Völuspá

voluspa01Fyrir 2-5 leikmenn, 10 ára og eldri.
Tekur 45 mínútur.


Völuspá er endurhönnun og endurútgáfa á spilinu Kachina sem kom út árið 2009. Enskar reglur fyrir Völuspá má finna hér.

Verslunin Spilavinir, Suðurlandsbraut 48, lánaði mér eintak til að prófa og kann ég þeim mínar bestu þakkir fyrir það.

Um spilið

Völuspá er flísalagningarspil (tile laying) þar sem leikmenn reyna að safna sem flestum stigum með því að leggja niður sérstakar flísar í raðir og dálka. Í grunnspilinu eru 60 flísar sem sýna átta mismunandi goð og verur úr Norrænni goðafræði, en Völuspá er einmitt elsta kvæðið úr þeirri fræði. Goðin eða verurnar hafa ákveðið númeragildi og sumir hafa ákveðna eiginleika. Hver leikmaður fær á hendi fimm flísar og í byrjun leiks er ein flís lögð niður sem upphafið að grindinni sem leikmenn skiptast svo á að bæta við. Leikmaður má bæta við röð eða dálk svo lengi sem heildarfjöldi flísa í röðinni eða dálkinum fari ekki yfir sjö. Leikmaður fær svo stig ef flísin sem hann bætti við hefur hæsta tölugildið í röðinni eða dálkinum. Stigin sem fást er samtalan á fjölda flísa í röðinni og/eða dálkinum. Eiginleikar flísanna geta svo skipt sköpum, en lýsing á þessum eiginleikum fer hér á eftir. Hver flís er merkt með tölugildi og táknum sem sýna hverjir eiginleikarnir eru.

voluspa02_smallÓðinn

Óðinn er hæstur í spilinu með tölugildið 8, enda er hann æðstur guðanna. Hann hefur hins vegar enga aðra eiginleika, en ætti undir eðlilegum kringumstæðum að vera ráðandi í línu eða dálki. Hins vegar getur það breyst ef tveir eða fleiri Fenrisúlfar eru í röðinni eða ef Loki liggur upp að Óðni (sjá hér að neðan).

voluspa03_smallÞór

Þrumuguðinn Þór er næstur fyrir neðan Óðinn og hefur tölugildið 7.  Hann hefur enga sérstaka eiginleika, fyrir utan að vera þrumuguð!

 

voluspa09_smallTröll

Tröllin eru fúllynd og vilja bara samneyti við önnur tröll. Ef tröll er lagt niður má ekki setja aðrar flísar en tröll við hlið þess. Þannig er hægt að „skemma“ raðir svo aðrir leikmenn eigi erfiðara með að fá stig fyrir þær, en þá lokar maður náttúrulega fyrir sjálfan sig í leiðinni.

voluspa08_smallDreki

Drekinn hefur tölugildið 5 og má nota eins og hverja aðra flís. Dreka má einnig leggja ofan á aðrar flísar (nema aðra dreka), en þá núllast út eiginleiki (og númer) flísarinnar sem er undir.

 

voluspa06_smallFenrisúlfur

Tölugildi Fenrisúlfsins tekur mið af því hvort aðrar Fenrisúlfsflísar séu þegar í röðinni. Fyrir hvern úlf sem er fyrir, bætist 4 við flísina sem lögð er niður. Þannig verður tölugildi Fenris sem lagður er niður 12 ef tveir aðrir úlfar eru í röðinni.

voluspa05_smallSkaði

Skaði hefur tölugildið 3. Hægt er að skipta út flís með því að leggja Skaða niður í staðinn fyrir flísina sem var tekin. Með Skaða getur leikmaður þá náð t.d. Óðni úr röð og upp á hendi.

voluspa04_smallValkyrja

Valkyrjurnar eru frekar máttlausar, með tölugildið 2. Ef Valkyrja er hins vegar lögð niður í enda raðar og önnur Valkyrja er á hinum enda raðarinnar fást full stig fyrir röðina, þrátt fyrir að Valkyrjan sé ekki hæst í þeirri röð.

voluspa07_smallLoki

Loki er lævís og tölugildi allra flísa sem hann snertir er lækkað í 0. Sjálfur hefur Loki tölugildið 1, þó hann liggi upp að öðrum Loka.

