Topp 100 listi Hilmars (2022) - 40-31

Fimm niður, fjögur upp, tveir hástökkvarar og eitt nýtt einkennir þennan skammt. Ekki tókst mér nú að klára listann fyrir páska, en við sjáum til hvernig gengur núna.

# 40
Mynd
Clans of Calendonia

Clans of Caledonia

2021: # 64

Clans of Caledonia er miðlungs-til-þungt efnahafsspil sem gerist í Skotlandi á nítjándu öld. Á þessum tíma voru Skotar að færa sig frá landbúnaði yfir í iðnbyltinguna sem byggði að mestu leiti á verslun og útflutningi. Næstu ár á eftir jókst matarframleiðsla mikið til að halda í við fólksfjölgun. Líni var mikið til skipt út fyrir mun ódýrari efni, bómul og það að rækta sauðfé var í forgangi. Fleiri og fleiri bruggverksmiðjur voru stofnaðar og viskí varð hinn mikli mjöður í Evrópu. 

Leikmenn taka að sér að leika sagnfræðilegar fjölskyldur, hverja með einstökum hæfileikum og keppast við að framleiða, versla með og flytja út landbúnaðarvörur og auðvitað viskí! Leikurinn endar eftir fimm umferðir.

Þetta spil er svolítið mikið öðruvísi en mörg önnur landbúnaðarspil. Markaðurinn er áhugaverður þar sem þú selur x vörur á y verði, en svo lækkar verðið um x á eftir, þannig að það getur verið gott að selja mikið þegar verðið er hátt og lækk svo verðið fyrir andstæðinginn. Það er komið svolítið síðan að ég spilaði það síðast, en þegar ég var að flokka listann kom það oftar og oftar fyrir að mig langaði að spila þetta spil framyfir mörg önnur. Sem kom því alla leið í fertugasta sæti!

# 39
Mynd
Fields of Arle

Fields of Arle

2021: # 71

Í Fields of Arle eftir meistara Uwe eru einn eða tveir leikmenn að spila bændur í smábænum Arle í Austur-Frísíu. Hörinn sem vex á svæðunum umhverfis þorpið gerir það að verkum að þar er farsælt að búa og lifa. Spilið er spilað yfir fjögur og hálft ár á þessum farsældartímum þar sem valkostirnir breytast eftir árstíðum. Ræktaðu landið til að geta hagnast sem mest á hörframleiðslunnu eða finndu aðra leið til að auka á vegsæld þorpsins.

Hvort sem þú dvelur við hörræktun eða leitar annara leiða þarftu alltaf að gæta þess að hafa nóg land til að byggja upp þorpið. Með því að grafa skurði nærðu að þurrka upp landsvæði og byggja upp akra. Þurrkaðu uppgröftinn til að búa til mó og hreinsaðu upp landið til ræktunnar, eða til að byggja upp búpeninginn ... já eða höggva niður skóga fyrir timbur.

Ég er mikill Uwe áhugamanneskja, svo mikil að það eru enn tvö spil sem eiga eftir að birtast ofar á listanum. Spilið var lengi ófáanlegt og því var gaman þegar ég fékk fyrst að spila það með honum Sigga Nonna fyrir nokkrum misserum. Í framhaldinu nældi ég mér í eintak og hef spilað það nokkrum sinnum eftir það. Ekki verra að spilið er bara tveggja manna (þriggja með viðbótinni, sem ég á eftir að prófa). Ég er að vonast til að kippa Hildi betur á Uwe vagninn, þá getum við spilað þetta spil oft og lengi.

# 38
Mynd
Nemesis

Nemesis / Nemesis: Lockdown

2021: # 17

Þegar þú spilar Nemesis hverfur þú beint í hjartað á vísindaskáldsögu- lífsbaráttuna með öllum sínum hryllingi. Hermaður skýtur í blindni eftir dimmum gangi til að hefta framgang geimveranna. Vísindafólk keppist við að finna lausn á tímabundinni rannsóknarstofu. Svikari stelur síðustu flóttaflauginni á síðustu stundu. Boðflennurnar sem þú hittir á skipinu eru ekki bara að bregðast við hljóðum heldur eru þær einnig að þróast eftir því sem tíminn líður. Því lengur sem leikurinn stendur því sterkari verða þær. Í spilinu tekur þú að þér að stjórna einum af áhafnarmeðlimum skipsins og er hver þeirra með einstaka hæfileika, persónulega spilabunka og hver þeirra byrjar með sitt sérstaka vopn. Þessar hetjur spanna flest allt sem vísindaskáldsöguhryllingur nær yfir. Til dæmis er vísindamaðurinn góður með tölvur og rannsóknir en á pínu erfitt í bardaga. Hermaðurinn aftur á móti ...

