Næstum því eitt spil á dag ...

Skrifað af admin þann

Mán 13. feb 2023 til Sun 19. feb 2023

Ég set mér það markmið á hverju ári að ná að spila "eitt spil á dag" eða kannski frekar 365 spilanir á einu ári. Sex spilanir í síðustu viku ná ekki alveg að fylla upp í það en ég á ennþá smá inni frá Spilavininni.

Mynd
Instanbul Box Content
Það er töluvert af dóti í kassanum :-)

Istanbul

2
1

Við Hildur höfum þá hefð á Valentínusardaginn að fara á deit í Spilavinum, fá okkur kvöldmat og spila. Fyrir valinu var Istanbul, perla sem ég hef ekki sett á borðið lengi.

Istanbul er verkamannaspil með breytilegri uppsetningu. Borðið er sett saman úr 4x4 flísum og hægt að setja þær upp annað hvort eftir einni af þremur uppsetningahugmyndum spilsins eða bara stokka þær og láta fjölbreytnina ráða. Leikmenn eru með verslunarmann og fjóra aðstoðarmenn og í hverju geri hreyfa þeir staflann sinn um einn eða tvo reiti. Á þeim reit annað hvort skilja þau eftir einn aðstoðarmann eða, ef aðstoðarmaður var fyrir á reitnum, taka þeir hann upp aftur. Leikurinn gengur út á að safna gimsteinum og fyrsti leikmaður upp í fimm (sex í tveggja manna leik) vinnur. 

Þetta spil er afbragð. Aðgerðir eru einfaldar og fljótar og spilið fljótspilað líka. Það er búið að vera lengi í safninu mínu og verður það um ókomna tíð. Ég á svo viðbæturnar líka en hef ekki fengið tækifæri til að spila með þeim ennþá. En það gerist einhverntíma.

Mynd
Root Gameplay
Root er gullfallegt á borði

Root

4
1

Mér gafst kostur á að spila Root í vikunni og ég greip hann fegins hendi. Root er eitt af þessum spilum sem er pínu yfirþyrmandi vegna ósamhverfunnar, en svo þegar það er komið á borðið þá er það miklu minna en man heldur. 

Ég spilaði Woodland Alliance og tókst að hafa sigur (ég hef reyndar bara unnið ef ég spila þau). Önnur lið voru Marquise de Cat, Eyrie Dynasty og Keepers of Iron úr Marauders viðbótinni. Síðan að spilunin fór fram hef ég verið að kynna mér Hierlings viðbótina og skoða hvernig önnur lið starfa. Ég hef mikinn hug á að setja spilið aftur á borðið mjög fljótlega til að festa enn betur reglurnar í minni.

Mynd
7 Wonders Duel Box Content

7 Wonders Duel

2
1

Eitt gamalt og gott var dregið fram sem lokaspilið á Nexus kvöldinu. Mér finnst alltaf gaman að spila þetta spil þó svo að andstæðingi mínum þyki það of random. Munurinn á þessu tveggja manna spili og stóra spilinu er að spilunum er raðað upp í píramída og er önnur hver röð á hvolfi þannig að erfiðara er að sjá út hvert skal halda (og veldur líka þessu random elementi). 

Ég hef spilað spilið sextán sinnum og fæ bara ekki nóg af því, ég vel það oftar en stóra bróður, þó svo að mér finnist það líka skemmtilegt.

Mynd
Freedom: The Underground Railroad - Gameplay

Freedom: The Underground Railroad

1
1

Þetta spil hefur reglulega dúkkað upp á Topp 10 listum The Dice Tower undir samvinnuspil og nú síðast á Bestu spil ársins 2013. Ég var svo heppinn að næla mér í notað eintak á síðasta Essen og kom því á borðið í síðustu viku, þó svo að ég hafi spilað spilið einn.

