UKGE 2023

Skrifað af admin þann

Mán 29. maí 2023 til Sun 04. jún 2023

Ég er svo óendanlega heppinn að geta stundum farið á borðspilaráðstefnur úti í heimi og þessa helgi var UK Games Expo, næststærsta borðspilaráðstefnan í Evrópu (á eftir Essen). Þar fékk ég aldeilis að spila mikið af skemmtilegu :-)

Mynd
Voidfall Gameplay 1
Mynd
Voidfall Gameplay + Dávid Turczi
Spilaborðið og Dávid Turczi að kenna

Voidfall

3
1

Hún byrjaði nú ekki illa, UKGE hátíðin í ár, en fyrsta spilið sem ég spilaði var Voidfall, risastórt 4X spil fyrir Eurospilara. Reyndar er spilið ekki 4X spil, því explore hlutinn er ekki í því (frekar en í TI4) og þú ert meira að ógna öðrum spilurum en hreinlega að eyða þeim af kortinu.

Ekki spillti nú fyrir að ég fékk að spila við góðan vin frá Bretlandi, Mark Dainty, sem er einn fremsti solo-Youtube myndbandsframleiðandinn og svo kenndi hönnuðurinn sjálfur, Dávid Turczi, og spilaði við okkur. Það er mjög áhugavert að spila við höfundinn og fá að heyra um leið hvernig þróunin á spilinu fór fram.

Það eru tólf eintök á leiðinni til Íslands, við fáum klárlega að spila það meira í haust.

9/10

Mynd
After Us Gameplay 1
Mynd
After Us Gameplay 3
Allt myndefni er eftir Vincent Dutrait, einn af mínum uppáhalds

After Us

3p og 4p
2

Það spil sem ég rak augun í aftur og aftur á topplistum yfir þau spil sem efnisframleiðendur voru spenntastir yfir var After Us. Kannski var það bara gullfalleg kassateikning Vincent Dutrait því á þeim tíma var ekki mikið meiri upplýsingar um spilið.

After Us er stokkasmiður með vélaruppbyggingu og apaþema. Og alveg ótrúlega snjöll pæling. Þú byrjar með átta spil i stokknum og dregur fjögur í hendi. Leggur þau svo niður á borðið og ferð að raða þeim til. Þau eru nefnilega öll með svörtum ramma utan um auðlindirnar sem þú ert að reyna að fá. Og á mörgum spilunum er bara helmingurinn á öðru spilinu og hinn helmingurinn á hinu spilinu. Þú þarft því að raða þeim upp til að búa til bestu vélina til að fá sem flestu hráefnin.

Síðan kaupir þú spil á markaðnum. Þau eru öll með bakið upp, þannig að þú sérð ekki hvaða spil þú færð. En þú ert með fjögur token í hendi til að spila niður til að velja hvaða tegund af apa þú vilt (órangútan, górillu etc.). Svo kaupir þú annað hvort veikara eða sterkara spilið af þeirri tegund og spilið fer efst í bunkann. Það er líka mjög auðvelt að losna við spil úr stokknum ..... þetta spil er bara algjör snilld!

Mér tókst að fá áritað eintak af sérútgáfunni, mitt eintak er með Big Ben í stað Eifell turnsins.

9/10

Mynd
Marrakesh Gameplay 1
Mynd
Marrakesh Gameplay 3
Mynd
Marrakesh Gameplay 2
Það eru aðeins bjartari litir í City Collection línunni en mörgum öðrum Feld spilum

Marrakesh

4
1

Marrakesh er fjórða spilið í Stefan Feld City Collection og eina nýja spilið sem var gert í þeirri seríu. Og þetta er eitt af mínum uppáhalds Feld spilum.

Eins og í næstum öllum Feld spilum er voða lítið þema, það er bara uppfullt af gangverkum. En skemmtilegum samt. Leikmenn spila þrjá hringi af fjórum umferðum i hverjum hring. Í hverri umferð velur þú þrjá af tólf lituðum sívalningum sem ákvarða hvaða aðgerðir þú gerir í þessari umferð. Síðan er öllum sívalningunum sturtað ofan í turn og flestir þeirra koma niður úr turninum. En ekki allir ;-)

Síðan velja leikmenn 1-2 sívalning í sama lit þangað til allir sívalningarnir eru búnir. Hver og einn hefur sína merkingu (eru auðlindir) og þegar þessi hluti er búinn gera leikmenn sínar þrjár aðgerðir.

