Leisure Games, London

Skrifað af Hilmar Kári þann
Mynd
Leisure Games Store Front
Búðin er ekkert mjög stór, glugginn spannar breidd hennar.

Leisure Games er staðsett í norðanverðri London. Til að komast þangað er best að taka Northen Line túbuna til Finchley Central stöðvarinnar. Þegar þú kemur út úr lestinni (miðað við að þú hafir ferðast í norður) ferðu yfir brúna yfir teinana og út, beygir til vinstri upp að næstu gatnamótum og þá til hægri. Verslunin er á hægri hönd, c.a. hálfan km neðar í götunni.

Verslunin ber ekki mikið yfir sér, enda ekki mjög stór. Fremri hluti hennar er sölusvæði og innar eru borð til að spila og vinnuaðstaða starfsfólks.

Úrvalið í versluninni er ágætt. Eins og áður sagði er hún ekki mjög stór, eiginlega bara tveir langir veggir þar sem annar veggurinn er þakinn spilum. Í efstu tveimur hillunum eru herspil af ýmsum gerðum en neðar eru borðspilin. Spilunum er raðað upp í stafrófsröð og er skipulagið ekkert ósvipað í Nexus. Þarna fann ég t.d. viðbótina fyrir Imhotep sem vakti mikla lukku :-)

Fín verslun og verðin eru allt í lagi. Þú ert samt lítið að "græða" á því að versla þarna frekar en í Nexus eða Spilavinum, verðin eru mjög sambærileg. En það er alltaf gaman að koma í nýja verslun og reyna að finna einhverja falda mola innan um spil sem koma til okkar á Íslandi.