Tveggja vikna skammtur

Skrifað af Hilmar Kári þann

Mán 10. apr 2023 til Sun 23. apr 2023

Stundum rennur saman það að ég spila lítið í vikunni og að ég er jafnvel eitthvað á flandri og því næ ég ekki alveg að taka saman hvað ég spilaði eina vikuna. Hér kemur því tvöfaldur skammtur.

Mynd
The Castles of Burgundy - The Dice Game - Gameplay 1
Einfalt og þægilegt kaffihúsaspil

The Castles of Burgundy: The Dice Game

2
2

Eftir að ég hafði tekið eftir hvað Hillu fannst gaman að spila Three Sisters langaði mig að draga fram eitthvað annað einfalt kasta-og-krota spil og sjá hvort það væri frekar gangverkið eða þemað sem var að heilla hana. Og það er greinilegt að það er þemað :-) Þetta spil er fínt, það nær alveg kjarnanum úr mömmunni og tekur töluvert styttri tíma. En það er lítið sem ekkert þema í þessu spili, amk ekki eitthvað sem man sekkur sér í. Fínasta kaffihúsaspil, þvi þú kastar bara fimm teningum og allir vinna með þessa sömu fimm teninga. Ég held samt að ég muni alltaf kjósa mömmuna framyfir þetta spil ef ég gæti.

6/10

Mynd
Clank! Catacombs Gameplay 1
Borðið í Clank! Catacombs er síbreytilegt eftir spilunum sem klárlega eykur fjölspilun

Clank! Catacombs

4
1

Við renndum í eitt Clank! Catacombs á spilakvöldinu í Nexus. Það sem mér líkar mest við Clank! er hvað úrvalið á spilunum er mikið og hversu mikill fjölbreytileiki er í hvernig þau koma út. Það og svo að borðið er einstaklega breytilegt gerir það að verkum að kænskan þín þarf að taka sífelldum breytingum út spilið. Og það kom einmitt í ljós að þú þarft ekkert endilega að komast í mark til að vinna, þrír af okkur kláruðum á meðan Rúnar var enn fastur í dýflissunni, þó kominn uppúr hinu neðra. Hann lifði af heilan hring + drekaárás og fékk að gera sitt síðasta ger, og það var nóg til að fleyta honum í sigursætið. 

Öll Clank! spilin skora hátt hjá mér og er þetta spil sem stendur nr.2 af þeim, það er enn ekkert sem nær að toppa upplifunina á því að spila Clank! Legacy.

Mynd
Hostage Negotiator Gameplay 1
Mynd
Hostage Negotiator Gameplay 2
Það er merkilega mikið "oomph" í þessu spili og spennan í hámarki

Hostage Negotiator

1
2

Ég hef aðeins verið að reyna að spila spil solo með mismunandi árangri. Sérstaklega þykir mér vont ef ég þarf að halda utanum margar aðgerðir hjá mér og svo margar aðgerðir hjá einhvers konar gervigreind. Þess vegna henta sérhönnuð einmenningsspil mér svo miklu betur.

Hostage Negotiator er teningaspil þar sem þú ert að leika samningamann lögreglunnar og ert að semja við hryðjuverkamann. Þú notar spil til að "ræða" við hann og teninga til að ákvarða útkomuna. S.s. töluverð heppni í spilinu líka (eða random element). Spilin sem þú notar í einni umferð færðu svo ekki fyrr en í umferðinni á eftir þannig að stundum er þetta spurning um að raða höndinni rétt upp líka. 

Þetta er stórfínt spil og skrítið hvað ég beið lengi með það á hillunni án þess að prófa það. Gott að grípa í þegar engin annar hefur tíma til að spila.

7.5/10

Mynd
Frosthaven Gamplay
Uppstilling af byrjunarspilinu

Frosthaven

4
1

Við erum komin alveg ágætlega djúpt ofan í fyrsta kaflann í sögunni og í þessum kafla tókumst við á við annan "boss" óvin. Það sem okkur finnst merkilegt er að jafnvel þó við séum ekki alltaf að geta gert mikið af skaða í hverri umferð, stundum eru spilin okkar bara að gera 2-3 að þá hverfur stundum fjári hratt lífið úr óvin sem byrjar kannski með 80 líf. 

Sagan heldur áfram að vera áhugaverð og við hefðum klárlega rennt í annað ef Gógó hefði ekki verið að fara í flug kl 4 um morguninn.

10/10

Mynd
Castles of Burgundy - 20th Anniversary Gameplay 1
Mynd
Castles of Burgundy - Gameplay 1
Það er klárlega kominn smá litur í þessa útgáfu, umfram brúna litinn í upprunalegu útgáfunni.

The Castles of Burgundy (20th Anniversary)

2
1

Eftir að hafa spilað kasta-og-krota útgáfuna af CoB fannst mér tilvalið að rífa niður mömmuna af hillunni og rifja upp hvernig það er spilað. 

Spilið er mjög líkt mörgum Stefan Feld spilum: Stiga-salat! Þetta snýst allt um stig og gangverk, minna eða ekkert um þemað. Mér finnst spilið mjög fínt, enda svolítið bara verið að fá jafnvægi á heppnina (teningakastið) og kænskuna við að leggja flísarnar niður. Mér gekk mun verr en Hillu, hún vann mig með tíu stigum en ég sá alveg að henni fannst vanta að það væri eitthvað þema til að það væri "tilgangur" með spilinu (hún sagði það ekki, það eru mín orð). En mér finnst gaman að sjá hvernig upplifun annara á spilum er eins misjöfn og þau eru mörg. Henni finnst þemað skipta miklu máli, að henni líði smá "eins og hún sé að gera eitthvað", á meðan að í mörgum euro-spilum skiptir það mig minna máli. En svo hef ég líka áhuga á miklum sögudrifnum spilum, hvar þemað drýpur af hverju spili, en þá hefur hún kannski minni áhuga, sérstaklega ef það er einhvers konar ævintýraþema :-D Það er vandlifað í þessum heimi!

