Topp 100 listi Hilmars (2022) - 90-81

# 90
Mynd
Food Chain Magnate

Food Chain Magnate

Nýtt á lista

Food Chain Magnate er virkilega djúpt kænskuspil um að byggja upp keðjur af skyndibitastöðum. Fókusinn liggur í að byggja upp fyrirtækið sitt með því að nota starfsfólk (spil), auglýsa vörurnar þínar, fylla á lagerinn og selja svo vörurnar til þeirra sem þess óska.

Það væri ofsögum sagt að þetta spil sé fallegt, þó svo reyndar að mér finnist teikningarnar á spilunum vera mjög flottar og passa í tiðaranda spilsins (Bandaríkin í kring um 1950) en spilaborðið sjálft er alveg skelfilega ljótt. En spilið sjálft er flott. Ég hef ekki spilað það oft, en í minningunni eru þær spilanir góðar og mjög mjótt var á mununum á milli efsta og neðsta sætis. 

Og þar liggur svolítið hnífurinn í kúnni, það er ekki gott að spila þetta spil með einhverjum sem kann það mjög vel því hann mun skúra gólfið með þér! En ef þú spilar við fólk af svipuðum styrkleika er það hin besta skemmtun. Ég á ekki eintak sjálfur en ég væri alveg til í að finna eitt, ef það finnst á viðráðanlegu verði.

# 89
Mynd
Lewis & Clack: The Expedition

Lewis & Clark: The Expedition

2021: # 67

Í Lewis & Clark eru leikmenn að stjórna könnunarleiðangri sem er ætlað að ferðast yfir Bandaríki Norður Ameríku. Takmarkið er að verða fyrstur til að komast að Kyrrahafinu. Hver leikmaður stýrir sínum eigin leiðangri og nýtur aðstoðar frá frumbyggjum við það auk þess að stjórna auðlindum á borð við tré og mat.

Spilið hefur oft verið kallað "hægasta kappakstursspil sögunnar", enda er það í kjarnann kapphlaup að komast til Kyrrahafsins. En það gerist oft bara 2-3 reiti í einu, hver leikmaður ferðast mjög hægt. Ég hef þó notið allra spilananna sem ég á af þessu spili og myndi mjög vera til í að grípa leik, þó svo að ég myndi líklegast ekki vilja spila það fjögurra manna, nema þá við einhverja sem hafa spilað það áður.

# 88
Mynd
Champions of Midgard

Champions of Midgard

2021: # 55

Champions of Midgard er miðlungsþungt verkamannaspil með teningaköstum þar sem leikmenn eru leiðtogar víkingasveita sem hafa ferðast til lítils hafnarþorps til að verja það gegn tröllum, draugum og öðrum vættum úr norskri sögu. Með því að sigrast á þessum epísku verum fá leikmenn heiður og velvilja guðanna. Í lok leiksins mun sá sem flest stigin hefur fengið vera tiltlaður Jarl og er hinn sanni Meistari Miðgarðs!

Jebb, enn eitt verkamannaspilið, þau eru alveg nokkur í mínu safni (enda eitt af mínum uppáhalds gangverkum). Þetta spil er búið að vera í uppáhaldi í mörg ár, eiginlega síðan við kepptum í því á Midgard 2018 um hinn eiginlega Meistara Miðgarðs (ég tapaði, og aftur 2019)! 

Þetta er eitt af þessum spilum samt sem ég spila aldrei án viðbótanna. Búið er að gefa út tvær viðbætur og ég nota þær báðar, Valhalla lagfærir "heppnisstuðulinn" ef þú skildir missa alla víkingana á sjó og Dark Mountains, sem meðal annars bætir við Bergrisum, grænum teningum ofl. skemmtilegu. Ég á svo mottuna, stóra kassann og fullt af promo-um líka!

# 87
Mynd
The Networks

The Networks

2021: # 11

Í The Networks ert þú og andstæðingar þínir að reka nyja sjónvarpsstöð og þú þarft að setja upp dagskránna. Til þess þarftu þætti, stjörnur og auglýsingar.

Þættir þurfa stjörnur og auglýsingar. Stjörnunar gefa þér auka áhorf og auglýsingarnar skila aur í kassann. Þú þarft allt sem þú mögulega getur og þarft að vera sneggri en andstæðingarnir til að grípa þættina og sýna á ÞINNI sjónvarpsstöð!

