Hvernig verður topplisti til?

Skrifað af Hilmar Kári þann
Mynd
Pub Meeple Ranking Engine

Þar sem ég er á fullu að henda inn Topp 100 listanum mínum frá árinu 2022 langaði mig aðeins til að hripa niður hvernig ég geri listann og hvaða ákvarðanir ég nota þegar ég er að raða honum saman.

Ég (eins og margir aðrir) nota tól frá PubMeeple sem kallast Ranking Engine. Hægt er að nota það til að bera saman helling af hlutum og búa til ToppX lista um allan fjárann. Á síðunni þeirra eru þau t.d. með drykki, borðspil, bækur, bjóra, charactera, hasarblöð, mat, bíómyndir, tónlist, fólk ofl. Þú hreinlega setur inn lista af því sem þú vilt bera saman, vistar listann þinn og byrjar. Vefsíðan birtir tvo möguleika og þú velur annan þeirra. Því oftar sem þú velur einhvern hlut því ofar fer hann og hinir færast neðar.

Mynd
Pub Meeple Ranking - Game Selection

Borðspilin eru jafnvel ennþá flottari. Þú getur slegið inn BGG notendanafnið þitt og vefsíðan sækir fyrir þig öll spil sem hafa einhverja skráningu á BGG (spilað, í eigu, einhverntíma átt, er á óskalista) og birtir svo í lista. Í mínu tilfelli (ég útilokaði viðbætur) komu upp 938 spil! 

Síðan byrjar þú bara að velja hvaða spil eiga að fara í listann. Kannski viltu bara allan listann og það er frekar að gera það, en það getur orðið langt ferli ef um er að ræða mörg spil. Ég handvel því í listann þau spil sem ég veit að ég ætla að raða. Oft er það vegna þess að ég hef ekki spilað spilið (óskalisti, hilla tækifæranna) eða ég er kannksi bara búinn að spila það einu sinni. Í seinni tíð hef ég líka útilokað spil sem ég veit að eiga ekki séns.

Gott dæmi um það er 6 nimmt! og 11 nimmt! Fín spil alveg, þau eru í safninu mínu, en þau eiga samt ekki séns að komast á Topp 100. Þau eru ekki einu sinni á Topp 500 hjá mér, þó svo að ég hafi alveg gaman að spila þau. 

Síðasti Topp 100 listi hafði samtals 305 færslur sem ég kláraði að fara í gegnum. Því já, þú getur hent færslu af listanum í miðri keyrslu, t.d. þegar þú áttar þig á að þú valdir vitlaust eða þú vilt ekki vera að bera saman tvö einstaklega svipuð spil. Gott dæmi er Dead of Winter og Dead of Winter: The Long Night. Þau eru til þess að gera sama spilið og því óþarfi að hafa þau bæði á listanum.

Mynd
Pub Meeple - Choice Between Two
Hvor er betri, Brúnn eða Rauður?

Síðan er bara að byrja að velja á milli. Vefsíðan stillir upp tveimur spilum. Til að byrja með valið af handahófi en svo fer það að velja eftir því hvernig fyrri val hefur verið. Þú velur bara A eða B. Vinstri eða hægri (á lyklaborðinu). Hvor er betri, Brúnn eða Rauður.

Og það er það sem tekur (auðvitað) lengstan tíma. Stundum er valið einfalt, stundum er valið flókið.

Mynd
Pub Meeple Ranking - Game Selection 2

En auðvitað er svo staðreyndin að af þessum 305 spilum sem ég flokkaði eru ekki mörg sem ég myndi hreint og beint þvertaka fyrir að spila. Nr. 287 er Pirate Fluxx. Við Brynja spilum það oft þegar við viljum grípa í eitt stutt í lokin. Að lokum er það bara þannig að ég vil spila, næstum alveg sama hvaða spil er fyrir valinu.

Ég er búinn að birta neðri 50 af Topp 100 listanum mínum. Vonandi tekst mér að koma saman textanum fyrir efri hlutann sem fyrst.

Í mínu tilfelli horfði ég alltaf á bæði spilin sem komu upp. Hvort spilið langar mig frekar að spila? Ekkert flóknara en það. Bara, ef þetta væru einu tvö spilin sem valið stæði um núna, hvort spilið myndi ég velja? Ég hafði reyndar þann fyrirvara á að ég hefði allan tímann í veröldinni til að spila, þannig að alveg sama hvort spilið ég myndi velja, þá hefði ég tíma til að setja það upp, læra það (aftur) og spila. 

Og þannig plægði ég mig bara í gegnum listann. Það sem ég tók eftir fljótlega var að ég leita oftar í að vilja spila þyngri spil en einfaldari. Ef valið er um 6 nimmit og Above and Below valdi ég Above and Below. Ef valið var á milli Anachrony og Above and Below var valið aðeins erfiðara því ég elska líka sögudrifin spil, en valið var líklegast samt Anachrony, einfaldlega vegna þess að af tveimur frábærum langar mig meira að spila það. 

Að lokum, allar myndirnar sem ég set sem yfirlitsmyndir á Topp listana mína eru fengnar af Pub Meeple. Hægt er að velja Top Nine uppi í hægra horninu og svo bara handvelja spil í ferninginn. Einstaklega þægilegt. Ég hvet líka alla sem ákveða að henda í lista að styrkja þau um nokkra dollara, þetta er alveg frábært framtak hjá þeim og framfarirnar á hugbúnaðinum eru æðislegar!