P.s. Tuttugu ára afmælisútgáfan er töluvert litríkari en upprunalegra spilið og því betri valkostur, auk þess sem allar smáviðbæturnar fylgdu með spilinu. En svo er Awaken Realms útgáfan að koma til mín fljótlega .....

7.5/10

Mynd
Perseverance: Castaway Chronicles - Episode 1 Gameplay 1
Mynd
Perseverance: Castaway Chronicles - Episode 1 Gameplay 3
Kickstarter útgáfan kemur með plastmódelum í stað "standees"

Perseverance: Castaway Chronicles - Episode 1

2
1

Hér er einn Kickstarter sem búinn er að sitja á hillunni hjá mér í meira en ár. Risastór kassi sem ég hef lengi horft á en aldrei treyst mér til að rífa niður ... fyrr en á laugardagsmorgun. Vaknaði snemma, sótti kassann, stillti upp fyrir tveggja manna leik og undirbjó mig undir að læra. Hafði svo samband við nokkra úr spilahópnum en var svosem ekkert endilega að fara að spila þetta spil. En viti menn, aðeins Gunnar Karl hafði tíma akkúrat þá og hann var alveg tilbúinn í að koma og læra með mér.

Gangverkin í spilinu eru að megninu til tvö: Verndum turninn og verkamannagangverk. Í hverju geri velur leikmaður sér einn tening úr safni teninga, sumir eru hlutlausir en aðrir eru í lit leikmanna. Síðan velur þú þér svæði á borðinu og framkvæmir aðgerðina sem hún segir til um. Stundum mega hvaða teningar sem er fara á svæðin, stundum þarf að vera ákveðin hlið á teningnum. En þú getur breytt ef þú átt söguflís til að spila út. Hvaða teningaaðgerð sem þú velur mun alltaf kalla fram athygli risaeðla sem færast nær og nær búðunum þínum, þannig að þú þarft að passa upp á að byggja varnir oþh. sem er sá hluti sem snýr að Verndum turninn gangverkinu. Í tveggja manna spili eru tvær umferðir, fyrst með 13 gerum og svo með 15. Á milli umferða er stigaumferð þar sem leikmenn fá stig eftir svæðisstjórnunar-stigaaðferð.

Spilið er langt, nær alveg þremur tímum. Samt fannst mér ekkert sérstaklega að það væri að staldra of lengi á borðinu. Þetta er eurospil eins og þau gerast stærst: Fullt af svæðum til að setja verkamenn á, fullt af allskonar út um allt. Við GK vorum sammála um að sérstaklega einn hluti af spilinu, það sem snýr að því að hafa áhrif á fjóra stjórnendur sé ofaukið, en mögulega vorum við ekki að sjá áhrifin nægjanlega vel. 

Gott spil, ég mun spila það aftur og ég er búinn að lesa reglurnar fyrir Episode 2.

7.5/10

Mynd
Three Sisters gameplay

Three Sisters

3
1

Við kenndum GK Three sisters og er það í fyrsta sinn sem við spilum það með fleiri en tveimur leikmönnum. Spilið er algjört combo-salat og því getur orðið smá niðritími í því á meðan hinir eru að gera, sérstaklega þegar þú ert að læra og byrjar að átta þig á öllum samsetningunum sem koma upp. Ávalt prýðisspil.

7.5/10

Mynd
Mechs vs Minions Gameplay 1
Mynd
Mechs vs Minions Gameplay 2
Mynd
Mechs vs Minions Gameplay 3
Það er klárt mál að framleiðslugildi þessa spils var sett í 11 strax í byrjun

Mechs vs. Minions

3
4

Ég er búinn að eiga þetta spil í meira en ár upp í hillu, eignaðist það eftir notaða markaðinn í Spilavinum í fyrra en hef aldrei haft fyrir því að læra það. Sem er synd því spilið kennir sig sjálft! Þú byrjar með algjöra byrjunaruppstillingu og fyrstu skrefin er bara að læra að hreyfa kallana. Síðan fara minions að birtast og þú lærir hvernig þú berst við þau. Og svo ertu kýlt í andlitið! 

Gangverkið er forritun. Fimm spil eru sett fyrir framan leikmenn og á einni mínútu þurfa þeir að velja sér eitt spil hver þangað til fjögur hafa verið valin. Ef tíminn rennur út færðu bara eitt af handahófi! Síðan setur þú spilið niður í keyrsluröðina og að lokum er forritið þitt keyrt frá vinstri til hægri. En það geta komið upp bilanir sem skemma eina röðina og í staðinn fyrir súper-flotta "færa-þrjá-áfram-og-drepa-allt-í-kringum-mig" veldur "bilunin" því að þú snýrð þér í 180 gráður! Ekki alveg það sem þú vildir :-) 

Við skemmtum okkur stórkostlega við spilunina, hver leikur er frekar hraður, nóg að gera og skósveinar spretta upp um allar trissur eins og gorkúlur. Ég fékk smá Gloomhaven/Frosthaven uppljómun þegar ég fattaði að jafnvel þó allt sýnist svart er leikurinn ekki búinn fyrr en hann er búinn því snefill af heppni fylgir með. Við spiluðum í gegnum fyrstu þrjá kaflana, töpuðum þriðja kafla einu sinni og unnum svo. Og öll vorum við tilbúin að spila það aftur fljótlega! 

8/10