The Networks er búið að vera lengi í safninu mínu, eignlega bara alveg frá byrjun. Gunnar Óli kynnti mig fyrir því upprunalega og ég man að ég þurfti að hafa pínu fyrir að eignast það, pantaði í gegnum Philibert í Frakklandi. En það hefur sko ekki valdið mér vonbrigðum og ég er með 14 skráðar spilanir á því. Ég á líka (auðvitað) allar viðbæturnar og spila með þær reglulega, sérstaklega með ósamhverfu stjórnendurna. 

Spilið hefur fallið aðeins hjá mér, líklegast vegna þess að ég spila það ekki alveg nógu mikið lengur, en það vekur alltaf upp góðar minningar þegar ég sé það í hillunni hjá mér.

# 86
Mynd
Robinson Crusoe: Adventuers on the Cursed Island

Robinson Crusoe: Adventures on the Cursed Island

2021: # 98

Robinson Crusoe: Adventures on the Cursed Island er spil eftir Ignacy Trzewiczek sem einnig hefur gert Imperial Settlers og Eleven. Nú tekur hann okkur á eyðieyju þar sem við erum að stjórna skipbrotsfólki sem horfir í augu við stórkostleg ævintýri. Þú þarft að byggja skýli, finna mat, berjast við vilt dýr og búa þig undir snarpar veðurbreytingar. Byggja veggi utan um hýbíli þín, þjálfa húsdýr, búa til vopn og leggja gildrur til að geta nærst.

Spilið er erfitt, oft talið eitt af erfiðari spilum sem til eru. Það er samvinnuspil, sem hjálpar, en samt er alveg ótrúlegt hvað það getur verið rosalegt að gera bara einfaldan hlut eins og að byggja bálköst. Já eða borða ber!

Þegar þú lendir í einhverjum viðburði þarftu nefnilega að taka spilið og setja í bunkann þinn aftur (og stokka) og þá er möguleiki að spilið komi upp aftur. Og berin sem þú borðaðir fyrir fjórum umferðum síðan reyndust skemmd og þú ert komin með bullandi magapínu ...

Samvinnuspil finnst mér mjög skemmtileg og þetta er klárlega gott. Ég spila það því miður ekki nógu oft, en ég hlakka samt til þegar stóri kassinn kemur af Kickstarter (vonandi seinna á þessu ári).

# 85
Mynd
Shakespeare

Shakespare

2021: # 124

Leikhúsin í London iða af lífi. Eftir eina viku mun hin hátign, drottningin af Englandi koma og sjá sýningarnar og velja eina þeirra til að styðja til frekari frama. Þetta er sko tækifæri lífsins fyrir unga og upprennandi leikritaskáld sem eru að kveikja í alþýðunni með sífellt dirfskulegri leikritum. En hvernig getur þú búið til meistaraverk á svona stuttum tíma? Sá sem hefur svarið við þeirri þyrndu spurningu mun líklegast skrá sig á spjöld sögunnar!

Í Shakespeare ertu að spila leikhússtjóra sem þarf að ráða leikara, handverksfólk, skartgripasmiði og aðra til að geta sett allt saman fyrir sýninguna í vikulokin. Spilið er spilað yfir sex daga og á hverjum degi ráða leikmenn nýtt starfsfólk, æfa sýninguna ofl. En þú mátt ekki samt keyra starfsfólkið þitt út, því annars eru þau ekki með neina orku til að vinna á morgun.

Það er eitthvað við þessa gömlu perlu sem heillar mig. Teikningarnar eru flottar og ég tengi við þemað, hafandi tekið þátt í nokkrum áhugamannauppsetningum. Kemur ekki oft á borðið en skilur alltaf eftir sig góðar minningar.

# 84
Mynd
Russian Railroads

Russian Railroads

2021: # 46

Í Russian Railroads keppa leikmenn í spennandi kapphlaupi um að byggja upp stærstu og bestu lestasamgöngurnar.Til að gera það nota leikmenn verkamenn sína til að framkvæma ýmis verkefni.

Spilið er verkamannaspil. Og geggjað sem slíkt. Það hefur skemmtilegt gangverk með hvernig þú færir lestarnar þínar og teinana. Svörtu hreyfa sig fyrst og lengst en búa til fá stig en þeir þurfa alltaf að vera fremstir. Aftast er svo ljósu teinarnir, þeir komast venjulega styst en þú færð langmest af stigum fyrir þá.