Þemað í spilinu eru þrælar í Ameríku rétt fyrir þrælastríðið. Það er samvinnuspil, leikmenn eru að vinna saman við að koma þrælum frá suðurríkjunum yfir til Kanada áður en þrælasalar og eftirlitsmenn ná að grípa þá. Dökkt þema en útfært af töluverðri virðingu. Og öl

Spilið er gott en þrælerfitt. Hægt er bæði að spila það á eðlilegri og erfiðri stillingu og ég skil nú ekki alveg hvernig það er yfir höfuð hægt. Þó grunar mig að það gæti verið betra tveggja til þriggja manna en solo. Jafnvel þó svo að það bætist við hversu mörgum þrælum þarf að bjarga við aukinn leikmannafjölda þá eru ákvarðanirnar líka aðeins fleiri með auknum leikmannafjölda. Ég hafði samt gaman af spiluninni og langar að prófa aftur með fleirum. 

Mynd
Mosaic Gameplay

Mosaic: A Story of Civilization

5
1

Önnur spilunin af Mosaic og engu síðri en sú fyrri. Mosaic er "Civ" spil í anda Civilization tölvuleikjanna. Þú ert að byggja upp þína þjóð, rannsaka tækni, byggja upp borgir og heri, skipta út ríkisstjórnum og reyna að fá sem flest stig til að vinna. Spilið er samt meira að safna settum en endilega að vera í bardögum við hinar þjóðirnar, en hluti stiganna kemur líka frá því að halda meirihluta á landssvæðum. Fjórir mismunandi spilastokkar eru í spilinu og í hverjum þeirra er stigaspil sem virkjar stigalotu og getur það gerst allt að þrisvar í spilinu. Þriðja stigalotan lýkur spilinu en einnig er hægt að ljúka því með því að tæma tvær af þremur stigaspilaröðum. 

Það er greinilegt að ég hafði aðeins forskot á hina spilarana við að hafa spilað spilið áður, þar sem ég mundi að það að safna saman táknum á spjöldunum. En þó hefði það vel geta brugðist til beggja vona, mér tókst bara fljótt að ná þeim spilum sem ég þurfti. 

Mér finnst spilið frábært enda elska ég Civ spil og tölvuleikina hérna áður fyrr. Spilunin tók þrjá tíma með fjórum nýjum leikmönnum en þar sem hver umferð er frekar hröð er ekki mikill biðtími á milli gera.

Mynd
AH LCG - Path to Carcosa

Arkham Horror: The Card Game - The Path To Carcosa - Curtain Call

4
1

Uppáhaldsspilið mitt undanfarin ár er Arkham Horror og ég held að það muni ekki breytast á næstunni (SPOILERS ;-) ). Spilið er samvinnuspil hvar leikmenn eru í hlutverki einkaspæjara að berjast við vætti úr öðrum víddum. Mikil saga er í spilinu og ef tekist er á við campaign eru venjulega spilaðar átta sögur sem allar límast saman.

Okkur gekk ekkert rosalega vel í byrjun og vorum við mikið bara að slökkva elda. Ég lék Nathaniel Cho, einn af forsmíðuðu stokkunum sem FFG gaf út og náði hann að sýna sitt rétta andlit eftir smá stund og gat barist hatrammlega við skrímslin. Fyrri sagan endaði á ypponi, við náðum sjö af sjö stigum og restin af spilafélögunum hélt rakleiðis í næstu sögu án mín, þar sem ég þurfti að fara í fjölskylduboð. Mér skilst að sú saga hafi ekki farið jafn vel :-) 

Það er svo margt við þetta spil sem tikkar í öll boxin hjá mér, bæði hvernig það spilast í hvert sinn en einnig bara hversu vel skrifaðar sögurnar eru. Ég er búin að spila það yfir fimmtíu sinnum og hef ekki ennþá einu sinni klárað allt efni sem til er nú þegar. Það mun því eiga greiða leið á borðið hjá mér um ókomna framtíð.