Algjörlega frábær hönnun og ekki skemmdi að spilið var kennt af Paul Grogan, sem vann með Queen Games að reglubókinni, hönnuninni og svo gerði hann How-to-play myndböndin.

9/10

Mynd
New York City Gameplay

New York City

4
1

New York City er þriðja spilið í Stefan Feld City Collection línunni og er endurhönnun af Rialto. Spilið er frekar fljótspilað, það tók klukkutíma að klára, með kennslu. Í spilinu færðu þrjú spil á hendi og svo velur þú tvisvar sinnum tvö pör í viðbót sem sett eru fyrir framan leikmenn, 2x leikmenn + 1 pör.

Síðan er farið yfir aðgerðalistann, sex aðgerðir samtals, og spilunum sem þú valdir spilað niður, það ákvarðar styrk aðgerðarinnar. Þú getur farið upp á blaðabrautinni, fengið peninga, ráðið aðstoðarmenn, fengið fleiri skýjakljúfa á spilaraborðið, raðað niður bónustókum og byggt skýjakljúfa í virka svæðið þá umferð. Markmiðið er að koma niður sem flestum skýjakljúfum niður í sex svæði New York borgar og skora sem flest stig.

Spilið er mjög fínt en klárlega í "léttari kantinum" af Feld spilum. Það spilast best fjögurra manna en hægt er að vera með vélmenni til að fylla upp í leikmannafjöldann.

7.5/10

Mynd
Inventions: Evolution of Ideas Gameplay 1
Mynd
Inventions: Evolution of Ideas Gameplay 3
Mynd
Inventions: Evolution of Ideas Gameplay 4
Inventions: Evolution of Ideas er klárlega heilabræðari af bestu gerð

Inventions: Evolution of Ideas

3
1

Áðurnefndur vinur minn, Mark Dainty hafði samband við mig fyrir hátíðina og spurði hvort ég hefði áhuga á að prófa nýja Vital Lacerda spilið, sem kemur á Kickstarter í júlí. Auðvitað þurfti hann ekki að spyrja mig tvisvar!

Inventions er markaðsett sem spil í þyngdarflokki með Kanban EV en okkur fannst reyndar spilið mun þyngra, eiginlega í flokki með On Mars.

Grunnpælingin er einföld, þú hugsar upp hugmynd, þú finnur hana upp, færð einhvern hugsanlega til að betrumbæta hana og að lokum kynnið þið hana. Mjög flott pæling og skemmtileg.

Spilunin var samt alveg erfið, kennarinn hafði spilað spilið nokkrum sinnum en bara einmennings og við ströggluðum svolítið við reglurnar. Það var mjög langt liðið á spilið þegar ég fattaði almennilega hvernig það gekk enda var ég langaftastur megnið af spilinu. Að lokum tókst mér þó að klóra mig upp í annað sæti.

Ég labbaði frá borðinu og var ekki alveg viss, það er klárlega aðeins "of mikið" í þessu spili. Og það mun ekki rata mjög oft á borðið einfaldlega vegna þyngdar .... en á meðan ég er að skrifa þetta er spilunin að gerjast í hausnum á mér og ég held hreinlega að það sé að klifra ofar og ofar ... hvar er nú Visa kortið mitt aftur?

8.5/10

Mynd
The Red Cathedral Gameplay 3
Mynd
The Red Cathedral Gameplay 4
Mynd
The Red Cathedral Gameplay 5
The Red Cathedral er lítið en gullfallegt spil frá Devir

The Red Cathedral

2
1

Á sunnudeginum vorum við Styrmir aðeins að ráfa um salinn og sjá hvað okkur langaði að prófa. Við löbbuðum framhjá básnum hjá Devir og langaði að prófa Ierusalem: Anno Domini en þar var kennslan nýhafin. Þá settumst við bara niður og prófuðum The Red Cathedral, spil sem var á skammarhillunni hjá báðum.