Nemesis er samvinnuspil, en aðeins að hálfu leiti (semi-cooperative), þar sem þú og aðrir áhafnarmeðlimur verða að lifa af á skipi sem er útsett með fjandsamlegum lífverum. Til að vinna spilið þarftu að klára annað af tveimur markmiðum sem þú færð í upphafi spils og að komast aftur til jarðar í heilu lagi. Þú munt rekast á margar hindranir á leiðinni, brjálaðar lífverur, lélegt ástand skipsins, markmið annara leikmanna og jafnvel bara grimmra örlaga.

Ég var og er ekki mikið fyrir vísindaskáldsögur. Aliens (sem þetta spil er klárlega byggt á) hef ég aldrei séð til enda. En það var samt eitthvað sem greip mig þegar ég spilaði það fyrst. Mér finnst skemmtilegra að spila það algerlega sem samvinnuspil eða bara sem einmenningsspil, en þó spila ég það líka sem semi-coop ef ekki er annað í boði. Það er oft skemmtilegt að halda spennunni í gangi um hver er mögulega svikarinn um borð. Ég hef spilað bæði spilin nokkrum sinnum (það er ekki mikill munur í grunninn) og alltaf hefur spilunin hangið á lyginni einni saman, hvort sem heldur að man vinni eða tapi. Og þar sem þau eru það lík ákvað ég að setja þau saman hér á listann.

# 37
Mynd
Harry Potter: Hogwarts Battle

Harry Potter: Hogwarts Battle

2021: # 49

Hin kröftu öfl illskunar eru að hóta því að taka yfir Hogwartskastala í Harry Potter: Hogwarts Battle, sem er samvinnu-stokkasmiður fyrir allt að fjóra spilara sem þurfa að tryggja öryggi skólans með því að berjast við óvini og þétta varnir sínar. Í spilinu taka leikmenn að sér hlutverk eins nemanda úr Hogwarts: Harry, Ron, Hermione eða Neville sem hvert hvert um sig hefur sinn eigin stokk til að eignast fleiri auðlindir.

Um leið og þú færð meiri áhrif geta leikmenn bætt fleiri spilum í stokkinn, sem geta verið táknrænar persónur úr myndunum, galdrar og töfrahlutir. Önnur spil hjálpa til við að ná aftur heilsu eða til að berjast við illmennin og koma í veg fyrir að þau nái að styrkjast. Illmennin skemma fyrir leikmönnum með árásum og svartagöldrum. Einungis með samvinnu geta leikmenn varist illmennunum og tryggt öryggi Hogwarts kastala.

Stokkasmiðir eru í miklu uppáhaldi og ekki skemmir nú þemað fyrir. Ég hef alltaf haft gaman af sögunum um Harry Potter, jafnvel þó svo að þær byrjuðu ekki að koma út fyrr en eftir að ég fullorðnaðist. Þetta spil nær að fanga vel stemminguna í myndunum og sauma það saman við gangverkið sem stokkasmiðir bjóða upp á. Ég vel þetta mjög oft sem afmælis/fermingargjafir þegar einstaklingarnir hafa áhuga á sögunum, því með því er auðvelt að draga þau inn í leyndardóma borðspilanna.

# 36
Mynd
Pret-a-Porter

Prêt-à-Porter

2021: # 31

Prêt-à-Porter er efnahagskænskuleikur sem gerist í heimi tískunnar. Leikmenn eru að reka fataverksmiðjur og berjast um yfirráð á tískusýningum. Í spilinu opona leikmenn útibú, ráða til sín verkafólk og reyna að læra nýja hæfni. Nýjar hönnunarstofur og verslanir eru opnaðar, ráðin eru endurskoðendur, módel og hönnuðir. Ábótasamir samningar eru undirritaðir til að ná í skjótfenginn hagnað til að nýta í útvíkkun fyrirtækisins. Í hverjum einasta mánuði fá fyrirtæki leikmanna nýja hæfileika.

