Topp 100 listi Hilmars (2022) - 30-21

Talsvert um jákvæðar hreyfingar í þessum hluta, sjö spil færa sig upp, þar af tvö all hressilega, eitt splunkunýtt og tvö færa sig örlítið niður listann. Það er greinilegt að efstu sætin eru ekki á eins mikilli hreyfingu og hin.

# 30
Mynd
Raiders of the North Sea
Mynd
Raiders of the North Sea Playmat

Raiders of the North Sea

2021: # 41

Raiders of the North Sea gerirst um miðbik víkingaaldarinnar. Sem víkingur þarftu að ganga í augun á höfðingjunum með því að ræna grunlausar byggðir. Til þess að geta gert það þurfa leikmenn að setja saman áhöfn, safna vistum og ferðast norður til að ræna gull, járn og búfénað. Frægð og frama er hægt að öðlast í bardögum, jafnvel þó svo að þeir endi í höndum valkyrja. Stríðsmenn safnist saman, því nú skal rænt!

Til að ganga í augun á höfðingnum þarf að ná stigum sem nást aðallega með því að ráðast á byggðir, rupla og ræna og færa fórnir til höfðingjana. Hvernig þú notar ránsfenginn getur líka haft áhrif á sigurgöngu þína.

Gangverkið í spilinu er verkamannagangverkið. Leikmenn setja verkamann niður í þorpið og framkvæma aðgerðina á reitnum. Síðan taka þeir annan verkamann af spilaborðinu og framkvæma þá aðgerð líka, sem var í eitt af fyrstu skiptum sem slíkt var reynt. Mér finnst alltaf jafn áhugavert hvað Shem Philips tekst að taka gangverk sem er vel þekkt og mikið notað og gert eitthvað alveg nýtt við það. Spilið er ágætt í grunninn en verður miklu betra þegar viðbæturnar eru komnar við það. Og ekki skemmir fyrir að eiga fallega spilamottu ...

# 29
Mynd
Western Legends
Mynd
Western Legends Playmat

Western Legends

2021: # 33

Western Legends er sandkassaspil í opnum heimi, gert fyrir 2-6 leikmenn og er sögusviðið hið willta westur. Leikmenn bregða sér í hlutverk sögupersóna frá því tímabili þar sem allir eru að næla sér í frægð og frama á margvíslega vegu. Fjárhættuspil, smala búfénaði, leita að gulli, ræna bankann, berjast við bófa og ræningja, koma þeim í hendur á fógeta, verða útlagar, halda friðinn ... möguleikarnir eru nær endalausir.

Sandkassaspil, opinn heimur. Þessi tvö orð. Fá mig að borðinu strax. Það er eitthvað svo heillandi að meiga bara gera það sem mig langar. Vil ég bara leita að gulli og setja í bankann? Fínt. Vil ég vera hinn löghlýðni borgari sem alltaf eltir bófana? Frábært. Vil ég handtaka fullt af ræningjum, henda þeim í steininn, fá fullt af stigum og ræna svo bankann? Ok! Það eru næstum engin takmörk á því hvað hægt er að gera. Og með viðbótunum verður spilið bara enn fjölbreyttara. Sumar minni viðbæturnar bættu við fleiri persónum til að spila en önnur af stærri viðbótunum bætti við auka svæði til að vinna með, fleiri hlutum til að kaupa, öðru spili til að spila (skrítnari tegund af póker) og leið til að ræna lestina.

Spilamottan sem ég á við spilið er alveg rosalega stór og spilið tekur hrikalega mikið pláss á borði. En þegar allt er komið á borðið lítur það alveg rosalega vel út :-)

# 28
Mynd
Twilight Imperium: Fourth Edition

Twilight Imperium: Fourth Edition

2021: # 16

Twilight Imperium (fjórða útgáfa) er leikur landvinninga á vetrarbrautum, hvar þrír til sex leikmenn (átta með viðbótinni) taka að sér hlutverk einnar af sautján (tuttugu og fimm með viðbótinni) fylkingum til að berjast um algeimsyfirráð í gegnum hernaðarstyrk, pólitískar refskákir og efnahagslegar þvinganir. Hver fylking býður upp á algerlega ólíka spilaupplifun, allt frá ormaholu-hoppandi Ghosts of Creuss til meistara efnahags og viðskipta í Emirates of Hacan. Allar tuttugu og fimm fylkingarnar bjóða upp á margar leiðir til sigurs þó aðeins ein fylking geti setið í hásæti Mecatol Rex sem hinn nýji konungur vetrarbrautarinnar.

