Ef þyngdin fengi að ráða ...

Skrifað af Hilmar Kári þann

Mán 20. feb 2023 til Sun 26. feb 2023

Mynd
Sabika - Gameplay
Hringekjan spilar stóra rullu í Sabika

Sabika

4
1

Ég tók með með Sabika á spilakvöldið í Nexus með þeirri von um að það kæmist á borðið. Sem betur fer kom Fríða líka, en við börðumst saman í gegnum reglurnar á Spilavininni. Það var öllu léttara að kenna spilið núna, þrátt fyrir fullt af litlum smáreglum er spilið í sjálfu sér ekki mjög flókið. Við náum því á 2,5 klst með kennslu og ég held að það sé nokkuð gott.

Sabika er eftir Germán P. Millián, þann sama og gerði Bitoku. Það byggir á verkamannagangverki með hringekju, þrjár hringekjur reyndar og fjórir verkamenn, hver tegund verkamanna má bara fara í sína eigins hringekju. Síðan er þetta bara hin venjulega barátta um að ná í hráefni til að byggja hluti og svo að fá hrávöru, breyta henni í söluvöru og sigla svo með hana um heimshöfin. Þemað hreinlega drýpur (ekki) af spilinu. 

En gangverkin eru skemmtileg, þetta er áhugavert púsluspil og margt í gangi sem tekur á hugann. Við Fríða enduðum jöfn í fyrsta sæti og ég marði sigur á jafnteflisreglu. Það er samt líklegast best sem þriggja manna spil, varðandi tímalengd, en við skemmtum okkur samt konunglega.

Mynd
Coffee Traders Gameplay
Hér eru bara nokkrir af fjölmörgum tegundum viðaríhluta á spilaborðinu

Coffee Traders

2
1

Þetta spil frá Capstone Games var einn af földu skrautsteinunum á Essen 2021. Ég náði ekki að næla mér í eintak þar en stökk til þegar ég sá það á UKGE í fyrra. Ég er búinn að opna kassann fjórum sinnum og alltaf þótt innihaldið yfirþyrmandi, það eru níu mismunandi leikmannapeð fyrir hvern leikmann .... Spilið er ellefta þyngsta spilið (skv. BGG) í minni eigu.

Eníhú, við Hilla ákváðum á fimmtudagskvöldið að koma okkur í gegnum reglurnar, og eins og svo oft áður þá er það bara pínu ströggl en mestmegnis gaman.

Spilið er frekar þematískt, þó svo að um venjulegt Euro spil sé um að ræða. Leikmenn byggja upp plantekrur, ráða til sín verkamenn, gera svo út sölufólk til að selja kaffið og að lokum uppfylla pantanir til stórra sem smárra aðila. Flestu stigin vinnur leikinn.

Það er t.d. mjög skýrt hvað gerist í hverjum fasa. Fyrst er byggir þú upp plantekruna þína, síðan fara verkamennirnir út, síðan kemuru fyrir sölufólkinu og að lokum selur þú, allt í lógískri röð og því getur þú einbeitt þér að bara einum hlut í einu. 

En spilið er ekki tveggja manna (eða öllu heldur tveggja manna + AI). Það er varla þriggja manna, þetta er fjögurra til fimm manna leikur, líklegast fjögurra vegna tímans. Við sáum það fljótlega að ýmislegt hefði farið öðruvísi með fleiri leikmönnum en við gerðum líka nokkrar klaufavillur sem gerði það að verkum að við fengum engan vegin eins mörg stig og við hefðum átt að fá. En gott spil samt, ég vil spila þetta aftur mjög fljótlega og sjá hvort reglurnar setjist ekki.

Mynd
On Mars Gameplay
Það er heilmikið að gerast á yfirborði Mars í leiknum

On Mars

3
1

Eftir að hafa tekið í ellefta þyngsta spilið í safninu á fimmtudagskvöldið var komið að því þyngsta kvöldið eftir. On Mars eftir Vital Lacerda er af mörgum talið eitt þyngsta spil sem hægt er að spila, reglurnar eru flóknar og margt að gerast. 

Því kom mér þægilega á óvart hvað þetta spil fellur vel við heilann í mér. Ég er ekki að segja að spilið sé létt eða auðvelt, alls ekki. En gangverkin smella saman í hausnum á mér og þarna kemur líka dagljóst fram hvað grafísk hönnun skiptir miklu máli í borðspilum. Öll íkonagrafía er mjög stílhrein og gengur upp. Þrátt fyrir aragrúa aðgerða eru í raun samt bara fimm aðgerðir sem þú ert að einblína á í einu. 

Leikmenn eru að byggja upp nýlendu á Mars. Þeir gera það bæði á yfirborði Mars og uppi í geimstöð sem er fyrir utan lofthjúpinn. Lítil geimskutla sér um að ferja geimfara á milli yfirborðsins og stöðvarinnar og á hvorum stað um sig geturu framkvæmt fimm aðgerðir. Margar eru til þess að gera einfaldar en gangverkið í spilinu er að megninu til verkamannagangverk með smá tæknitré og auðlindastjórnun, nokkuð sem ég hef séð margoft áður. 

En spilið syngur bara svo fallega. Ég uppgötvaði fyrir þó nokkru að þyngri spil eiga frekar við mig en léttari en ég gerði mér ekki grein fyrir að alþyngstu spilin gerðu það líka svona svakalega. Vital Lacerda er á góðri leið að taka fyrsta sætið yfir uppáhalds höfundana mína og mér finnst það spennandi þróun. Af þeim sem ég hef spilað er On Mars hans besta til þessa, en mér finnst samt öll spilin hans, sem ég hef spilað, frábær.

Mynd
Great Western Trail: Argentina Gameplay
Það er komið svolítið af aukaborðum fyrir Argentínu og spilið tekur umtalsvert meira pláss en forveri þess

Great Western Trail: Argentina

2
1

Þar kom að því að GWT: Argentina næði til landsins. Ég er búinn að bíða óþreyjufullur síðan í október, en á Essen hugsaði ég: "Ég er ekki að fara að bíða í röð frá 9 - 10 til að ná mér í eintak, það verður komið í Nexus fyrir jól." Greinilega voru aðrir með önnur plön ...

Eníhú, ég keypti það á fimmtudagskvöldið og það var komið í spilun á sunnudagsmorgun. Gangverkið er mjög svipað og GWT, stokkasmiður með hringekju og aðgerðum á flísum. Stóri munurinn er hvernig kýrnar eru fluttar, nú fara þær ekki með lest til Kansas heldur með skipum til Le Havre, Rotterdam og Liverpool. Spilarar hafa svolítið dýnamískara val á hvert skal senda kýrnar og þrátt fyrir að þú sendir þær til "ódýrari" staða er möguleiki að þú getir samt fengið fullt af stigum fyrir sendinguna.

Korn er nú hráefni í spilinu og þú þarft að senda korn með kúnum í langferðina, enda myndu þær annars deyja úr sulti. Einnig eru bændur komnir í stað bófa og ræningja og nú ert þú að hjálpa þeim til að losna við þá á borðinu. Til þess þarftu styrk, sem m.a. er að finna á kúaspilunum þínum. En ef kýrnar eru notaðar sem dráttardýr verða þær þreyttar og þú færð vond spil í stokkinn sem þú þarft að reyna að losna við. Því er gott að stækka hendina fljótlega og notfæra sér allar leiðir til að losna við þreytuspilin.

GWT er mjög ofarlega á Topp 100 listanum mínum og það er ljóst að litla systir mun skríða ofarlega líka!