Á hverjum ársfjórðungi eru tískusýningar. Leikmenn þurfa að undirbúa safn af fötum og sýna á tískusýningunum. Almenningur, fjölmiðlar og sérfræðingar meta hverja línu fyrir sig í fjórum flokkum og gefa verðlaun og viðurkenningar. Því fleiri verðlaun (stjörnur) sem þú færð, því meiri peninga færðu fyrir að selja vörulínurnar!

Þegar ég prófaði þetta spil fyrst var ég alveg pínu efins um hvort þemað myndi ná mér. En samt þurfti svosem ekki mikið að tala mig til við að spila það. Og það fangaði mig nær alveg frá byrjun. Spilið er langt og flókið en samt er eitthvað sem nær að halda athyglinni allan tímann. Það er fullt að gerast og það þarf að halda mörgum boltum á lofti. En hönnuðinum tekst samt að binda saman þemað við gangverkið og gera úr því þetta snilldarspil.

# 35
Mynd
Kanban EV

Kanbahn EV

Nýtt á lista

Rafmagnsbílar hafa orðið síalgengari síðan árið 2014 og eru framtíð bílaiðnaðarins. Þeir eru í alla staði betri: Skilvirkari, auðveldari í viðhaldi, hreinni og ódýrari í rekstri. Þeir eru í raun bara vélar með tölvu sem nota gervigreind til að auka öryggi og í framtíðinni geta þeir orðið sjálfkeyrandi. Þeir fá hugbúnaðaruppfærslur á lífsleiðinni og eru í stöðugri þróun, ólíkt sprengivélinni sem verður í raun úrelt um leið og þú ferð að nota hana.

Í spilinu ertu að fylgjast með framleiðslu þessara bifreiða, en Kanban er nafnið á skipulagskerfinu sem knýr skilvirkar samsetningalínur, framleiðslu og slétt verkflæði. Leikmenn taka að sér hlutverk nýrra starfsmanna sem eru að reyna að tryggja starfsframa sinn. Þú þarft að stjórna birgjum og vörukaupum, bæta og þróa vélarhluti og óhreinka hendurnar á samsetningarlínunni til að ná betri framleiðni og fanga athygli verksmiðjustjórans.

Þú þarft líka að nota endurvinnslu og takmarkaðar auðlindir verksmiðjunnar til að búa til ákveðna vélarhluta ef aðrir framleiðendur eru ekki að standa sig í stykkinu. Vegna þess að verksmiðjan þarf að keyra á hámarks afköstum mun framleiðslan ekki bíða eftir þér eða mistökum þínum. Verksmiðjustjórinn Sandra fer yfir velgengni þína og heldur verksmiðjunni gangandi.

Ég hef ekki spilað þetta spil nema tvisvar, en vá hvað það fangaði samt athygli mína frá byrjun. Flest Vital Lacerda spil hafa reyndar gert það, mér finnst alltaf skemmtilegt þegar heilinn á mér bráðnar við spilun og þetta spil er alveg þar. Ekki skemmir fyrir að ég spilaði spilið í fyrsta sinn á móti höfundinum sjálfum (á TTS) mér og flestum til mikillar skemmtunar. Reyndar var maður með sem var ekki alveg að ná hvernir man spilar á TTS, fyrir utan að hann virtist ekki vera með reglunar á hreinu, en það varð bara auka skemmtun.

Eftir að ég spilaði þetta spil hafa tvö önnur bæst í hóp uppáhaldsspila, og verður áhugavert að sjá hvar þetta og hin spilin enda á næsta ári.