Engar tvær spilanir af Twilight Imperium eru eins. Í hverri spilun er spilaborðið sett upp á nýjan hátt með fimmtíu og einni flís sem geta verið allt frá gróskumiklum plánetum og sprengistjörnum til smástirnasviða og bjagaðra þyngdaraflssviða. Leikmenn fá nokkrar slíkar flísar í upphafi og svo, einn í einu setja þau niður flísarnar til að búa til vetrarbrautina í kringum Mecatol Rex, höfuðplánetuna í miðju borðsins. Jónastormur gæti blokkað fylkinguna þína frá því að geta komist á milli staða á meðan að þyngdaraflssvið gæti varið þig gegn óvinum þínum. Algeimurinn er þinn til að sigra!

Ég hræddist mjög að spila þetta spil í fyrsta sinn vegna þess að eins og svo margir hélt ég að spilið væri hreint hernaðarspil. Að þetta væru eintómir geimbardagar og að eina leiðin til sigurs væri að vera mjög aggressívur spilari (sem ég er ekki). En spilið býður upp á svo mikið meira. Auðvitað þarftu að byggja upp her til þess að verja þig en það er lítill möguleiki á sigri ef þú ert í stöðugum bardögum. Í raun er oft vænlegast að halda sig til hlés, rannsaka pínulítið í kringum sig og byggja upp pólitíska framtíð sína. Spilið vinnst á stigum og þau fást með að klára stigaspilin sem koma fram eitt í hverri umferð. Ég er búinn að spila spilið sex sinnum og í hvert sinn verð ég orðlaus yfir hversu rosalega vel hannað það er. Þó það taki langan tíma, 6-8 klst er ekkert óeðlilegt, er samt ekki mikill niðritími í því, nema kannski helst ef tvær stórar fylkingar fara í stríð. Þetta er dagur sem ég er alltaf til í að verja tíma í.

# 27
Mynd
Underwater Cities

Underwater Cities

2021: # 105

Í Underwater Cities taka leikmenn að sér hlutverk mestu vísindamanna heims, fólk sem hefur verið valið vegna þess að jörðin er orðin yfirfull og það þurfti að koma á fót svæði undir yfirborði sjávar til að geta búið á.

Aðalgangverk spilsins er að spila út spilum. Þrír litir eru á endum spilaborðsins, hver með fimm stöðum til að spila út spili, sem um leið getur verið í einum af þessum þremur litum. Best er ef þú getur spilað út sama lit á sama stað því þá færðu bæði aðgerðina á reitnum og kosti spilsins. Með þeim getur þu fengið hráefni, byggt upp og uppfært borgina, hvelfingar, göng og framleiðslubyggingar eins og búgarða, afsöltunartæki og rannsóknarstofur. 

Hér er enn eitt meistaraverkið frá meistara Suchý. Hvernig hann lætur gangverkið flæða er alveg frábært og það er hellings þema í spilinu líka, þó svon mani finnist man kannski ekki vera ofan í sjónum, þá finnst mani man vera leggja sitt af mörkum til mannkynsins. Risastór bunki af spilum gerir fjölspilun þannig að ég man aldrei hvaða spil eru í stokknum og því veitir spilið endalausa ánægju. Töluvert stökk hér, frá 105 í 27, málið er að ég er alltaf að meta þessa snilld betur og betur.