 

 

Stigin sem leikmenn fá eru skráð á stigatöfluna og er spilað þar til allar flísarnar hafa klárast. Þá sigrar sá sem flest hefur stigin.

Völuspá inniheldur einnig viðbótina Eddukvæði (Saga of Edda) en í henni bætast við fjórar flísar; Jötunn, Höggormur, Hermóður og Hel. Þeim sem vilja kynna sér hvaða eiginleika þessar flísar hafa bendi ég á reglurnar sem hægt er að lesa hér.

voluspa10

Jötunn – Höggormur – Hermóður – Hel

Hvað finnst mér?

Völuspá minnir að vissu leiti á Qwirkle sem gengur einnig út á að leggja niður flísar og skora svo stig eftir fjölda flísa í röð eða dálki. Völuspá er að vísu nokkuð flóknara þar sem eiginleikarnir sem flísarnar hafa blandast inn í þetta og geta flækt myndina töluvert. Þrátt fyrir það er grunnhugmyndin frekar einföld og þeir sem ég kenndi spilið voru snöggir að ná því. Í upphafi gengur spilið hratt fyrir sig þar sem augljóst er hvað og hvar maður á að leggja niður til að fá sem flest stigin. Það breytist hins vegar fljótt þegar flísunum fjölgar og maður þarf að fara að skoða raðir og dálka víðsvegar til að reyna að finna besta leikinn. Loki getur svo flækt myndina þegar hann er farinn að lækka gildi aðliggjandi flísa niður i 0.

Ég prófaði að spila tveggja, þriggja og fjögurra manna Völuspá en náði ekki að spila með fimm leikmönnum. Ég átti von á að fjögurra manna spilið myndi dragast full mikið á langinn en svo var ekki. Mér fannst einhvern veginn að tveggja manna tækið spilið lengstan tíma þar sem hvor leikmaður fær að leggja niður allt að 30 flísar. Í fjögurra manna spilinu fær maður bara að leggja niður um 15 flísar og það gekk frekar hratt á flísastaflann, alla vega í okkar tilfelli. Hins vegar sé ég alveg fyrir mér að spilið geti dregist verulega á langinn ef maður er að spila með fólki sem þarf að greina hverja einustu mögulegu staðsetningu og reikna út hvar flest er hægt að fá stigin.

voluspa11

Fyrstu goðin og verurnar komnar í borð

Völuspá er mjög vel hannað og myndskreytingarnar eru litríkar og flottar. Stigataflan er að mínu mati það slakasta í hönnuninni. Skífurnar eru full stórar og stundum þurfti maður að athuga tvisvar hvort maður væri að færa skífu í rétta átt, töluraðirnar liggja svo þétt saman. Annars er þetta nú bara í raun smáatriði þegar maður skoðar heildarmyndina, sem er býsna flott.

Niðurstaða

Völuspá er prýðisgott spil. Það býður upp á töluverðar pælingar og það sem kallað er „replay value“ myndi ég segja að væri frekar hátt, þ.e. breytileikinn í hvert skipti er það mikill að ég á ekki von á að maður fái fljótt leið á spilinu þrátt fyrir ítrekaðar spilanir. Svo er hægt að henda inn Eddukvæðaviðbótinni vilji maður auka enn frekar á fjölbreytileikann. Völuspá er kannski ekki besta og frumlegasta spilið sem ég hef spilað lengi, en þarna er engu að síður á ferðinni gott spil sem flestir ættu að geta haft gaman af.

[scrollGallery id=80 autoScroll=false thumbsdown=true imagearea=“imgarea“]

Comments are closed.