# 34
Mynd
Paladins of the West Kingdom

Paladins of the West Kingdom

2021: # 113

Pladins of the West Kingdom gerist á miklum umrótartímum í kringum 900 eftir krist. Þrátt fyrir að hafa lagt töluvert til að reyna að byggja upp borg eru bæir í kring enn að verða fyrir árásum utanaðkomandi aðila. Sarasenar fylgjast með landamærunum á meðan að víkingar stela fé og bústofni. Jafnvel Byzantinar úr austri hafa sýnt sínar dekkri hliðar. Sem göfugir menn og konur þurfa leikmenn að ná til sín verkamönnum til að verjast óvinum, styrkja virkisveggi og deila út trú yfir landið. Sem betur fer eruð þið ekki ein því konungurinn hefur sent sína bestu riddara til að hjálpa til. Gerið því hestana klára og brýnið sverðin. Riddarararnir eru á leiðinni

Í spilinu ertu að reyna að fá sem flest stig til að standa uppi sem sigurvegari í enda spilsins. Þú færð stig fyrir að byggja útverði og styrkja virkisveggi og vinna munka á þitt band og friða utangarðsfólk. Í hverri umferð fá leikmenn til liðs við sig einn af riddurunum sem aðstoðar við að fá verkamenn til að ljúka verkefnunum. Í gegnum spilið auka leikmenn rólega við trúna, styrk og áhrif. Ekki mun það aðeins hafa áhrif á lokastigin heldur mótar það mikið aðgerðir leikmanna. Spilinu lýkur eftir sjö umferðir.

Shem Philips og Sam MacDonald eru algjörlega einstakt hönnunarteymi sem ná endalaust að koma saman nýjum hugmyndum í bland við skemmtileg þemu, sem svo eru ekkert endilega mikið að þvælast fyrir spiluninni. Það er mjög mikið í gangi í þessu spili alveg frá grunni og því var einungis búin til ein viðbót við það. Höfundar hafa sagt í viðtali að þeir sæju ekki hvernig hægt væri að bæta mikið meira við það. En það skiptir ekki máli, grunnspilið eitt og sér er alveg frábært. Eitt af því þyngra sem komið hefur frá þeim (fram að Scholars of the South Tigris) en um leið eitt af þeim skemmtilegri. Ég hef spilað Tomesaga tvisvar sinnum í gegn líka og sú tenging skemmir heldur ekki fyrir. Mæli með, alla daga.

# 33
Mynd
This War of Mine

This War of Mine: The Board Game

2021: # 21

This War of Mine er borðspilaútgáfa af samnefndum tölvuleik sem teiknar upp þar hörmungar sem íbúar stríðsþjáðra landa upplifa. Spilið er samvinnuspil þar sem þið leikið hóp af íbúum í borg sem er sundursprengd og illa leikin eftir margra ára stríð, allir aðframkomnir af þreytu og uppgjöf.

Á daginn leitið þið skjóls í ónýtu húsi þar sem þið fjarlægið rusl, leitið í herbergjunum, oft á bak við luktar dyrir. Þið smíðið rúm, byggið upp verkstæði, eldavélar, verkfæri, vatnssíur, litlar dýragildrur, ræktið upp matjurtargarða, tryggið öryggi húsnæðisins og, ef þið náðið að þrauka fram á vetur, að halda hita.

Á kvöldin og nóttunni eru helstu verkefnin að verja litla virkið ykkar og þær litlu eignir sem þið eigið gegn óþjóðalýð. Þeir sem eru nógu heilsuhraustir taka að sér að fara um borgina og leita að hlutum til að þrauka af næsta dag, næstu viku. Þið rekist á alls konar fólk, sem flest er bara að reyna að þrauka eins og þið. Þið gætuð fundið mat, vopn, lyf eða sígarettur á leiðinni og rekist á þjófa, hermenn, fórnarlömb, flóttafólk, nágranna og jafnvel meðlimi borgarráðs sem hver um sig hefur sína sögu að segja. Til að keyra söguna áfram eru notuð handrit (e. Scripts).

Ég hef aldrei spilað tölvuleikinn en rakst á gagnrýni um spilið hjá The Dice Tower, sem hvatti mig til að prófa. Og vá hvað þetta spil er vel gert! Það er erfitt að segja að það sé "gott" því það er svo svakalega dökkt. Það er mikið byggt á stuttum sögum eða efnisgreinum sem leikmenn lesa og drífa söguna áfram og það er alltaf bara dökkar sögur. Þú brýst inn í hús að stela mat og rekst á gamla fólkið sem býr þar. Stelur þú matnum til að halda lífi eða skilur þú hann eftir handa þeim? Textinn er einstaklega vel skrifaður og gefur raunsæja mynd af því sem gerist í svona stríðshrjáðum löndum. Ég get ekki spilað þetta spil oft þvi það er ekkert sérstaklega góð líðan á eftir. En það lendir samt alveg stundum á borðinu hjá mér.