# 26
Mynd
Legendary: A James Bond Deck Building Game
Mynd
Legendary: A James Bond Deck Building Game

Legendary: A James Bond Deck Building Game

2021: # 37

Í Legendary: James Bond 007 taka einn til fimm leikmenn að sér að spila í gegnum eina af fjölmörgum klassískum Bond myndum. Í grunnspilinu eru Goldfinger, The Man With the Golden Gun, Golden Eye og Casino Royale. Tvær viðbætur hafa svo bætt við þremur myndum í viðbót: On Her Majesty's Secret Service, License to Kill og The Spy Who Loved Me. Nærðu að brjóta á bak aftur Operation: Grand Slam og koma í veg fyrir að Goldfinger eitri gullbirgðir Bandaríkjanna? Hefur þú stáltaugarnar sem þarf til að vinna Le Chriffre í póker í Casino Royale? Í þessu spili eru leikmenn með völdin. Örlög heimsins eru á þínu valdi. Þú getur barist við óvinina ein eða í samvinnu við vini þína. Sigraðu hin illu ofurmenni þar sem þau reyna að ná yfirráðum með skósveinum sínum og komdu í veg fyrir heimsyfirráð þeirra!

Spilið er í grunninn stokkasmiður. Það sem gerir spilið ólíkt mörgum öðrum (nema þá auðvitað öllum hinum 100 Legendary spilum) er að þú ert bæði að berjast við vonda kallinn og skósveina hans, en þeir safnast upp á ákveðinni braut. Ef þú nærð ekki að berjast við þá og hreinsa brautina geta þeir sloppið og byggt undir að hinn illi snillingur nái yfirráðum. Það er hægt að spila það sem keppnisspil en langflestir velja að spila það sem hreint samvinnuspil.

Þemað lekur alveg af þessu spili. Hver mynd er vel uppsett, skósveinarnir eru úr hverri mynd (Jaws er t.d. í The Spy Who Loved Me) og allt gerist frekar þematískt. Þetta er eina Lengendary spilið sem hefur náð að fanga mig svona rosalega. Legendary spilið sjálft er alveg ágætt en Marvel sagnaheimurinn stendur mér ekki mjög nærri. En ég ólst upp við James Bond myndirnar og mér finnst að Upper Deck hafi tekist vel til með að búa til þetta spil.

# 25
Mynd
Last Will

Last Will

2021: # 100

Í nýjustu erfðaskránni sinni tiltekur hinn forríki frændi þinn að allur auður hans muni renna til þess frænda eða frænku sem best kann að lifa lífinu lifandi. Og hvernig er hægt að finna það út? Jú með því að gefa þeim öllum fúlgur fjár og sá sem getur eytt öllum peningunum fyrst mun erfa kallinn. Farðu á dýrustu leiksýningarnar eða borðaðu á flottustu veitingahúsunum. Keyptu gamla hjalla á verði nýrra húsa, legðu þau í rúst og seldu fyrir slikk. Haltu risaveislur þar sem engu er til sparað. Eyddu peningum eins og enginn væri morgundagurinn, eyddu til að verða rík!  Ef þú ert fyrst til að klára allan peninginn muntu erfa frænda - og já, vinna spilið!.

Last Will minnir óneitanlega á bíómyndina Brewstes Millions með Richard Prior í aðalhlutverki en hún kom út á níunda áratugnum. Gangverkið er mjög áhugavert þar sem þú ert að reyna að losna við peninga í staðinn fyrir að eignast þá. Áhugaverðir klækir eins og að lækka enn frekar virði fasteignanna þinna um leið og þú hækkar verðið hjá mótspilurunum þínum. Þú getur boðið hundinum þínum eða hestinum þínum út að borða.... hellingur af skemmtilegum bröndurum er falinn í spilinu. 

Gangverkið er í raun verkamannagangverk með spilum sem þú spilar niður og virkjar. Einstaklega skemmtilegt spil sem hefur oft flogið undir radarinn. Systurspilið Prodigals Club er líka áhugavert þó svo að það hafi ekki náð inn á þennan lista núna. Og það er hægt að spila þau saman! Suchý enn og aftur með snilldarspil. (Og já, Styrmir í PvB hefur KOLRANGT fyrir sér með að þetta spil sé vonbrigði!)

