"Eitt á dag"

Skrifað af Hilmar Kári þann

Mán 27. feb 2023 til Sun 05. mar 2023

Fín vika þar sem ég náði "einu á dag", eða sjö spilunum á einni viku. Ég er með keppnina "Eitt á dag" í BG-Stats appinu og er rétt að halda í að hafa spilað eitt á dag frá áramótum, komnar 63 spilanir, 302 eftir á 300 dögum. Sjáum til hvernig það gengur að halda í það :-) 

Mynd
Great Western Trail: Argentina Gameplay

Great Western Trail: Argentina

4
1

Kom því aftur á borðið í síðustu viku, lúxus sem tekst nú ekki alltaf. Spilaði með tveimur mjög óvönum spilurum en það virtist ekki koma að sök. Allir skemmtu sér konunglega. Spilið er mjög þétt fjögurra manna. Það er lengra en venjulega, teygir sig í átt að þremur tímum en samt finnst mér ekki vera mikill biðtími á milli gera. Menn voru mikið í að aðstoða bændur og því var ekki mikið um að þeir væru að þvælast fyrir okkur á borðinu. Smá mistök við uppsetningu en ekkert sem skemmdi spilaupplifunina og við hlógum bara að klúðrinu. Ég mæli einstaklega með GWT: Argentina, þetta er spil upp á 9.5 hjá mér!

Mynd
Oranienburger Kanal - Box
Nýjasta spilið frá Uwe.

Oranienburger Kanal

1
2

Nýjasta spilið frá Uwe Rosenberg. Kom bara í síðustu viku, eftir að hafa þvælst yfir heimshöfin í tvær vikur. Oranienburger Kanal er skemmtilegt "púsluspil" fyrir einn eða tvo leikmenn. Hráefnin eru á skífu, ekki ósvipað Glass Roads og til að fá múrsteina og grjót (sem eru öðru megin á skífunni) þarf að snúa henni. Þá fækkar grunnhráefnum á meðan úrvalsvörum fjölgar. Leikmenn eru svo að kaupa sér byggingar og búa til leiðir úr leir og grjóti og byggja járnbrautir og síki. Þú þarft samt ekki að gefa neinum að éta, það eru engin dýr í þessu spili og heldur engar Tetris flísar! Uwe var greinilega fullur þegar hann hannaði það!

Þemað er ekkert, þetta er líklegast það þurrasta frá Uwe lengi. En skemmtilegt púsluspil engu að síður. Það fylgir mikið af byggingum og hægt að fá fjóra viðbótarstokka í viðbót, þannig að heildarfjöldi bygginga er kominn í 360, og þú notar innan við þrjátíu í hverju spili. Því muntu líklegast aldrei fá sömu byggingarnar upp aftur og fjölspilun nær endalaus. Ég gef þessu spili alveg 7.5, skemmtilegt púsl þó svo að mér finnist önnur Uwe spil betri.

Mynd
Rolling Realms

Rolling Realms

1
1

Í Covid hannaði Jamey Stegmeier hjá Stonmeyer Games skemmtilegt 'kasta-og-skrifa' spil sem tengt var spilum sem hann hafði sjálfur gefið út. Spilaðar eru þrjár umferðir og í hverri umferð eru dregin þrjú spil, t.d. Scythe, Viticulture og Wingspan. Síðan kastar þú tveimur teningum samtals níu sinnum og virkjar teningana í hverri umferð. Markmiðið er að safna stjörnum (a la Scythe) en það fer eftir því hvaða "spil" þú virkjar hvernig þér gengur að fá stjörnur.

Þetta er bara enn eitt "kasta-og-skrifa" spilið, en ég hef alveg gaman af þeim þegar þau hafa pínu þema eins og þetta. Alveg þétt sjöa og verður í safninu eitthvað áfram.

Mynd
Gloomhaven: Jaws of the Lion - Scenario 1
Smá spillir! Fyrsta borðið í Gloomhaven: Jaws of the Lion

Gloomhaven: Jaws of the Lion

3
2

Nú þegar Frosthaven er alveg að koma til landsins er ekki seinna vænna en að þjálfa nýja spilara í að spila það og ekkert spil betra til að kenna það en Jaws of the Lion. Ég spilaði með tveimur ungum frændum og voru þeir mjög spenntir að halda áfram. Fannst spilið frábært. Það lofar góðu, við ætlum að halda áfram í kvöld og næstu kvöld, vonandi náum við bara að komast töluvert inn í söguna á næstu tveimur vikum þannig að þegar ég er búinn að púsla saman innrettingunni fyrir Frosthaven og ganga frá því í kassann eru allir tilbúnir í næsta ævintýri.