugaverð. Það eru annars vegar Spielbox, sem er þýskt tímarit og kemur út sjö sinnum á ári. Counter er bandarískt tímarit, ekki eins flott útgáfa og Spielbox en engu að síður stútfullt af upplýsingum og umfjöllunum um borðspil. Counter kemur út fjórum sinnum á ári.

Hægt er að skoða prófílinn minn á Boardgamegeek hérna og ef einhverjar spurningar vakna þá endilega hafðu bara samband á bordspil@bordspil.is

spilasafn01