Það spil stendur vel undir því lofi sem það hefur fengið. Aðal gangverkið er hringekja þar sem þú velur þér tening og færir hann áfram um jafnmarga reiti og dílarnir segja til um. Síðan virkjar þú flísina sem er á þeim reit eins oft og fjöldi teninga á reitnum, samt aldrei fleiri en þrír. Þú getur líka virkjað spil sem er tengt við reitinn.

Og markmiðið er að safna auðlindum til að geta byggt dómkirkjuna. Ein af aðgerðunum er að velja sér hluta af kirkjunni til að byggja, önnur aðgerð er að færa eina til þrjár auðlindir yfir á hlutann til að klára. Ef allar auðlindirnar eru komnar færðu peninga og stig.

Það er mjög margt flott í þessu spili. Hvernig aðgerðirnar virka, hvernig þú þarft að velja þér hluta af byggingunni, hvernig ef einhver annar spilari velur hluta fyrir ofan þinn til að byggja og byggir hann á undan þér færð þú mínusstig og fleira gerir spilið mjög skemmtilegt. Þetta eru höfundar til að fylgjast með.

8.5/10

Mynd
Ierusalem: Anno Domini Components 1
Mynd
Ierusalem: Anno Domini Components 2

Ierusalem: Anno Domini

4
1

Þegar við vorum að klára Red Cathedral losnaði Ierusalem og við ákváðum að prófa það bara líka. Þemað í spilinu er síðasta kvöldmáltíð Jesú krists og lærisveinanna tólf. Gangverkið í spilinu er aðgerðaval með spilum og er hægt að fá ný spil í hendi sem eru sterkari en grunnspilin. Leikmaður velur að spila eina aðalaðgerð og svo eina til þrjár hliðaraðgerðir, eftir því hvaða spil hann spilaði niður.

Þú ert s.s. að reyna að setja eins marga fylgjendur í þínum lit sem næst Jesú og lærisveinunum, fyrir það færðu flest stig. Spilið er samt óþarflega flókið og það er pínu ruglingslegt hvernig þú færð stig því þau eru táknuð á þrjá mismunandi vegu.

Mér fannst spilið fínt. Ég var ekkert að springa úr spenningi enda þemað ekkert endilega að höfða til mín. Það er þó margt í því sem er ágætt og ég mun klárlega spila það aftur ef það er fyrir framan mig. En ég er ekki seldur á það endi í safninu.

7/10

Mynd
Apex Legends Gameplay 3
Mynd
Apex Legends Gameplay 1
Mynd
Apex Legends Gameplay 2

Apex Legends: The Board Game

4
1

Síðasta spilið á hátíðinni var Apex: Legends. Mér hafði verið boðið að taka þátt af Paul Grogan, hann taldi að þetta væri nú aldeilis spil fyrir mig.

Apex Legends er lið-á-móti-liði spil fyrir tvo til fjóra spilara, samt þannig að það eru alltaf fjórir hermenn úti á borðinu í einu. Hver leikmaður leikur hermann sem er með tvö vopn í byrjun og er svo að leita að fleiri vopnum og reyna að fella andstæðinginn. Það lið vinnur sem nær að fella báða andstæðingana einu sinni, en leikmenn falla ekki út við að vera drepnir, þeir endurholdgerast á sama hátt og í tölvuleikjum.

Þegar leikmenn opna kistur sem eru á vígvellinum geta þeir fundið ný vopn eða uppfært þau vopn sem þeir eru með. Að auki eru allir leikmenn með einhverja sérkrafta.

Mér fannst spilið allt í lagi en það sem var helst að var að það var langur biðtími á milli umferða. ADHD-ið mitt var í vandræðum með að halda athygli (líklegast líka þreyta) og það var bara ekki alveg að gera sig fyrir mig. Frábær útgáfa, margt skemmtilegt í gangi, bara ekki fyrir mig. En fyrir þá sem spila spil á borð við Marvel Crisis Control og slík spil er þetta ábyggilega algjör snilld.

6/10