# 24
Mynd
Sleeping Gods

Sleeping Gods

2021: # 7

"Eru stjörnurnar ókunnugar hér?" spurði hún og himinninn varð skyndilega dökkur og stjörnumerkin urðu óþekkjanleg og framandi. "Þetta er Flökkusjór. Guðirnir náðu í þig til að koma hingað og þú þarft að vekja þá ef þú vilt komast heim."

Í Sleeping Gods taka þú og allt að þrír vinir að sér hlutverk Sofi Odessa skipstjóra og áhafnar hennar, en þau eru týnd í skringilegum heimi árið 1929 á gufuskipinu The Manticore. Þið þurfið að vinna saman til að lifa af, kanna framandi eyjar, hitta nýjar persónur og leita að bindum guðanna svo þið getið haldið aftur heim. 

Sleeping Gods er herferðarleikur. Hver lota getur tekið eins lengi og þið viljið. Um leið og þið eruð tilbúin til að taka pásu frá leiknum er hægt að skrá niður í dagbókina hvar þið eruð og ganga frá spilinu. Þú getur spilað ein eða með vinum í gegnum herferðina. Það er auðvelt að skipta leikmönnum inn og út. Lokatakmarkið er að finna fjórtán bindi, risastórar bækur um heiminn. Eins og þegar þú lest bók getur þú lokið hverri sögu á einum til tveimur klst hverri þar sem þú finnur ný lönd, nýjar sögur og nýjar áskoranir í hvert sinn.

Sleeping Gods er atlas leikur. Hver síða í atlasinum er aðeins smá hluti af veröldinni sem þú ert að kanna. Þegar þú ferð útaf síðunni og vilt kanna hvað er handan hennar fletiir þú bara upp nýrri síðu og heldur áfram. Spilið er líka sögudrifið. Hver staður inniheldur villt ævintýri, falda fjársjóði og einstakar persónur. Það sem þú velur að gera hefur áhrif á framvindu spilsins og gæti hjálpað til eða jafnvel hindrað þig í að komast heim!

Ég er mikill Ryan Laukart aðdáandi og Sleeping Gods olli engum vonbrigðum. Sagan er meistaralega vel skrifuð og fléttast vel við spilunina á spilinu. Öll list í spilinu er algjörlega á öðrum stalli og Ryan virðist vart vera af þessum heimi þegar litið er til hæfileika hans. Ég spila spilið venjulega einn, mestalagi með einum öðrum þar sem of margir leikmenn virðast draga spilið niður í endalausan tíma auk þess sem mér finnst erfiðara að berjast ef það eru of margir leikmenn. Spilið stökk beint í sjöunda sæti hjá mér og er aðeins að dala, en það er held ég bara vegna þess að ég hef ekki spilað það mikið upp á síðkastið. Lendi það aftur á borðinu fljótlega mun það líklegast skríða upp aftur.

# 23
Mynd
Vindication

Vindication

2021: # 52

Eftir að hafa verið kastað fyrir borð og úrskurðuð til eilífs eymdarlífs skolar þér á land fjandsamlegrar eyjar. Þú þarft að finna þér fylgdarlið, skrítna fjársjóði, byggja upp karaktereinkenni og berjast við skrímsli til að næla þér í stig - og vinna aftur heiðurinn sem þú einusinni hafðir.

Í hverju geri færðu þrjár aðgerðir og máttu gera þér í þeirri röð sem þú telur best henta þér: Virkja fylgdarlið, ferðast á nýjan stað og virkja kortaflís. Margar aðgerðanna krefjast þess að þú þurfir að nota áhrif þín til að bæta við styrkleika í gegnum einstakt gullgerðarkerfi sem er svo beintengt stigaskorun spilsins. Það eru nokkrar leiðir til að enda spilið, 72 mismunandi leiðir á spilum sem hægt er að bræða saman á óvenjulegan hátt til að búa til ofursamsetningar og þar að auki er spilaborðið aldrei eins!

