Tilnefningar til Dice Tower Awards

Skrifað af Hilmar Kári þann
Mynd
Dice Tower Awards tilnefningar

Efnisveitan The Dice Tower kynntu á dögunum tilnefningar sínar til The Dice Tower Awards 2022.

Þetta er í sextánda skipti sem verðlaunaafhendingin er haldin en verðlaunin voru veitt í fyrsta sinn árið 2007. Það ár voru veitt verðlaun í níu flokkum og stóð Race for the Galaxy upp úr sem spil ársins.

Í ár eru veitt verðlaun í samtals fimmtán flokkum: Besta inngangsspilið, besta viðbótin, besta partýspilið, besta einmenningsspilið, besta tveggja-manna spilið, besta endurprentunin, besta samvinnuspilið, besta spil frá litlum útgefnanda (sem hefur gefið út fimm spil eða færri), besta spil frá nýjum hönnuði (sem má í mesta lagi hafa gefið út eitt annað spil fyrir þessa tilnefningu), besta þemað, flottasta útgáfan, besta listin, besta kænskuspilið, spil með mestu framþróun eða nýjungar og svo spil ársins.

Spilin eru tilnefnd af hópi 150 fólks af öllum kynjum á öllum aldri. Ferlið hefst á því að allir henda inn hugmyndum í alla fimmtán flokkana og er lítil sía á því hvað fer inn. Þó er augljósum villum hent út eins og t.d. ef Blood on the Clock Tower hefði verið tilnefnt sem besta einmenningsspilið!

Því næst er búinn til listi af 10-15 spilum í hverjum flokki og valnefndin velur að hámarki fimm til að hljóta tilnefningu. Það er listinn sem verið var að tilkynna. Eftir það fær valnefndin rúma tvo mánuði til að spila spilin sem tilnefnd eru og raða svo hverjum flokki í röð frá 1-5. 

Verðlaunin eru tilkynnt á Gen Con borðspilaráðstefnunni í Indianapolis, 3. ágúst næstkomandi.

Mynd
Return to the Dark Tower

Það spil sem fékk flestar tilnefningar var endurútgáfan Return to the Dark Tower með samtals sex tilnefningar. Spilið er byggt á útgáfu sem var gefin út árið 1981 og voru Tim Burrell-Saward (Beasts of Balance), Isaac Childres (Gloomhaven, Frosthaven), Noah Cohen (Betrayal Legacy, Unmatched) og Rob Daviau  (Pandemic: Legacy, S0, S1, S2, Betrayal Legacy, Unmatched og fullt annað) fegnir til að kíkja á spilið og endurhanna frá grunni. Spilið er hægt að spila bæði sem samvinnuspil og keppnisspil, er í grunninn vélaruppbyggingar- og auðlindastjórnunarspil, en svo er það þessi turn á miðju spilaborðinu .... 

Mynd
Blood on the Clocktower
Blood on the Clock Tower spilað á Spilavin Borðspil.is og Pant vera blár

Næst á eftir kom partýspilið Blood on the Clock Tower með samtals fimm tilnefningar. Spilið er eins konar Werewolf á sterum, í grunninn partýspil en var tilnefnt sem besta partýspilið, besta spil frá litlum útgefanda, besta spil frá nýjum hönnuði, mesta framþróunin og spil ársins. 

Spilið fær fullt af góðum dómum alls staðar frá, þó svo að það hafi ekki vakið hrifningu greinarhöfunds.

Mynd
Flamecraft - Boxart
Flamecraft er m.a. tilnefnt til bestu listarinnar og sem besta spilið 2022

Fjögur spil fengu fjórar tilnefningar: Flamecraft, Wonderlands War, Endless Winter og Planet Unknown og voru öll fjögur m.a. tilnefnd sem spil ársins. Öll spilin hafa sést á borðum landsmanna og verður gaman að fylgjast með gengi þeirra á verðlaunahátíðinni.

Fjögur spil fengu þrjár tilnefningar: Ready Set Bet, Heat: Pedal to the Metal, Wayfarers of the South Tigris og CoraQuest. Þó svo að hönnuðir CoraQuest séu efnisframleiðendur fyrir The Dice Tower er samt virðingarvert að spilið skuli hljóta þrjár tilnefningar, ekki síst vegna þess að það er létt barna- og fjölskylduspil, hannað af barni og er öll list í spilinu hannað af börnum (þó svo að þær hafi svo verið endurteiknaðar af fullorðnum). 

Þrjú spil fengu tvær tilnefningar: Agropolis, Nemesis: Lockdown og Trekking Through History.

Remote video URL