Haltu þig á mottunni!

Skrifað af Hilmar Kári þann

Það er margt sem bendir til að ég sé safnari. Það er mjög oft þannig að þegar ég fæ áhuga á einhverju þá fer ég allur inn í það áhugamál, af miklum krafti. Borðspilahobbýið er þar engin undantekning. 

Ég á fullt af spilum og safna borðspilum. En það er ekki efnistök þessa bloggs. Í dag ætla ég að tala um mottublætið mitt. 

Mynd
Mottuhrúga
Mynd
Mottuhrúga 2
Þegar ég stafla mottunum upp verður til þessi hrúga

Ég hef nefnilega alveg svakalegt mottublæti. Ef ég sé að það er hægt að fá spilamottu fyrir eitt af spilunum mínum, þá stekk ég til. Mér er eiginlega sama hvað hún kostar, ég verð að eignast hana! 

Í fyrstu var þetta ekkert mál, það var ekkert geisilegt úrval af mottum hér heima enda seljast þær líklegast ekkert rosalega vel. Ekki margir svona vitleysingar eins og ég. En svo þegar ég datt á hausinn ofan í hópfjármögnunarsíðurnar þá fór þetta að verða aðeins "verra". Því ansi oft var hægt að bæta við mottu, eftir að fjármögnunin var búin og pledge managerinn opnaði. Því þá var ég nefnilega búinn að borga fyrir spilið og því lítið mál núna að borga sendingarkostnaðinn og svo eins og aðra $150 í alls konar aukadót, þar með talið mottuna ....

Því spilamottur eru svo fallegar! Það er svo frábært að nota þær í staðinn fyrir harða pappaspjaldið sem "venjulega" spilaborðið kemur á. Mottan er mjúk, það er hægt að setja fingurinn ofan í til að ná spilum upp, teningarnir búa ekki til óheyrilegan hávaða þegar þeir rúlla eftir mottunni ... og svo eru viðbæturnar oft teiknaðar á mottuna líka :-)

Mynd
Raiders of the North Sea Playmat
Raiders of the North Sea

Jebb, það er oft á tíðum ástæðan fyrir að ég á mottu. Í spilum eins og Architects of the West Kingdom, Raiders of the North Sea og Champions of Midgard er búið að gefa út tvær til þrjár viðbætur og við hverja og eina þeirra er auka spilaborð sem bætist við. En þau eru öll á mottunni líka þannig að það verður miklu auðveldara að draga hana fram!

Western Legends mottan er líklegast ein sú magnaðasta sem ég á. Spilið tekur meirihlutann af stóru stofuborði, en mottan gerir leikborðið alveg óendanlega heildstætt og fallegt. Það eykur spilaupplifunina alveg helling.

Svo eru mottur eins og fyrir Frosthaven, sem eru í raun bara staðgenglar fyrir hvar man setur niður spilin sín. Svona til að halda öllu í röð og reglu. Eða Arkham Horror: LCG motturnar, sem búa til spilaborð þar sem ekkert er til staðar.

Eða Ark Nova mottan, sem sameinar fullt af mörgum ólögulegum spilaborðum í eitt ansi nett og lipurt. Það er oftast betra að nota mottur ;-)

Mynd
Mottur í tösku
Allar motturnar fimmtíu komnar í "handhæga" geymslueiningu

Geymsluaðferðir

Til að byrja með geymdi ég motturnar bara í pappahólkunum sem þær komu í. En það varð alltaf flóknara og flóknara því það er ekkert auðvelt að geyma rúllur. Þá fór ég að kaupa buxnaherðatré og geyma motturnar hangandi inni í skáp. En það var ekkert þægilegt heldur. Annað hvort eru klemmurnar það lausar að motturnar eru sídettandi af eða þær eru það stífar og með krókódílakjöftum og þar að leiðandi skilja þær eftir far í mottunni. Sem er heldur ekki gott. 

En að lokum fann ég lausn sem mér sýnist að verði það sem ég nota í framtíðinni. Í Ikea er hægt að fá hirslur sem eru ætlaðar fyrir jólapappír og þess háttar. Ég keypti eina svoleiðis til að prófa og það er hægt að koma alveg helling í eina svoleiðs. Ég kom næstum öllum mottunum í eina. Reyndar verður hirslan þá svo þung að það er varla hægt að hreyfa hana, þannig að ég mun líklegast nota tvær, en þetta sýnist mér vera brillíant lausn. Svo kaupi ég bara franskan rennilás í metravís og set utan um motturnar til að þær haldist saman. Skrifa kannski á strappann hvaða motta er þarna upprúlluð, en ég er þó ekki viss því það er venjulega hægt að finna út mjög auðveldlega hvaða spili hún tilheyrir.

Ég er amk. mjög ánægður með nýju hirsluna og ég skemmti mér afbragðsvel í kvöld við að raða þeim í hirsluna og taka saman hvað ég á mikið af mottum. Ég á s.s. mottur fyrir fimmtíu mismunandi spil!