Kassinn á þessu spili gefur ekki beint til kynna hvað þú ert að fara að spila. Jafnvel heldur þú að þú sért að fara að spila eitthvað svakalegt bardagaspil. En nei, þú ert bara að spila hefðbundið Euro spil með skemmtilegu þema. Eins og í lysingunni hér fyrir ofan ertu að færa þig á milli staða, ná í áhrif og reyna að byggja þig upp aftur í þá stöðu sem þú eitt sinn hafðir. Ef það tekst ertu ekki lengur skíthællinn sem þú varðst orðinn. Ég er alveg hræðilegur í þessu spili en það er eitthvað sem dregur mig að spilaborðinu í hvert sinn ... eins og töfrar.

# 22
Mynd
Wayfarers of the South Tigris
Mynd
Wayfarers of the South Tigris

Wayfarers of the South Tigris

Nýtt á lista

Sögusvið Wayfarers of the South Tigris er hátindur Abbasid kalífadæmisins, circa 820 eftir krist. Sem hugrakkir landkönnuðir, kortagerðarmenn og stjörnufræðingar leggja leikmenn af stað frá Bagdad til að kortleggja landið í kring, vatnaleiðir og himininn fyrir ofan sig. Spilarar verða að stjórna flokki verkamanna og búnaði vandlega á sama tíma og þeir tilkynna reglulega til að skrá niðurstöður sínar í House of Wisdom. Mun þér takast að heilla kalífann, eða týnast í eyðimörkinni?

Markmiðið er að hafa safnað flestum stigum í enda leiksins. Stigin færðu að mestu leiti með því að kortleggja land, haf og himinninn. Leikmenn fá einnig stig fyrir að uppfæra flokkinn, fá innblástur frá aðalsmönnum og með því að hafa áhrif á hin þrjú gildi vísinda, verslunar og könnunar. Um leið og þeir öðlast uppgötvanir munu leikmenn vilja skrá þær niður í dagbókina. Spilið endar um leið og einn leikmaður hefur lokið við skráningar í dagbókina.

Enn eitt Shem/Sam spilið og það efsta á þessum lista. Kannski er það nýjabrumið, kannksi er það bara vegna þess að spilið er algjörlega frábært og kemur með nýja sýn á hvernig hægt er að nota teninga í spilum. Hvort sem heldur er spila ég þetta spil oft og hlakka til að prófa næstu spil í þessum þríleik. Jafnvel í þriðja þríleik og sjöunda spilinu í seríunni eru þeir að gera eitthvað nýtt, það er einstaklega virðingarvert.

# 21
Mynd
Charterstone

Charterstone

2021: # 72

Hið velmegandi konungsríki Greengully sem ríkti um aldir alda undir stjórn Elífðarkonungs hefur fyrirskipað þegnum sínum að nema land fjarri landamærum þeirra. Í viðleitninni við að stofna nýtt þorp hefur Elífðarkonungur valið sex þegna sína hvar hver og einn þeirra hefur sérstaka hæfileika til að byggja sinn hluta.

Í Charterstone, sem er samkeppnis-legacy spil ertu að byggja byggingar í sameiginlegu þorpi. Límmiðar með byggingum er bætt á spilaboðið og breytist það þar með varanlega. Límmiðarnir eru s.s. aðgerðarreitir sem hvaða leikmaður sem er getur notað. Þú byrjar með fáeina verkamenn og örfáa aðgerðarstaði en eftir nokkrar spilanir verður þorpið með ótalmörgum reitum og valkostirnir fjölmargir. Þegar spilun er lokið verður spilaborðið þitt alveg einstakt, ólíkt öllum öðrum, en samt verður hægt að spila spilið eftir að legacy hlutanum er lokið.

Ég er bæði mikið fyrir verkamannaspil og legacy spil. Spilunin á Charterstone er bæði einstaklega skemmtileg og sagan alveg áhugaverð þó hún sé ekkert sérstaklega djúp. Ég skemmti mér konunglega í bæði skiptin sem ég hef hafið spilun og einhverntíma mun mér takast að klára fulla spilun á spilinu.