UK Games Expo 2023

Skrifað af Hilmar Kári þann
Mynd
Open Gaming Room UKGE 2023
Mynd
Queue to enter UKGE 2023
Opna spilaherbergið, röðin í Bring and buy og biðröðin eftir að komast inn í sýningarsalinn á föstudeginum

UK Games Expo er haldin í Birmingham á Englandi í kringum fyrstu helgina í júní ár hvert. Þetta er í þriðja sinn sem ég fer þangað en ég hef farið síðustu þrjú ár, 2021, 2022 og nú 2023.

Þetta ár er hátíðin klárlega komin aftur af stað eftir Covid. Árið 2021 var grímuskylda alls staðar og sýningin varla svipur hjá sjón miðað við hvernig hún var áður og hvernig hún var núna.

Sýningin stendur frá fimmtudagskvöldi til sunnudagskvölds. Fimmtudagurinn byrjar með kynningu fyrir fréttafólk og efnisframleiðendur en um leið opnar líka opni spilasalurinn. Föstudag og laugardag er opið frá 9-24 og á sunnudeginum er opið frá 9-16. Sýningarsvæðið er reyndar bara opið til 18 á fös og lau, en opna spilasvæðið er s.s. opið til 24.

Þrír salir eru teknir undir UKGE. Í sal 1 og 2 er sýningarsvæði og er hvor salur um sig sambærilegur við sal 2 í Essen, fyrir þá sem þangað hafa komið. Eða frjálsíþróttahöllina í Laugardalnum, sem samanburð. Salur 3 er svo fyrir spilara til að prófa eitthvað af nýju spilunum sínum eða fara á bókasafn hátíðarinnar. Reyndar er það bókasafn ekki upp á marga fiska, þannig að betra er að taka með sér spil.

Mynd
Voidfall Gameplay 2

Fimmtudagur

Þar sem borðspil.is er stærsti vefur á Íslandi sem fjallar um borðspil fengum við auðvitað pressupassa á sýninguna. Á sýningarsvæðinu kenndi ýmissa grasa og var metþáttaka frá framleiðendum í salnum. Mikill kliður olli því að ég átti svolítið erfitt með að heyra allar lýsingarnar, en það var greinilegt samt að framleiðendur voru mjög spenntir fyrir að sýna hugverk sín.

Á fimmtudeginum var ég líka meira með símann á video en ljósmyndum. Ég er enn að klippa myndbandið til, það verður vonandi tilbúið í vikulokin.

Eftir að ég var búinn að skanna svæðið settist ég niður með Mark Dainty og Dávid Turczi til að læra og spila Voidfall og verð ég að segja að það var einn af hápunktum hátíðarinnar. Þú getur lesið meira um spilið í Spiladagbókinni.

Mynd
Brighton borðspilið
Mynd
Teningasápur
Mynd
Wall E
Mynd
Who Am I - Alice in Wonderland 2

Föstudagur

Föstudagurinn var týpískur fyrsti dagur á svona spilaráðstefnu. Ég skannaði hratt yfir sýningarsvæðið og greip þau spil sem ég var spenntastur fyrir. Þau nýju spil sem rötuðu í pokann hjá mér í ár voru: Distilled, Books of Time, Cat in the Box, After Us og Where Am I - Alice in Wonderland. Þar að auki fann ég líka Laust Aurora og viðbótina við það, Obsession viðbætur, Red Cathedral Contractors, Iðavöll, Advent Calendar, Undaunted: Normandi og Tabannussi: Builders of Ur sem ég fékk fyrir aðeins 12 GBP! Eina spilið sem ég spilaði var After Us, alveg gjörsamlega frábært spil sem ég náði svo að næla mér í á laugardeginum, en aðeins örfá eintök voru seld á hverjum degi (þar með var blaðamannapassinn búinn að borga sig ;-) )  Það spillti ekki fyrir upplifuninni á After Us að það var kennt af höfundinum, Florian Sirieix.

Ég skaust líka í notuðu deildina "Bring-and-Buy", risastóran sal þar sem allt úði og grúði í mismerkilegum spilum. Mismerkilegum vegna þess að jú ... smekkur okkar er misjafn. Þar nældi ég mér í innsiglaða útgáfu af Vinil og British Invation viðbótina, tvær viðbætur fyrir Arkham Horror 2nd ed á mjög fínu verði og svo Endless Winter KS útgáfuna.