Stigaflæðið í þessu spili er mjög áhuga vert. Þú færð 10-15 stig í fyrstu umferð, kannski 15-30 í næstu ... og svo 120! 245! Og endar með 300 stig + í lokinn, sem er pínu fyndið og er mjög ruglandi þegar þú sérð fyrstu tíu stigin þín í fyrstu umferð.

Klárlega spil sem ratar sjaldan á borðið, en nú þarf að vera breyting á, enda á ég orðið Ultimate útgáfuna með öllum viðbótunum.

# 83
Mynd
Lawyer Up

Lawyer Up

2021: # 45

Lawyer Up er tveggja manna ósamhverft kortaspil hvar leikmenn taka að sér hlutverk lögfræðinga sem eru að takast á hvor við annan í dómssal. Annar leikmaðurinn er í hlutverki saksóknara og hinn í hlutverki verjanda. Hvert mál hefur eitthvað sérstakt fram að færa og sögurnar eru frá einföldum húsbrotamálum upp í morð.

Ég er mikið fyrir ósamhverf spil og tveggja manna ósamhverf spil finnst mér algjört æði. Lawyer up hefur t.d. þann eiginleika að "málið" sem þú ert að flytja fyrir dómi er ekki með fyrirfram ákveðna niðurstöðu, heldur er það málaflutningurinn þinn sem ræður því hvort viðkomandi er sekur eða saklaus. Og þú getur því spilað málin aftur og aftur með mismunandi niðurstöðu. Eitt af þessum spilum sem flaug ekkert hátt en má klárlega fá meiri athygli. Síðast þegar ég vissi fékkst það í Nexus ;-)

# 82
Mynd
Automobiles

Automobiles

2021: # 137

Automobiles er stokkasmiður, eða eiginlega pokasmiður, því þú ert að kaupa þér kubba til að setja í poka og draga svo x-marga upp úr pokanum aftur til að keyra bílinn þinn áfram. En svo getur þú líka notað þá til að auka lipurð bílsins á brautinni, fá betri aðstoðarmenn og draga fram það besta úr vélinni, sem allt telur svo í að ná að vera fyrst í mark.

Kubbarnir í pokanum eru tengdir við spil. Gulur kubbur getur þýtt A í þessu spili og B í næstu spilun. Sem er alltaf gaman. Sá hluti af gangverkinu var innleiddur seinna í spilið Cubitos.

Ég spilaði Automobiles fyrst líklega árið 2017 og því með fyrstu spilum sem ég spilaði. Og því á það sérstakan stað í mínu hjarta. Ég man líka eftir að hafa kennt dóttur minni það og henni finnst það frábært líka, þannig að annað hvort er spilið gott eða genamengið bilað ....

Það tekur smá stökk upp á milli ára en líklegast er það vegna þess að ég spilaði það tvisvar á árinu. Og ég spilaði líka Cubitos, sem minnti mig bara á Automobiles .....

# 81
Mynd
Expedition to Newdale

Expidition to Newdale

2021: # 182

Hástökkvarinn í þessu hólfi er klárlega Expedition to Newdale, en það stekkur upp um heil 101 sæti (samt ekki met fyrir þennan lista ;-) )  Spilið byggir á eldra spili sem heitir Oh My Goods! og er eftir Alexander Pfister, þann sama og gerði Maracaibo og Great Western Trail.

Spilið er "campaign" spil (ekki legacy spil) og gerist fimm árum eftir "viðburðina" í Oh My Goods Escape to Canyon Brook, sem var tilraun höfundar til að setja söguþráð í spil sem hefur lítið sem ekkert þema. Sagan er ekki löng en hún er skemmtilega ávanabindandi, man langar að heyra meira. 

Gangverkið í spilinu er fjölnotkunarspil. Ef spilið er á hvolfi er það peningur. Hversu mikill peningur? Það fer eftir því á hvaða byggingu það hvílir. Eitt spil getur verið 1, 3, 5 jafnvel tíu peningar hvert. Það er líka framleiðslustöð. Og spilið framleiðir bara ef það fær hráefni. Hvernig færðu hráefni? Jú, spilunum í stokknum er flett þangað til heil sól er komin og þá færðu að taka ákvörðun hvort þú ætlar að framleiða á fullum afköstum eða hálfum (þarft færri hráefni). Svo er flett aftur þangað til aftur er komin sól ... sem er "ýttu á heppnina" gangverk.

Fullt af gangverkum, skemmtileg saga og góð minning frá því að Pfister sjálfur kenndi mér spilið á Essen 2019 skilar spilinu inn á Topp 100 hjá mér!