# 32
Mynd
Arkham Horror: Third Edition

Arkham Horror (Third Edition)

2021: # 12

Árið er 1926 og annar áratugurinn er að ná hámarki. Klæðalitlir dansarar dansa til dögunnar á reykfylltum knæpum, drekkandi áfengi sem mafían útvegar. Þetta er hátíð hátíðanna í kjölfar stríðsins sem enda átti öll stríð.

Samt sem áður liggur skuggi yfir Arkham. Geimverur sem kallast "hinir öldnu" gnæfa í tómarúminu á milli tíma og rúms, tilbúnar til að skjótast inn í heim okkar. Stöðva þarf dulræna helgisiði og drepa geimverurnar áður en "hinir öldnu" taka yfir veröld okkar. Aðeins nokkrir rannsakendur munu lifa af hryllinginn í Arkham Horror. Mun þeim takast það?

Arkham Horror, þriðja útgáfa er samvinnuspil fyrir einn til sex leikmenn sem taka að sér hlutverk rannsakenda sem reyna að hreinsa upp veröldina af þeim sem nefnd hafa verið "hinir öldnu" og skósveina þeirra. Spilið er byggt á sögum H.P. Lovecraft og þurfa leikmenn að safna vísbendingum, berjast við óhugnaleg skrímsli og finna tól og bandamenn ef þau ætla sér að lifa þetta af.

Ég datt strax inn í Arkham sögurnar frá Fantasy Flight, eiginlega um leið og ég byrjaði að kynnast þessu áhugamáli. Það er eitthvað sérstakt við þessar sögur sem draga mig að, sem er alveg pínu sérstakt því mér finnst sögur H.P. Lovecraft alveg drepleiðinlegar. En FF virðist einhvernvegin ná að fanga kjarna sagnanna í skemmtileg spil og það er það sem dregur mig að borðinu. Og þessi útgáfa, þriðja útgáfa af borðspilinu er langt frá að vera uppáhalds þegar kemur að AH spilum frá FF ;-)

# 31
Mynd
Eldritch Horror

Eldritch Horror

2021: # 18

Fornir fjendur eru að hrella heiminn. Þú og nokkrir aðrir samstarfsmenn þurfa að ferðast um heiminn og vinna gegn líkunum til að halda aftur af hryllingnum sem er að koma. Slæg skrímsli, hrottaleg kynni og óljósir leyndardómar munu ýta þér að ystu brún og svo aðeins lengra. Og á meðan þurfið þið að funna út hvað er í gangi í hinum yfirnáttúrlega heimi sem ógnar okkar friðsæla lífi. Endirinn færist nær. Hefur þú hugrekki til að koma í veg fyrir tortímingu jarðarinnar?

Eldritch Horror er samvinnuspil hryllings og ævintýra fyrir einn til átta leikmenn sem ferðast um heiminn að safna vísbendingum, leysa dularfull mál og verja heiminn fyrir "hinum öldnu", það er, hinum öldnu sem eru að eyðileggja heiminn. Hver af hinum öldnu kemur með sinn eigin stokk af þrautum og rannsóknarspilum sem draga þig dýpra og dýpra ofan í sögu hvers og eins. Reyndu að komast að því hvaða nafni Azathoth nefnist eða berstu við Cthulhu á hafi úti.

Já það var nú ekki langt á milli Arkham og Eldritch Horror, aðeins eitt sæti, enda bæði alveg frábær spil í alla staði. Ég kynntist Eldritch aðeins fyrr og það ásamt kortaspilinu dró mig ofan í söguna. Þetta spil er svolítið með Indiana Jones þema líka, þar sem þú ert að leita að týndum fjársjóðum um leið og þú ert að berjast við hin illu öfl. Og þó svo að það sé orðið pínulítið bólgið með átta viðbótum (fjórum litlum og fjórum stórum) þá er spilið algjörlega frábært og ratar oft á borðið hjá mér. Það er alltaf tími fyrir Eldritch!