Þegar ég kom út af Bring-and-Buy svæðinu var ljóst að ég var í "smá" vandræðum, kominn með 40kg af spilum og bara tvær hendur :-)  En þá var aldeilis heppilegt að hann Kjartan Hearn vinur minn, sem einmitt býr þarna nálægt, var með konu sinni og dóttur á ráðstefnunni og voru á leiðinni heim. Og af einstakri góðmennsku sinni buðust þau til að skutla mér, Styrmi og Johnny heim á Airbnbið okkar, svo við þyrftum ekki að burðast með þetta allt í lestinni. Sem við þáðum með þökkum og yfirgáfum því svæðið frekar snemma á föstudeginum.

Um kvöldið hittum við svo þær Lindu og Svanhildi, eigendur Spilavina, ásamt eiginmönnum, á veitingahúsi í Birmingham, hvar við fengum okkur alveg frábæran Indverskan mat. Þar var mikið hlegið og haft gaman eins og alltaf í félagsskap þeirra fjögurra, það er sko aldrei leiðinlegt í kringum þau.

Eftir matinn brugðum við okkur á barinn í "einn drykk" og bauðst Styrmir til að græja það. Og á borðið komu sex líters könnur með kokteilum! Við gátum hreinlega ekki hætt að hlægja yfir stærðinni. Kokteillinn var fínn en það var aðeins eitt okkar sem náði að klára ;-)

Mynd
Marrakesh Gameplay 1
Mynd
Inventions: Evolution of Ideas Gameplay 1

Laugardagur

Laugardagurinn var töluvert rólegri hvað varðar að storma um sýningarsvæðið. Ég átti bókað í tvær sýnikennslur hjá Queen Games og Paul Grogan: Marrakesh og New York City, bæði alveg frábær spil. Eftir það rölti ég aðeins um svæðið, settist svo inn í opna salinn og kenndi After Us, sem ég hafði lært daginn áður. Og svo var komið að Inventions. Það tók góðan klukkutíma að setja upp og aðra fjóra að kenna og spila. En upplifunin var frábær, enda í góðra vina hópi.

Eftir spilunina hittumst við sem erum Patreon stuðningsfólk Paul Grogan og Paul sjálfur, hvar við kláruðum kvöldið yfir spjalli um áhugamálið. Það er búið að vera frábært að vera stuðningsmannseskja hjá honum og mér finnst ég klárlega vera að fá auranna minna virði fyrir að styðja við hann.

Mynd
Frosthaven Monsterbox
Mynd
Hilmar, Kjartan og Rannveig

Sunnudagur

Á sunnudeginum var lítið bókað, ég kláraði að renna yfir svæðið aftur, kom við í Folded Space básnum og keypti mér nokkrar innréttingar, kom við í LaserOx básnum og fékk mér skrímslabox fyrir Frosthaven, spjallaði aðeins meira við snillingana hjá Mindclash Games og hitti svo Styrmi yfir tveimur spilum. Hátíðin endaði hjá mer rétt fyrir fjögur, eftir langa spilatörn af Apex Legends. Hljóp út, greip mér Uber og fór og hitti Kjartan og Rannveigu í sveitasælunni í Kenilworth í Warwicksskíri. Þar borðuðum við góðan mat og drukkum góðan bjór. Það er sko klárlega toppurinn á frábærri helgi á UKGE.

Mynd
Suitcases from UKGE
Það safnast saman þegar keypt er!

Niðurlag

UKGE er ekki næstum því eins stór og Essen. Hún nær í mesta lagi að vera 1/3 af stærð Essen. En samt er æðislegt að fara þangað og skoða. Opna spilasvæðið er risastórt og svo er líka spilað mikið á Hilton hótelinu við hliðina. Ég hef bara aldrei farið þangað :-)

Það er ekki jafnmikið af nýjum spilum á UKGE eins og á Essen. En það er samt hellingur að skoða og það er hægt að fara og prófa spil sem enn eru í þróun. Ef þú hefur verið að velta því fyrir þér að fara, en ekki ennþá búin að láta verða af því, þá verður Borðspil.is með hópferð til Birmingham á næsta ári!